28.03.1938
Efri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Hv. þm. er kunnugt um, að ég hefi alltaf verið á móti frv., sem fram hafa komið á þingi og stefnt í sömu átt og þetta, að veita einstökum bæjar- og sveitarfélögum möguleika til að veita þeim gjöldum, sem þegnar viðkomandi bæjar- eða sveitarfélags eiga að greiða, yfir á aðra, sem skipta við þá. Ég hefi fullkomlega viðurkennt og viðurkenni að Vestmannaeyjar hafa þarna sérstöðu, þar sem þær selja miklu minna til annara en þeir kaupstaðir aðrir, sem farið hafa fram á að fá svipað vörugjald. En þó er það svo, að þeir selja dálítið til annara, og meira en einn og einn tóbaksbita, eins og hv. þm. sagði. Ég er á móti þessari stefnu. Ég er líka á móti þeirri stefnu, sem þarna kemu, fram, að leggja þetta á sem heildargjald, sem liggi á þunganum og kemur því meir niður á hinum fátækari, sem framfleyta stærri fjölskyldum, en hinum betur stæðu. Ég er á móti háðum þessum stefnum. Ég get því ekki fylgt þessu frv. eins og það liggur fyrir. Fyrir sig væri að fylgja því, ef það hefði eitthvert tímatakmark.

Annars skildist mér á hv. þm. Vestm., að hann byggði þetta frv. nú aðallega á þörf Vestmannaeyja, sem hann sagði, að ekkert hefði verið bætt úr með jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga. Í sambandi við það vil ég spyrja hann að því, hvort hann álítur, að sá grundvöllur, sem greitt er eftir úr jöfnunarsjóði, sé þá ranglátur? Ef hann er það, þá á hann að skjóta geiri sínum þangað og leggja til, að hann sé endurskoðaður. Ef hann er réttlátur, og hann hefir ekkert talað um, að hann væri ranglátur, aðeins um það, að Vestmannaeyjar fengju þaðan ekkert, þá hafa Vestmannaeyjar minni þörf fyrir þetta gjald en aðrir kaupstaðir. Annaðhvort er, að engin þörf er á þessu gjaldi eða grundvöllurinn, sem skipt er eftir, er ranglátur, og þá er að endurskoða hann.

Ég er í vafa um, hvort ég fylgi þessu frv. breyttu, en óbreyttu fylgi ég því ekki.