07.05.1938
Sameinað þing: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

1. mál, fjárlög 1939

*Frsm. (Bjarni Bjarnason):

Hér eru komnar fram allmargar brtt. frá einstökum hv. þm., og enn verið að útbýta sumum þeirra. Það er útilokað að segja skoðun sína á þeim öllum, enda hefir fjvn. ekki átt kost á að taka margt af þeim til athugunar. Ég ætla því að gera þeim öllum jafnt undir höfði.

En ég verð að víkja nokkrum orðum að brtt. frá fjvn. á þskj. 485. Loks nú í morgun voru tilbúnar till. landbn., er snerta fjárpestina. Þá sýndi það sig, að óhjákvæmilegt var að hækka þær upphæðir, sem þar um ræðir, um 100 þús. kr. En með því að fjvn. þótti ógerlegt að hafa meiri greiðsluhalla á fjárlögunum en hún hafði gengið frá, þegar hún setti fram brtt. sínar, þá taldi hún óhjákvæmilegt að lækka aftur sem þessu nam á liðum, sem hún var búin að taka upp í brtt.

Ég hefi leitað fyrir mér hjá hv. þm. og komizt að þeirri niðurstöðu, að tiltækilegast muni þykja að lækka liðina til þjóðvega. Nefndin hefði fremur viljað fella alveg niður nokkrar símalínur og brýr, en einstakir hv. þm. tóku því svo fjarri að frá var horfið enda er vitað, að símalínur eru einu umbæturnar, sem nú er hægt að gera fyrir afskekktustu sveltir. Póst og símamálastjóri taldi það einnig óhæft að gera þannig fjölda fagmanna við síma og brýr atvinnulausan. Að þessu athuguðu var samþ. í nefndinni að lækka alla vegi, einnig „benzínvegi“, að undanteknum þeim malbikuðu, um 10%.

Um aðra einstaka liði brtt. 485,I þarf fátt að segja; 4., 5. og 7. lið leiðir hvorn af öðrum. Þar eru vegirnir um Siglufjarðarskarð og Öxnadal felldir niður úr tölu almennra þjóðvega og teknir aftur upp sem benzínvegir. Það er gert til að samræma þetta ákvæðum í lögum um tekjuöflun ríkissjóðs og bæjar- og sveitarfélaga.

Brtt. 485, V, 3, A–B, um varnir gegn mæðiveiki og stuðning til bænda á mæðiveikissvæðinu, eru teknar upp í samráði við þá menn, sem um þau mál hafa fjallað, og þá sérstaklega hv. landbn. Ef langra umræðna er þörf um þau framlög, er rétt, að þær komi fram við meðferð frv., sem nú liggur fyrir, um mæðiveikivarnirnar.

Hv. 2. landsk. talaði um, að ekki hefði komið fram hjá mér nægileg greinargerð fyrir sumum tillögum fjvn. á þskj. 400. Ég þóttist vera búinn að tala nokkuð lengi þá og hljóp yfir allar smátill., sem ekki þurfti að vænta mikils ágreinings um. Ég skal nú geta þar 59. brtt., e, sem er 2 þús. kr. byggingarstyrkur til Höskulds Björnssonar málara. Það er sérstaklega listfengur maður, dýramyndir hans, og þó einkum fuglamyndir, eru afburðagóðar. Hann er fjölskyldumaður við lítil efni og alveg ókleift að vinna að list sinni, nema hið opinbera hjálpi honum til að koma upp verkstæði.

Viðvíkjandi brtt. frá hv. þm. Skagf. á þskj. 444, um að hækka þann styrk, sem fjvn. hefir tekið upp á þskj. 400,66,b, til Guðmundar Andréssonar, til þess að stunda dýralækningar í Skagafirði, verð ég að skýra frá því, að Guðmundur hefir áður notið styrks til dýralækninga bæði í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði. En með því, að hv. þm. A.-Húnv. taldi hans enga þörf lengur fyrir austur-Húnvetninga, svo að verksvið hans varð aðeins ein sýsla og styrkurinn er bundinn því skilyrði, að jafnmikið framlag komi annarsstaðar að, þá varð að samkomulagi í fjvn., að styrkurinn yrði aðeins 400 kr.

Þá kem ég loks að skiptingu þess fjár, sem ætlað er til brúargerða og til símalína.

Fé til brúa er ætlazt til að skipta þannig:

Laugaá í Árnessýslu .............. 6000 kr.

Litla Þverá í Fljótshlíð ............ 5000 –

Núpsá í Vestur-Ísafjarðarsýslu 4000 –

Bóluá í Skagafirði ................... 4300 –

Geithellnaá í Suður-Múlasýsl. . 11000 –

Hörgá í Eyjafirði .................…….11000 –

Reykjadalsá í Borgarfirði ............ 6000 –

Laxá við Mývatn ........................ 11500 –

Kviá í Öræfum .............................. 9000 –

Samtals 68000 kr.

Fé til símalína er ætlazt til að skipta þannig:

Hesteyri .................................... 21000 kr.

Hesteyri—Sæból ... .. .... .... .... .. 6500 –

Keldudalslína .............................. 5000 –

Hænuvík-Örlygshöfn .................. 5300 –

Tjaldaneslína ................................5000 –

Hemla-Álfhólar ............................. 7800 kr.

Tjörneslína ................................... 8000 –

Samtals 58600 kr.

Þá er enn skiptingin á því fé, sem ætlað er til stofnkostnaðar héraðsskóla. Fjvn. er ekki algerlega sammála um það, eins og sést á því, að bornar hafa verið fram mismunandi brtt. En þar hefir verið áætlað:

Reykjanesskóli ...................10000 kr.

Núpsskóli .......................... 10000 –

Reykjaskóli ........................ 5000 –

Reykholtsskóli .................... 4000 –

Laugaskóli ........................ 2500 –

Varmahlíð .......................... 2500 –

Til vinnukennslu ................. 6000 –

Samtals 40000 kr.

Um einstakar upphæðir get ég nefnt, að greiðslan til Laugaskóla er helmingur af því, sem hann eiginlega á að fá, en ágreiningurinn var annars um það, sem renna skyldi til vestfirzku skólanna af þessu takmarkaða fé. — Vegna þess að ég vildi ekki láta fjvn. skera úr því til hlítar, vil ég ekki heldur leggja nú til orð um það, hvernig þessar till. verði afgreiddar.

Ég veit, að ýmsir hv. þm. eiga eftir að mæla fyrir brtt. sínum, en ætla þó að leiða hjá mér að svara þeim, nema sérstök ástæða verði til.