28.03.1938
Efri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Í sjálfu sér er ekki ástæða til að taka upp almennar umræður um beina og óbeina skatta út af þessu litla frv. Enda er ekki um svo háa álagningu að ræða, að grundvallarreglur þurfi að koma þar til greina. Gjaldið er mér sagt að sé ákaflega lágt á mestu nauðsynjavörum almennings, svo sem matvörum, þannig að telja má, að það verki afarlítið á afkomu almennings.

Annars er nú sannleikurinn sá, að það er ekki hægt að ná inn nauðsynlegu fé til ríkisþarfa, án þess að það komi niður á öllum fjöldanum. Það hljómar náttúrlega vel, að leggja þungann á þá, sem breiðust hafa bökin, og þá útsvörin aðallega á verzlanirnar. En það hlýtur að koma fram í aukinni álagningu fyrirtækjanna og þannig dreifist það á alian almenning. Eins og hv. meðnm. minn, hv. 1. þm. Eyf., sagði, hefir reynslan skorið úr um þetta, og Alþfl. hefir orðið að ganga inn á það að ná inn meginhluta ríkisteknanna með óbeinum sköttum. Þm. hans hafa á undanförnum árum verið með sífelldri hækkun þessara óbeinu skatta. — Það er athyglisvert, að einn af víðsýnustu mönnum Alþfl., maður sem hefir tamið sér að líta á hlutina mjög raunverulegum augum, Jónas Guðmundsson, undirbjó löggjöf um nýja tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög og flutti með öðrum þm. frv. um þau efni, þar sem farið var inn á sömu leið og í þessu frv., ekki aðelns í Vestmannaeyjum og á Siglufirði, heldur í öllum kaupstöðum á landinu, svo að þetta hefði orðið óbeinn skattur á allri þjóðinni. Það er alveg rétt hjá meðnm. mínum, að gjald ríkisins til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga er einmitt fengið á þennan hátt, mestmegnis með óbeinum sköttum, eins og aðrar ríkistekjur.

Ég vil ekki segja, hvaða afstöðu ég hefði tekið, ef Vestmannaeyingar hefðu komið nú í fyrsta sinn með tillögu um vörugjald hjá sér. En gjaldið er þar komið í hefð og auk þess aðeins um heimild Alþingis að ræða — um það, hvort eigi að leyfa þeim að leggja þetta gjald á sjálfa sig. Mér þykir hart, ef á að banna mönnum að leggja á sig gjöld til sameiginlegra þarfa.

Mótspyrnan gegn því, að aðrir bæir tækju þetta upp, hefir byggzt á því, að þar væri hægt að skattleggja utanbæjarmenn, sem verzla á staðnum. Þó að t. d. Siglufjörður sé langt frá öðrum byggðum, er hann samt landfastur, og þegar samgöngur við hann batna við veg yfir Siglufjarðarskarð, má telja víst, að verzlun Fljótamanna færist þangað. Þess vegna hefir Siglufjörður ekki alveg sömu afstöðu og Vestmannaeyjar.

Svo skal ég ekki orðlengja um þetta mál.