07.05.1938
Sameinað þing: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

1. mál, fjárlög 1939

*Ólafur Thors:

Ég hefi leyft mér að flytja eina brtt. við fjárl., á þskj. 485, IV, og er hún mjög smávægileg, að því er útgjöld snertir, svo að ég vænti þess, að hún fái góðar undirtektir. Hún er um það, að Íþróttaskólanum á Álafossi verði veittur 1500 kr. styrkur í staðinn fyrir 500 kr., sem hv. fjvn. lagði til.

Ég er hv. fjvn. í sjálfu sér þakklátur fyrir þá viðurkenningu, sem felst í fjárveitingunni til skólans og skal ég sízt hallmæla hv. n. fyrir það, að fjárveitingin er ekki há, því að það er miklu meiri þörf á mjög róttækum niðurskurði á fjárl. heldur en að úthluta til hægri og vinstri, eins og gert hefir verið á mörgum sviðum.

Ég get látið undir höfuð leggjast að færa rök fyrir þessari till. með því að vísa til fyrri umræðna um Íþróttaskólann á Álafossi hér á Alþingi, enda er starfsemi þessa skóla svo kunn hv. þm., að ný rök hafa þar af leiðandi ekkert gildi. Menn þekkja þetta mál, eins og það liggur fyrir, og vita, að Sigurjón Pétursson er ef til vill sá íslenzkur íþróttafrömuður, sem fremst hefir staðið og miklar þakkir á skilið. Ég leyfi mér að vænta, að þessi till. mæti góðvilja.

Svo vil ég þakka hv: fjvn. fyrir till., sem hún hefir gert og varða sérstaklega mitt kjördæmi. Ég vil í því sambandi sérstaklega minnast á till. um að standast kostnað við sandgræðslu suður á Reykjanesi, og þó að hún að formi til varði ef til vill aðallega Hafnirnar, þá er það svo, að ef ekkert væri að gert í þessum efnum, mundi bráðlega af hljótast meiri skaði, sem snerti fleiri hreppa í þessu kjördæmi.

Ég get sagt, eins og sumir aðrir hv. þm., að það er mjög margt í afgreiðslu fjárl., sem gæti gefið fullt tilefni til umræðna af minni hálfu, en þar sem ekki er fjölmennara í þingsalnum en raun ber vitni, læt ég á þessu stigi málsins niður falla að gera að umræðuefni það, sem mér þykir miður fara, eða það, sem ég er sérstaklega ánægður með í afgreiðslu fjárlaganna.