28.03.1938
Efri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég skal ekki verða langorður að þessu sinni. Það vill nú jafnan verða svo, að það veldur miklum óróa, ef snara er nefnd í hengds manns húsi. Út frá því er hann líka skiljanlegur sá mikli hvalablástur, sem orðið hefir hér út af því einn, að ég benti hv. sósíalistum lítillega á fortíð sína. Þeir herrar, hv. 3. landsk. og hv. 11. landsk., hafa verið að reyna að halda því fram, að ég hefði borið frv. þetta fram til þess að hlífa einhverjum grósserum í Vestmannaeyjum, en íþyngja aftur einhverjum, sem ekki ætti aðra málsvara en þá hina sömu, sem sömdu 5 ára áætlunina frægu. (SÁÓ: Áætlunin var aldrei nema til 4 ára). Mér er sama, því að það var löngu búið að svíkja hana fyrir þann tíma. Annars skal ég ekki að þessu sinni fara að eyða orðum að því að útmála allan þann svíkavef, sem þessir háu herrar hafa ofið. Það gerir tíminn og sagan. En það eitt vil ég segja þeim, að það tekur enginn maður alvarlega þetta gjálfur þeirra um, að þeir séu málsvarar lítilmagnans. Menn brosa bara góðlátlega að einfeldni þeirra og hugarburði. Annars þykir mér dálítið leitt, þegar hv. 3. landsk. tekur þessar rokur, af því að mér er persónulega vel við hann. Ég virði honum því til betri vegar, þó að hann þurfi einstöku sinnum að fá tækifæri til þess að rasa út og berja bægslunum.

Eitt af því, sem hrökk upp úr hv. þm. í öllum bægslaganginum, var það, hversvegna Vestmannaeyjakaupstaður gæfi sig ekki upp, úr því að hann væri svo illa stæður að þurfa að taka þetta umrædda vörugjald. Ég verð nú að segja, að mér finnast það nokkuð mikil brjóstheilindi hjá hv. þm., að spyrja svona, vitandi það, að flokkur hans hefir gert allt, sem hann hefir mögulega getað, til þess að koma bæjarfélagi þessu á kné, enda þótt það væri sízt verr statt fjárhagslega en mörg önnur bæjarfélög.

Ég mun ekki fara mikið inn á umræður um menningarmálin. Það má vel vera, að hv. 3. landsk. sé mikill menningarfrömuður, enda þótt enginn hafi heyrt þess getið, hvorki ég né aðrir. Það er nfl. svo margt, sem við sjáum ekki, þessir vesalingar, sem höldum okkur við jörðina, sem hinir miklu andar fá skynjað.

Við hv. 11. landsk. hefi ég lítið að segja. Hann sagði, að ég væri heldur linjulegur maður í framkomu. Þetta má til sanns vegar færa. Ég velti ekki þungum hlössum hér á þingi eða annarsstaðar. Það skyldi gleðja mig, ef hann reyndist sá stóri og mikli maður í sínum kaupstað, og geri ég ráð fyrir, að hann láti það ljós sitt skína fyrir báða þá flokka, sem að honum standa. Ég vona, að hann verði þar ekki neitt linjulegur eða það verði neinn fölvi á honum né neitt það, sem sýni, að hann sé ekki í blóma lífsins.

En það má hv. þm. vita, að það eru fleiri en ég, eins og kom fram í ræðu hv. 1. þm. Eyf., sem er farið að verða klígjugjarnt af þessum söng jafnaðarmanna um hinn staka vilja þeirra til að létta byrðar fátæklinganna, jafnhliða því sem þeir stagast á því, að allir aðrir vilji gera fátækum mönnum allt til meins. Ég hefi ekki verið að gera neitt litið úr hv. þm., en svo óvenjulegur maður og spengilegur og röggsamur gæti náttúrlega gert betra heldur en að bera hér á borð gamlar leifar og fúlar dreggjar af kenningum sósialista, sem hafa klingt í eyrum manna utan þings og innan, en eru ekkert annað en innantóm orð, þótt hann þykist þurfa að bera vopn á framgang nauðsynlegs máls.

Þá ætla ég að síðustu litillega að svara fyrirspurn hv. 3. landsk. um það, hvað það aðallega væri, sem sósialistar hefðu staðið fyrir í löggjöf, sem þyngt hefði byrðar fátæklinganna í bæjunum. Ég hélt satt að segja, að hv. þm. þyrfti ekki að spyrja svona, því að það mætti verja löngum tíma til að tala um öll þau lagaboð, sem sósíalistar hafa þvingað í gegn síðustu árin, sem öll miða að því að auka byrðar fátæklinganna í bæjunum að meira eða minna leyti. Ég skal benda hv. 3. landsk. á lítið dæmi, ekki af því, að ég telji það stærsta dæmið, heldur af því, að það dregur upp svo skýra mynd af aðgerðum sósíalista til þess að þyngja fyrir í bæjunum og gera ástandið þar erfiðara. Sósiallstar í Reykjavík gátu ekki sætt sig við það, að bærinn hefði þar ráðningarskrifstofu fyrir verkafólk, svo að þeir börðu í gegn löggjöf um vinnumiðlun, sem auðvitað var gert í því skyni að fá ítök í vinnumiðlun í Reykjavík, en það mátti til með að taka hina smælingjana með í l. til yfirskyns, svo að það væri ekki alltof opinbert, að þetta frv. væri borið fram til þess að ná yfirráðum í bæjarvinnunni í Reykjavík. Árangurinn varð sá, að lögfest var að setja á stofn vinnumiðlunarskrifstofu í hinum atvinnulausu kaupstöðum. Áður hafði það gengið svo í mínu bæjarfélagi, að vinnumiðlunin fór fram í þegnskylduvinnu, því að bæjarfulltrúarnir sjálfir önnuðust hana. Þá var reynt að taka tillit til þess, þegar vinnunni var miðlað, að láta þá ganga fyrir, sem höfðu þyngst heimilin og börðust í bökkum með að halda sér frá bænum. Svo kemur þessi löggjöf og tekur ráðin af bæjarstjórninni í þessu efni. Atvmrh. setti einn af sínum flokksmönnum í þetta starf fyrir góð árslaun. Nú er ekkert tillit tekið til þess, hvort menn standa tæpt með að bjarga sér eða ekki. Þegar A kemur og lætur skrifa sig á listann og B á eftir, þá er vinnunni miðlað eftir því, í hvaða röð þeir koma, en ekkert tillit tekið til þess, hvort það liggur við, að bærinn þurfi að veita þeim aðstoð. (SÁÓ: Hvað kostar þessi vinnumiðlun?) Hún kostar 4–5 þús. kr., sem bærinn verður að borga af þeim peningum, sem hann gæti annars látið vinna fyrir. — Þetta er ekki stórt atriði, en það sýnir, hvernig sósialistar búa að vinnuskilyrðum fólksins í bæjunum. Afleiðingin er svo sú, að áður var mörgum manninum forðað frá því að fara á bæinn, vegna þess að vinnunni var úthlutað eins og ég gat um, en nú verður margur að leifa til bæjarins, af því að vinnunni er úthlutað eftir öðrum sjónarmiðum en þeim, sem eru bezt fyrir vinnuþegana og bæjarfélagið. Ég vil ekki þreyta hv. þm. með fleiri dæmum, en ég varð að gera úrlausn á því að svara þessum ágætu þm. og vini mínum, hv. 3. landsk., og gefa honum eitt sýnishorn af áhrifum sósíalistalöggjafarinnar á fátækt bæjarfélag.