28.03.1938
Efri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Ég gaf ekki tilefni til þessara miklu umr. né þessara kastvinda og hvalablástra um óviðkomandi deilumál að mestu leyti. En þegar svona er slett á aðra flokka, er náttúrlega ekki hægt að láta því ósvarað, og slíkt kemur að nokkru leyti við hverjum þm. þess flokks. Hv. þm. Vestm. hefir varið máli sínu til þess að þurrka af Sjálfstfl. þær skammaslettur, sem á honum hafa dunið.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að það væri bara orðaleikur, þegar menn væru að tala um, hvort þetta væru nýjar tekjur eða tekjur, sem bærinn hefði haft áður. Ef Vestmannaeyingar væri nú sviptir þessum tekjustofnum, gætu þeir notað þessar tekjur á annan hátt. Þessi orðaleikur hefir þó stundum orðið nokkuð erfiður. Það er ekki létt að skipta um skattstofna fyrir bæjarfélög eða ríki. Þegar skattstofnarnir eru flestir með langri notkun, þá er stórkostlega erfitt að breyta þeim í annan skattstofn. Þegar bannlögin voru fyrst sett hér á landi, var eitt hið erfiðasta að vita, hvernig átti að ná inn þeim tekjum, sem ríkið hafði af innflutningi áfengis. Þetta hefði þó átt að reynast fremur auðvelt, því að náttúrlega er enginn skattur, sem er erfiðara að borga, en áfengistollurinn. En það reyndist samt sem áður mjög erfitt að breyta honum í annað gjald. Þeir, sem sæti eiga í bæjarstjórn Vestmannaeyja, vita, að ekki er gott að ná þessu inn með aukningu útsvaranna, eins og minni hluti þeirra, sem honum fylgja að málum, hyggja, að unnt sé að gera. Eins og hv. þm. Vestm. upplýsti, eru útsvörin þar nú orðin svo há, að ekki er hægt að innheimta mikinn hluta þeirra, — og hvaða gagn hefir bæjarstjórnin þá af þessari hækkun? Þetta er eins og kemur fyrir í þeim kaupstöðum, þar sem bæjarútgerð er rekin. Þar hafa bæjarstjórnirnar gefið t. d. einum togara upp nokkra tugi þúsunda og samtímis lagt á hann útsvar. Það er hægt að gera svona orðaleik til þess að láta tekjur og gjöld mætast á fjárhagsáætluninni, en það er vita gagnslaust. Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Vestm. sagði, að þeir menn, sem þurfa á ríkissjóðnum að halda sér til framfæris, t. d. til sveitarstyrks, fátækrastyrks eða vinnu, kærðu sig ekki um, að gjaldið væri tekið af þeim. Hv. 11. landsk. sagðist ekki verá fús til að láta íhaldsmeirihlutann í bæjarstjórn Vestmannaeyja hafa svona tekjur. Þar kom fram, hvar fiskur liggur undir steini. Hann er á móti því, að Vestmannaeyingar fái þessar tekjur, vegna þess að hann er ekki sammála þeim mönnum í stjórnmálum, sem þar skipa meiri hl. bæjarstjórnar. Ég tala ekki um, út í hvað slík pólitík hlýtur að leiða, en vil mælast til þess, að þessi hv. þm. vildi athuga ástandið í þeim bæjum, þar sem Sjálfstfl. hefir haft meiri hl., og hinum, þar sem hans flokksmenn hafa meiri hl. Hvort finnst manni meir líkur til, að þeim tekjum sé sæmilega varið, sem renna í bæjarsjóð Reykjavíkur, eða þeim tekjum, sem renna í bæjarsjóð Ísafjarðar eða Hafnarfjarðar, sem eru á valdi flokkshræðra þessa hv. þm., að maður ekki tali um suma bæi á Austfjörðum, sem eru svo illa stæðir sem raun ber vitni um af símskeyti, sem nýlega var sent frá einum þeirra til fjmrh., svo hljóðandi: „Sendið strax hingað 30 þús. kr.“. Þetta er sú stjórn á bæjum, sem hann vill, og hann vill samþ. skattstofna í hendur slíkra bæjarstjórna. Ég held, að hvað sem hans pólitísku tilfinningum eða flokksumhyggju liður, sem er ástæðan fyrir því, að hann vill ekki, að samþ. séu skattstofnar í hendur þeirra bæjarstjórna, þar sem Sjálfstfl. hefir meiri hl., verði hann þó að játa, að þeir bæir séu ekki verr staddir fjárhagslega en hinir. Hann var enn að tala um það ranglæti gagnvart öðrum kaupstöðum, að samþykkja þenna tekjustofn handa Vestmannaeyingum. Hvaða ranglæti er það, hvað gerir það öðrum kaupstöðum til, þótt Vestmannaeyjar fái samþ. þennan tekjustofn sinn. Það kann að vera, að aðrir kaupstaðir vilji fá eitthvað svipað, en þeir um það. Mér er ómögulegt að sjá, að það sé neitt tekið frá öðrum kaupstöðum með þessu. Hv. 11. landsk. vildi afsaka það, að flokksmaður sinn, Jónas Guðmundsson, hefði lagt til, að þetta gjald væri lagt á, með því, að það hefði ekki orðið að lögum. En það er ekki rétt, það er einmitt orðið að lögum. Það vill svo einkennilega til, eins og oft hefir verið bent á, að tekna jöfnunarsjóðs er aflað með gjöldum, sem að mestu leyti koma niður á nauðsynjavörum. Verulegur hluti vörugjaldsins er lagður á brýnustu lífsnauðsynjar, svo sem 2% á fiskilínur, fiskinet, lóðarbelgi, lóðartauma, lóðartelna, lóðaröngla, leggingar, tvinna, snúrur og teygjubönd, hafragrjón, hafra, hrísgrjón, kjöttunnur, skóflur, tölur, krókapör, smellur, spennur. Þetta eru líka nauðsynjavörur, en á þær er lagt 10%: Búsáhöld allskonar eldhúsáhöld, allskonar hreinlætisvörur, kaffi og sykur. Með 15% stimplast reikningar yfir allskonar fatnað. Svona er nú þessi tekjuaukning, sem hv. þm. telur mikla sanngirni og miklu réttari heldur en þetta lága vörugjald, sem Vestmannaeyingar vildu leggja á. Þá er þessi tekjuöflun 11% viðauki á alla skatta og tolla. Ekki er hægt að koma lagi á tekjur bæjarfélaga með því að leggja á vörugjöld.

Það er alveg óeðlilegt, hvernig hv. 11. landsk. verður að játa, að búið sé að spenna bogann svo hátt með tekjuhækkunum og aukaútsvörum, að ekki sé hægt að ná meiru inn á þann hátt, ef ríkið eða bæjarfélög þurfa á meira fé að halda. Það er rétt hjá Jóni heitnum Baldvinssyni, er hann sagði: „Það þýðir ekki að spenna bogann hærra með hinum beinu sköttum, það er farið að reka sig upp undir“. Tekjur af aukaútsvörum fara að nálgast að taka allar tekjurnar, geta sjaldan komizt upp fyrir það, svo framarlega sem fyrirtækið þarf að borga allhátt viðskiptagjald auk tekjuhallans. Þá getur maður séð, hve ófært það er, að halda því fram, að meiri tekjur megi ná inn með útsvarshækkunum.

Hv. 1. þm. N.-M. talaði um, að hér væri farið í skakkan enda. Hann viðurkenndi, að aðstaða Vestmannaeyja væri önnur en hinna kaupstaðanna, vegna þess að Vestmannaeyingar fengju ekkert úr jöfnunarsjóði, og væri þá nær að breyta þeim grundvelli, sem úthlutun úr jöfnunarsjóði er miðuð við. Þetta er alveg rétt, — en vill hann þá vera með að breyta þeim grundvelli? Ég fór fram á það, þegar lögin voru sett, en hann var einn hinn allra harðasti á móti því. Vestmannaeyingar myndu þurfa að bíða nokkuð lengi eftir því, ef þeir ættu að geta fengið auknar tekjur með úthlutun úr jöfnunarsjóði, ef hann og hans líkar fengju að ráða. Hann veit, að það er ekki hægt að ætla að standa á móti svona sanngjörnum tilmælum. Hinsvegar ætlar hann að vera á móti því, að Vestmannaeyingar fái þetta gjald til þess að geta staðið í skilum með þarfir bæjarins.

Ég þarf ekki að fara mikið út í ræðu hv. 3. landsk., en beindi sinn máli aðallega að hv. þm. Vestm., vegna þess að hv. þm. Vestm. hefir svarað honum mjög röggsamlega. En ég varð dálítið undrandi þegar þessi hv. þm. spurði að því, hvað þeir Alfl.-menn hefðu gert í sinni þingsögu til þess að leggja byrðar á bæjarfélögin. Við skulum segja, að það hafi verið réttilega gert. En hvernig ætlar hann með þingsögu þess flokks að neita því, að þeir hafi gert þetta?

Einu erfiðleikarnir, sem eru á að svara þessu, eru, að ekki er gott að vita, hvar gripa skal niður, því að það er svo að segja á öllum sviðum. En ég ætla að benda á það eitt, sem þyngir gjöld þegnanna til ríkissjóðs, og þess vegna þyngja þau auðvitað líka á bæjarfélögunum, því að allir þeir peningar, sem ríkið tekur hjá gjaldþegnunum, eru að því leyti teknir frá bæjarfélögunum, að bæjarfélögin eiga erfiðara með að ná inn tekjum frá þessum mönnum. Það þarf ekki annað en að lita á það, hve mikið fjárlög og skattar hafa hækkað t. d. á síðastl. 10 árum, til þess að sjá það, hvernig þeir hafa gert þyngra undir fæti fyrir bæjarfélögin. Ég vil svo nefna það, að sem bein gjöld hafa verið teknir stórir tekjustofnar frá Reykjavík. Hér hafa stórar verzlunargreinar verið teknar úr höndum einstakra manna og lagðar undir ríkið og gerðar skattfrjálsar. Ég man ekki tölurnar, en þær voru gífurlegar. Með breyt. á framfærslulöggjöfinni hafa þeir einnig gert bæjum miklu þyngra fyrir en áður. Meginbreytingin á framfærslulögunum er sú, þar sem ekki er um neinar endurgreiðslur að ræða, heldur á hver maður framfærslusveit þar, sem hann er staddur. Þetta kemur harðast niður á stærstu kaupstöðunum, og einkanlega á Reykjavík. Það mætti halda áfram að telja upp endalaust, hvað þessi flokkur hefir gert til þess að þyngja byrðarnar, en Alþfl.-menn svara, að þetta hafi allt farið til þarflegra hluta. Það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn; Alþfl.- menn eru mestu eyðsluseggirnir á Alþ., það vita allir (BSt: Það kann nú að vera vafasamt). Þetta var það, sem hv. þm. Vestm. átti við, þegar hann var að tala um snöru í hengds manns húsi í sambandi við það, er nýlega var minnzt á hvalablástur hv. 3. landsk., er hann sagði, að hv. þm. Vestm. væri einn mesti bitlingamaður landsins. Menn hafa ekki almennt vitað um bitlinga hv. þm. Vestm. Mér er ekki kunnugt um annað en að stj. hefir farið fram á það við hann hvað eftir annað, að hann færi sendiferðir til útlanda til að ná samningum við erlend ríki. Mér er ekki kunnugt um, að það sé mikið annað, sem hann hefir af þeim hlutum, og það verður seint talið til bitlinga, þótt færir menn séu fengnir til að fara til útlanda til að semja við önnur ríki fyrir hönd Íslands. Ef svo er, þá er líka hvert verk bitlingur, sem menn hafa á hendi fyrir ríkið. (BSt: því er alltaf haldið fram, þegar framsóknar- eða alþýðuflokksmenn eiga í hlut). Ég hefi verið valinn til að endurskoða landsreikningana, og það má líklega telja það einnig bitling. En mér finnst það vera í meðallagi vel borgað starf. Ég skal nú skýra frá, hvað ég á við með því, að Alþfl.menn séu mestu bitlingamennirnir. Ég á alls ekki við það, þótt þeim sé veitt eða falin einhver störf fyrir þjóðfélagið, heldur hitt, að það hafa beinlinis verið búin til störf í tugatali handa þeim, sem ekki hafa áður verið til í þjóðfélaginu. Það er alls eigi hægt að halda fram tilverurétti þeirra starfa á annan hátt en þennan. Ég vil nefna meginið af ríkisfyrirtækjunum. Hversvegna er ríkið að setja á stofn sérverzlanir með hinar og þessar vörutegundir, sem eins vel má verzla með í frjálsri samkeppni? Hafa menn fengið viðtæki fyrir betra verð eða fjölbreyttari gerðir síðan Viðtækjaverzlun ríkisins tók til starfa? (PZ: Já). Lækkaði verðið á bifreiðum og bifreiðahlutum, síðan einkasalan tók til starfa? Og allar þessar nefndir og öll þessi skipulagning undanfarinna ára hefir kostað mikið fé. T. d. að borga 1200–1400 kr. til þess að skipuleggja bifreiðaferðir um landið. Og hver er svo árangurinn? Menn þurfa að borga dálítinn skatt og ferðirnar verða strjálli og dýrari en áður. Það er þetta, sem alveg mætti þurrka af þjóðinni, án þess að gera ríkinu né þjóðinni neitt til miska. Þessi störf hafa verið sköpuð einungis handa þeim mönnum, sem að þeim vinna. Ég þekki þetta nokkuð af Landsreikningunum og veit þess vegna um launagreiðslur og starfsmannahald við allar þessar stofnanir. Tóbakseinkasalan er t. d. eitt af því, sem margir mæla með. Það hefir þó reynzt þannig, að ríkissjóður hefir ekkert upp úr þessari stofnun; tóbakið er selt sínu verði eftir sem áður. Tóbakseinkasalan var starfandi fyrir allmörgum árum, en var lögð niður um tíma, og tekjur ríkissjóðs minnkuðu ekkert við það; svo var henni komið á aftur, aðeins í því skyni, að hópur manna gæti fengið atvinnu. Það er alveg ótalið, hvað flokkur, sem ungar miklu út af þess konar stöðum, getur keypt sér mikið fylgi.

Ég hefi í ræðu minni farið dálítið út fyrir það frv., sem hér er til umræðu, en tilefnið til þess er ekki frá mér, heldur frá þeim þm., sem hafa beint máli sínu gegn þessari till.

Ég skal ekki rökræða 4 ára áætlunina; það hefir hvað eftir annað verið gert og oftast með leiðinlegum árangri. Það má taka fyrir hvert einasta atriði hennar, og hvort sem það hefir verið framkvæmt eða ekki, þá hefir ekki náðst sú niðurstaða, sem lofað var.

Skal ég nú fyrir tilmæli hæstv. forseta stytta mál mitt. Ég óska þess, að þetta frv. nái fram að ganga með þeim litlu brtt., sem ég ber nú fram.