28.03.1938
Efri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Frsm. minni hl. (Erlendur Þorsteinsson):

Herra forseti! Ég ætla ekki í þetta skipti að fara í neinar deilur um beina og óbeina skatta. Hv. 1. þm. Reykv. talaði um, að það væri hart, ef ekki ætti að leyfa Vestmannaeyingum að leggja gjald á sjálfa sig. Ég verð að benda honum á, að vörugjaldið hefir ekki verið samþykkt nú í bæjarstjórn Vestmannaeyja, þó að hv. flm. frumvarpsins gerði ráð fyrir að það yrði, og því síður liggur fyrir almenn ósk frá kaupstaðarbúum þar.

Það er algerður útúrsnúningur, að hér sé um engar nýjar álögur að ræða, því að lögin um tekjur bæjar- og sveitarfélaga frá síðasta þingi gera ráð fyrir nýjum tekjum, þ. e. nýjum álögum, sem eiga að koma í stað aukatekna sem þessara í Vestmannaeyjum. Þar er m. a. leyfður fastelgnaskattur, og ef hann er innheimtur í Vestmannaeyjum jafnt og annarsstaðar, getur hann gefið bænum 20–30 þús. kr. á ári, eða svipað eins og vörugjaldið gefur. Þá er gagnslaust um það að tala hvort lögin um vörugjald veita nýja heimild eða endurnýja niðurfelldan skatt, það er ný aukning á gjaldabyrði almennings fyrir því.

Alþfl. hefir orðið að ganga inn á það að hækka í bráð óbeinu skattana nálega að sama skapi og hina beinu. Um leið og dæmt er um það, verður að minnast þeirra verklegu framkvæmda, sem hækkunin stafar af. Ég get sagt fyrir mig, að ég tel mikinn mun á því, hvort samþ. er frv. um tekjuauka handa ríkisstjórninni, sem veitir fénu aftur til almennings í meiri atvinnu, eða hinu, að samþ. vörugjald til þess að spara borgurum einhvers bæjarfélags útsvör og fasteignaskatt.

Þá talaði hv. 1. þm. Reykv. um Jónas Guðmundsson og reyndi að telja skoðanir hans sér til tekna. En það hefir nú sýnt sig að sú skoðun, sem þm. eignaði Jónasi, hefir orðið í minni hl. hjá þeim, sem að síðustu fluttu frv. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga og komu því í gegn. Alþfl. hefir ekki tekið upp þessa skoðun, og Framsfl. ekki heldur; a. m. k. hefir hæstv. fjmrh. látið það mjög ákveðið í ljós, að bæirnir ættu ekki að afla sér fjár þannig.

Ég er á móti þessu frv., sérstaklega af þrem ástæðum, sem ég lýsti í fyrri ræðu minni: Þessar álögur yrðu innheimtar af sömu mönnum, sem nú borga aukna skatta, sem eiga að koma í vörugjaldsins stað; það yrði tvöfaldur skattur. Í öðru lagi kemur vörugjald þyngst niður á þeim, sem hafa stærstar fjölskyldur að fæða og klæða og mega sízt við álögunum. Í þriðja lagi er frv. ekki nauðsynlegt, vegna þess að Vestmannaeyjar geta notað sér ný lagaákvæði um fasteignaskatt og fengið sinn skerf úr jöfnunarsjóði, miðað við kostnað af kennaralaunum, elli- og örorkubótum og hlutdeild í jöfnun fátækrastyrks, ef hagur bæjarins versnar.