28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

19. mál, bókhald

Skúli Guðmundsson:

Hv. 5. landsk. talaði enn um það, að lausblaðabækur væru varhugaverðar vegna þess, að þar væri svo auðvelt að breyta og falsa reikninga. Ég vil aðeins benda á, að það er alveg eins hægt að falsa viðskiptamannareikninga í öðrum bókum en lausblaðabókum, því að ef vilji er á annað borð fyrir hendi til slíkra hluta, þá er það ósköp auðvelt. Hann sagði, að að vísu væri hægt með mikilli yfirlegu að rannsaka slíka hluti, en ég vil benda á, og það veit ég, að hv. þm. er ljóst, af því að hann er áreiðanlega vel fær í bókhaldi sjálfur, að þar sem tvöfalt bókhald er viðhaft, þá er ekki hægt að falsa einstaka viðskiptamannareikninga, því að það hefir þær afleiðingar, að uppgjörið strandar.

Eins og ég gat um áðan, er vitanlega hægt að koma við fölsunum í fleiri bókum en lausblaðabókum, ef menn á annað borð vilja viðhafa slíkt, en þar sem er um mjög marga viðskiptamenn að ræða, eins og t. d. við verzlunarfyrirtæki, sem hafa viðskiptamenn, sem skipta þúsundum, þá er áreiðanlegt, að það er að mörgu leyti heppilegra fyrir þessi fyrirtæki að hafa lausblaðabækur fyrir viðskiptamannareikninga; með því móti einu er hægt að hafa reikningana eftir stafrófsröð, sem gerir stórum auðveldara að hafa yfirlit yfir bókhaldið og færa inn í bækurnar, en ef reikningarnir eru í innbundnum bókum, þá er ekki hægt að hafa reikningana í þeirri röð, a. m. k. ekki nema með því að hafa miklu fleiri bækur en þörf er á, og miklar eyður á milli einstakra reikninga.

Hv. þm. Snæf. viðurkenndi, að auðveldara væri að finna skekkjur, sem kynnu að koma fyrir í bókhaldinu, ef um tvöfalt bókhald væri að ræða, en ekki einfalt, og er þetta í samræmi við það, sem ég hefi áður haldið fram, að það sé meiri trygging fyrir því, að rétt sé fært, ef tvöfalda kerfið sé notað. — Til viðbótar því, sem ég hefi áður sagt um það, hve tvöfalda bókhaldið sé mikið notað, get ég upplýst, að þau útgerðarfyrirtæki, sem ég hefi haft kynni af, nota tvöfalt bókhald.