25.04.1938
Neðri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Haraldur Guðmundsson:

Það er misskilningur hjá hv. 5. landsk., að ég hafi talið það réttarbætur fyrir Vestmannaeyjar, ef þetta frv. væri samþ. Það, sem ég sagði, var, að það væri sköpuð sérstaða fyrir Vestmannaeyjakaupstað, ef þetta frv. væri samþ., sem myndi veita honum aðstöðu til fjáröflunar umfram þær leiðir, sem aðrir kaupsfaðir hefðu samkvæmt l. Ég er honum sammála um, að það sé ekki heppileg leið að lækka útsvörin og afla tekna á þennan hátt.

Snertandi það, sem hv. frsm. n. sagði, að ef það hefði áður verið rétt og sanngjarnt að hafa þessa heimild í l. fyrir Vestmannaeyjar, þá væri það jafneðlilegt nú, þá er því til að svara, að ég hefi alltaf verið á móti svona frv., hvenær sem það hefir verið flutt. Í öðru lagi má benda á það, að þó svo sé, að Vestmannaeyjar fái ekkert af fyrri úthlutun ársins 1938 úr jöfnunarsjóði, þá er a. m. k. ekki vitað, að þær fái ekkert af annari úthlutun. Það er því engin ástæða til að ætla annað en að á komandi árum fái Vestmanneyjar til jafns við aðra kaupstaði eftir þeim reglum, sem settar eru um það í l. Vestmannaeyjar hafa líka á þessu ári tekjur samkvæmt þessum l., sem nú er farið fram á að framlengja, því að þau gilda til ársloka 1938. Og nú er það upplýst af hv. 5. landsk., að tekjur af vörugjaldi nemi fullum 30 þús. kr., en jafnframt hefir bæjarstjórn þótt óhætt að áætla 15 þús. kr. tekjur úr jöfnunarsjóði.

Þá segir hv. frsm., að Vestmannaeyjakaupstaður hafi sérstöðu í því, að vörugjaldið leggist eingöngu á vörur, sem bæjarmenn sjálfir nota. Þetta er ekki rétt. Á vertíð dvelur þar fjöldi aðkomumanna og jafnvel aðkomuskipa og ber þessar byrðar ekki síður en bæjarmenn. Þar stendur alveg eins á um Siglufjörð. Hann hefir sáralitla verzlun nema við skip. Ef þetta frv. verður samþ., er erfitt að neita Siglufjarðarkaupstað um hið sama. Enda vantar það ekki, að beiðnir hafa legið fyrir þinginu um það og frv. komið fram. Hafnarfjörður hefði án efa vörugjald af því einn, sem innanbæjarmenn og fáeinir bændur í kring nota — og þó aðeins af hluta af því, þar sem mikið af vörum er flutt landveg úr Reykjavík; það er ástæðan til þess, að ekki hefir þótt gagn í að setja vörugjald í Hafnarfirði.

Þó að þeir kaupstaðir, sem um ræðir, hafi ekki vörugjald, hafa þeir nokkuð, sem nálgast það. Ég veit ekki betur en viðast sé lagt á verzlanir, miðað við umsetning þeirra, og það hlýtur náttúrlega að koma fram í hækkuðu vöruverði eins og vörugjaldið. Ég sé ekki betur en Vestmannaeyjakaupstað sé alveg eins hollt að halda sér við útsvörin, eins og aðrir kaupstaðir, úr því að vörugjaldið er í rauninni sami tekjustofninn og útsvör verzlana. Allra sízt get ég samþ. frv. eftir að búið er að ganga frá löggjöf um tekjur bæjar- og sveitarfélaga og um jöfnunarsjóð, sem mun sjá Vestmannaeyjum fyrir töluverðum tekjum á næstu árum.