07.05.1938
Sameinað þing: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

1. mál, fjárlög 1939

*Pétur Ottesen:

Ég á hér tvær brtt., sem ég er einn flm. að, á þeim þskj., sem fram eru komin, og auk þess er ég á einni brtt. hér enn, sem hv. þm. Vestm. er flm. að, og hefir hann þegar gert grein fyrir þeirri brtt. Get ég því látið niður falla að minnast á hana.

Af þeim brtt., sem ég vildi minnast á hér, vil ég fyrst drepa á till. á þskj. 444, I, snertandi flóabátaferðir, þar sem farið er fram á, að styrkurinn til Akranessbátsins verði hækkaður um 500 kr. Ég hefi áður gert grein fyrir þörfinni á því, að þessar ferðir nytu nokkru meiri styrks heldur en þær gera nú, með tilliti til þess, að þarna er um mjög langan tíma ársins ekki um að ræða daglegar ferðir. En án þess að svo sé, geta ekki bændurnir á svæðinu utan Skarðsheiðar, eða í ytri hreppum Borgarfjarðarsýslu, notað þann mjólkurmarkað, sem þeir hafa hér í Reykjavík, því að yfir vor-, sumar- og haustmánuðina mundu þeir ekki geta komið mjólkinni í söluhæfu ástandi á markaðinn, nema með því að geta komið henni daglega. Og það er með tilliti til þess, sem farið er fram á, að þessi litli fjárstyrkur verði veittur, sem tekið er fram í brtt., að eigi að ganga til Akranessbáts.

Hin brtt., sem er á þskj. 425, XXXV, við 22. gr., er um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs fyrir Ytri Akraneshrepp allt að 240 þús. kr. lán til vatnsveitu á Akranesi, þó ekki yfir 80% af stofnkostnaði veitunnar, gegn þeim tryggingum, sem ríkisstjórnin metur gildar. Að ábyrgjast ekki nema þennan hluta kostnaðarverðs fyrirtækisins er regla, sem fylgt hefir verið að undanförnu. í sumum tilfellum a.m.k., um slíkar ábyrgðir. Ég þarf ekki að lýsa því hér, hver nauðsyn er á því fyrir Akranes að fá vatnsveitu, bæði með tilliti til vatnsnotkunarþarfar í kauptúninu sjálfu, og líka með tilliti til þess, að síðan hafnarbætur komu á Akranes, hefir siglingum fjölgað þangað mjög, og þess vegna er líka, með tilliti til þessara siglinga, gott að geta boðið upp á gott neyzluvatn þar. Það er ákaflega vont fyrir stærri skip að þurfa að sigla til Reykjavíkur til þess að fá vatn, þó að þau geti fengið aðrar nauðsynjar sínar allar á Akranesi og fulla afgreiðslu að öllu öðru leyti. Þess vegna er þetta afskaplega mikið aðkallandi nauðsynjamál, og það því fremur sem sumstaðar í kauptúninu er neyzluvatn mjög slæmt og alveg á takmörkunum með, að hægt sé að nota það. Auk þess vofir ákaflega mikil hætta yfir svo fjölmennu kauptúni vegna skorts á vatnsveitu þar, vegna þess að sóttkveikjur geta borizt í brunnana og valdið stórfelldum veikindum og manndauða. eins og átt hefir sér stað. t.d. þegar taugaveikisbaktería hefir komizt í nevzluvatn.

Það hefir ekki tekizt á undanförnum þingum að fá þessa ábyrgðarheimild samþ., og það hefir verið borið fyrir, að yfirleitt verði ekki veittar neinar slíkar lánsábyrgðarheimildir vegna vatnsveitna, þó að fyrir hafi legið umsóknir um það á þingi. Nú virðist mér nokkra stefnubreytingu mega um þetta sjá hér á hinu háa Alþ., þar sem Alþ. hefir samþ. viðbótarábyrgðarheimild fyrir Sauðárkrókshrepp fyrir láni til hafnargerðar þar, þar sem nokkur hluti þess láns, sem ábyrgð er veitt fyrir, á að vera notaður til vatnsveitu vegna kauptúnsins og í sambandi við höfnina þar. Mér virðist því, með tilliti til þessarar ábyrgðarheimildar fyrir Sauðárkrókshrepp, ekki hægt með sanngirni að mæla á móti þessari ábyrgðarheimild, sem ég fer hér fram á vegna vatnsveitu á Akranesi, ef veita á héruðum láusábyrgðir á grundvelli jafnréttis. Þar sem fjvn. fyrir sitt leyti er búin að samþ. þessa till. um Sauðárkrók — og mun till. því ná fram að ganga á Alþ. —–, þá sé ég ekki ástæðu til að gera þarna upp á milli. Og er þessi ábyrgðarheimild því fremur nauðsynleg fyrir Akranes sem þar er meiri fólksfjöldi en á Sauðárkróki, og líka fyrir það, að siglingar eru enn meiri þangað, og því er brýnni þörf á vatnsveitu þar heldur en á Sauðárkróki, þó að ég vilji ekki gera lítið úr þeirri þörf, sem kann að vera á því fyrir Sauðárkrókshrepp að fá þessa lánsheimild, og geta komið á vatnsveitu á Sauðárkróki. Eg vænti þess vegna, að hér verði tekið með sama velvilja á málaleitun. sem ég flyt fyrir Akranes, og þegar hefir verið sýndur hliðstæðri málaleitun fyrir Sauðárkrók.

Ég á ásamt hv. þm. Mýr. brtt., sem hefir ekki enn verið útbýtt, en er á leiðinni úr prenti, og er bezt að lýsa henni nú þegar. Hún er á þá leið, að tekin verði upp í 22. gr. fjárl. heimild fyrir ríkisstj. til þess að gera annað tveggja, eftir því, hvort hagkvæmara þykir að undangenginni rannsókn. að reisa rafmagnsstöð við Andakílsárfossa og leiða þaðan rafmagn til Akraness og Borgarness og nágrennis eða flytja rafmagn til þessara staða frá Sogsvirkjuninni og taka lán til þeirra framkvæmda.

Ástæðan til þessarar málaleitunar og þess, að við viljum láta báðar þessar leiðir standa opnar, er sú, að það hafa verið uppi óskir um það í héraði, að gengið verði úr skugga um það, áður en í verkið er ráðizt, hvort sé hagkvæmara fyrir héraðið. Þessari rannsókn, sem nú er í höndum vegamálastjóra og rafmagnsstjóra, er langt komið, svo að á þessu sumri gætu legið fyrir fullkomnar athuganir í þessu máli.

Nú vitum við flm. brtt. ekki, hvort fram gengur á þessu þingi frv. það um raforkuveitur ríkisins, sem liggur í n. í Ed. Í því frv. er ríkisstj. gefin fullkomin heimild til hvors sem er, að byggja nýjar rafmagnsstöðvar eða leiða rafmagn frá Soginu til hinna ýmsu staða. Hvor leiðin sem er, sem felst í brtt. okkar hv. þm. Mýr., getur því fallið undir frv. um raforkuveitur. Það mætti segja, að ef frv. verður að l., þá þurfi ekki að veita stj. slíka heimild. Þó ætla ég, að frv. sé svo úr garði gert, að gengið sé út frá því um allar stærri virkjanir, að ákvörðun verði tekin um það í hvert sinn með fjárlagaákvæði, að veita stj. heimild til framkv.

Það er svo, að þörfin á rafmagni á Akranesi og í Borgarnesi er mjög brýn. Það stendur svo á á Akranesi, að hafður hefir verið olíumótor, en aflstöðin er orðin allt of lítil, og verður því ekki hjá því komizt, ef mikill dráttur verður á, að rafmagn fáist, að leggja í mikinn kostnað við að stækka stöðina. Það þarf að kaupa 1–2 mótora í viðbót. Það er mjög slæmt að þurfa að leggja í slíkan kostnað, sem er svo að nokkru leyti unninn fyrir gýg, þegar rafmagnsþörfin leysist á annan hátt.

Í Borgarnesi er gömul og mjög úrelt stöð, sem er ákaflega dýr í rekstri og líka þarf að breyta. Það er mjög slæmt þar, ekki síður en á Akranesi, að þurfa að leggja í mikinn kostnað, þar sem von er um það á næstunni, að rafmagn fáist annaðhvort úr Andakilsárfossum eða úr Soginu.

Með tilliti til þess, sem ég nú hefi skýrt frá, vildi ég mega vænta þess, að þegar búið er að leysa rafmagnsmálið hér í Rvík og í Hafnarfirði, verði það þessir staðir, ásamt nágrenni Sogsins, sem fyrstir koma til greina við tilfærslu rafmagnsins.

Um virkjun Andakílsárfossa er það að segja, að framtíðarhugmyndin er sú, að þeir verði einn liður í rafveitukerfi fyrir Suðurland, til viðbótar við Sogið, og er gert ráð fyrir, að þá verði rafmagnið leitt allar götur vestur á Snæfellsnes.

Við flm. væntum þess, að brtt. okkar verði vel tekið og að hún verði samþ. Rafmagnsmálið allt er svo mikið mál, að sjálfsagt er að afgreiða löggjöf um það, en kringumstæðurnar segja til um, hversu fljótvirkir við getum orðið að hagnýta okkur fossana til þess að lýsa og hita og reka ýmsan iðnað í landinu.