09.04.1938
Neðri deild: 45. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Ísleifur Högnason:

Þetta frv. er ekki nýtt hér á þingi, því að á hverju einasta þingi er beðið um að framlengja þetta vörugjald. Upphaflega var borin fram sú ástæða fyrir frv., að útsvör í Vestmannaeyjum innheimtust svo illa, að ekki væri hægt að standa straum af útgjöldum bæjarins, nema þetta gjald kæmi til, en ég hygg, að óvíða innheimtist útsvör eins vel og í Vestmannaeyjum. Hér fyrir framan míg liggur reikningur, saminn af gjaldkeranum, og þar sést, að áætlaðar tekjur 1935 hafa verið 181330 kr., en innheimzt hafa 155868 kr., en svo er innfært sem innborgað 187299 kr., eða 6000 kr. meira en áætlað hefir verið, en ég geri ráð fyrir, að þarna sé um að ræða eitthvað af útsvörum frá fyrra ári.

Nú þegar frv. er flutt, er ekki færð fram sú ástæða fyrir því, að útsvörin innheimtist svo illa, heldur að þetta komi engum öðrum landsmönnum við en Vestmannaeyingum. Vitanlega kemur þessi skattur þyngst niður á fátæka fólkinu, en verður til að minnka útsvörin, sem eru beinn skattur, um 30000 kr. Hagsmunina af þessu hafa vitanlega efnuðu mennirnir í Vestmannaeyjum, en óhaginn alþýðan. En hvers Vestmannaeyingar eiga að gjalda hjá Alþingi, að bæjarstjórninni skuli vera leyft að skattleggja þannig alþýðuna, get ég ekki skilið, og vildi ég gjarnan fá að heyra einhver frambærileg rök fyrir því. Hér stendur í ástæðunum fyrir frv., að Vestmannaeyjar fái ekki einn eyri af því fé, sem ætlazt er til úr jöfnunarsjóði til bæjar- og sveitarfélaga. Þetta er ekki rétt. Ég var í Vestmannaeyjum fyrir viku síðan, og þá var fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 1938 þar til umr., og þá var áætlað, að 15 þús. kr. fengjust úr jöfnunarsjóði. Nú ber þess að gæfa, að framlag úr jöfnunarsjóði fer eftir því, hvað mikið er lagt til fátækraframfæris og menntamála á hverjum stað, og þá er innan handar fyrir Vestmannaeyjar að skera þessi framlög svo við neglur sér, að gjaldið úr jöfnunarsjóði verði lítið. En að Alþingi eigi að leggja blessun sína yfir slíka fjárhagsáætlun með því að veita ráðandi mönnum í Vestmannaeyjum leyfi til að skattleggja fólkið á þann hátt, sem hér er beðið um, get ég ekki séð, að sé rétt, og vildi ég gjarnan heyra einhver frambærileg rök fyrir því, ef nú á enn að framlengja þetta vörugjald, en slíka framlengingu áliti ég mestu ósvinnu. Þetta gjald var frá upphafi ranglátt og er það ekki síður nú, eftir að þessu jöfnunargjaldi hefir verið komið á.

Ég mun því greiða atkv. móti þessu frv. til 2. umr. og vænti þess, að þingið sjái sóma sinn í því, að aflétta þessum rangláta óbeina skatti á alþýðu manna í Vestmannaeyjum, sem er aðeins til hagsmuna fyrir efnaðri mennina, en til óþurftar fyrir alþýðuna.