25.04.1938
Neðri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Ísleifur Högnason:

Við 1. umr. þessa máls lýsti ég því yfir, að þessi l., sem hér á að framlengja, eru alveg sérstæð fyrir Vestmannaeyjar. Það er ekkert, sem mælir með því að veita efnamönnum í Vestmannaeyjum leyfi til að skattleggja vörur, sem um höfnina fara, til þess að létta á sér útsvörum. Það er tilgangur þessa frv. og enginn annar, eins og hv. þdm. hljóta að skilja. Það virðist samt ekki vera hægt að koma hv. þm. í skilning um, að það styðst ekki við nein rök, að veita efnamönnum í Vestmannaeyjum þetta leyfi til þess að létta af sér sköttum. Ég mun því við 3. umr. bera fram brtt. um það, að í stað þess að leggja þetta gjald á vörur, þá verði bæjarsjóðnum í Vestmannaeyjum heimilt að taka tekjur, sem þessu nema, af seldu víni í Vestmannaeyjum. Mér hefir dottið í hug, að 20% skattur á víni, sem selt er í Vestmannaeyjum, mundi láta nærri, að næmi sömu upphæð og vörugjaldið. Síðastl. ár mun vínútsalan hafa haft 58 þús. kr. umsetningu, og ef 20% væri lagt á útsöluverðið, sem heimilt væri að láta renna í bæjarsjóð, þá mundi það nema mjög álíka upphæð og vörugjaldið.

Þess ber að gæta, að þetta vörugjald kemur niður eins og þungatollur, auk þeirra tolla, sem lagðir eru á af ríkissjóði, og það er gerður greinarmunur á því, á hvaða vörutegundir er lagt. Ef hv. þm. vilja vera sjálfum sér samkvæmir, þá ættu þeir að vera með því, að þetta væri lagt á vöru, sem minnst þörf er fyrir, og er þá rétt að láta þetta koma sem verðtoll á vinið og bægja þannig vörugjaldinu frá þeim nauðsynjavörum, sem almenningur notar mest, því að það er lagt á kornvörur, sykur og fleiri nauðsynjavörur almennings allhátt gjald.

Ég mun bera fram við 3. umr. málsins brtt., og vildi ég, að n. tæki það til athugunar, hvort ekki væri réttlátt að láta þetta gjald koma niður á þann hátt, sem ég hefi hér stungið upp á. Bezt væri, að hægt væri að komast hjá þessu, en það verður víst ekki hægt. Ég mun þess vegna bera þessa till. fram sem neyðarráðstöfun, ef ske kynni, að einhverjir fengjust til að fylgja henni.