25.04.1938
Neðri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. þm. Seyðf. taldi það algengt að skattleggja vörur með útsvarsálagningu. Ég sé ekki ákaflega mikinn murt á því og vörugjaldi. Það hlýtur að koma niður á sömu einstaklingum. En þá dreg ég af því aðrar ályktanir en hv. þm. gerði. Ég sé ekkert á móti því að leyfa bæjarstjórn Vestmannaeyja að nota tekjustofninn á þann hátt, sem hún telur heppilegra, fyrst almenningi má á sama standa.

Það, sem hv. þm. sagði um Siglufjörð og Hafnarfjörð, mun ekki vera alveg rétt. A því er ekki vafi, að Siglufjörður hefir nokkra verzlun, t. d. við Fljótamenn (PO: Og svo allan síldarflotann á sumrin). Já, síldveiðiverzlunin er nú mál út af fyrir sig. — Hafnarfjörður hefir verzlun við þéttbýl sveitarfélög, sem umkringja hann, s. s. Álftanesið. Það er því alveg vist, að enginn kaupstaður á landinu hefir sömu sérstöðu og Vestmannaeyjar.

Þá er því haldið fram, að vörugjaldið leggist ranglega á 1000–1500 manns, sem sæki atvinnu til Vestmannaeyja. Ég veit ekki betur en heimilt sé að leggja útsvör á fólk, sem er við atvinnu í Vestmannaeyjum um vertíðina, 3 mánuði eða lengur. Munurinn á því og vörugjaldi er bara sá, að það er oft ómögulegt að innheimta útsvörin hjá fólki, sem fer sitt í hverja áttina að vertíð lokinni.

Þó að nú standi á fjárhagsáætlun bæjarins 15 þús. kr. tekjur úr jöfnunarsjóði, er ekki vist, hvort sú áætlun stenzt; tryggar tekjur eru það a. m. k. ekki.

Hv. 5. landsk. talaði um, að ekki ætti að eftirláta bæjarfélögum hluta af áfengistekjum ríkissjóðs, þó að uppástunga hans yrði tekin til greina, heldur hækka verð áfengisins. En ef hægt væri að hækka það meira, á ríkissjóður tvímælalaust að njóta þess tekjustofns einn. Það er ófær leið að fara að skerða tekjustofna hans. Sé það rétt, að vörugjaldið sé af einhverra hálfu ætlað til þess, eins og hv. þm. telur, að velta byrðum af þeim efnuðu á almenning, þá er það engu betri tillaga hjá honum að velta byrðinni á ríkissjóð og þar með almenning í landinu.