25.04.1938
Neðri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Ísleifur Högnason:

Ég ætla að benda hv. frsm. á, að vörugjaldið er í gildi í Vestmannaeyjum þetta ár og að engu er stefnt í voða, þó að þetta yrði ekki samþ. fyrr en 1939. Þetta umsetningargjald, sem ýmsar hreppsnefndir eru farnar að leggja á verzlanir, mun vera algerlega ólöglegt, en mál af því tagi liggur nú fyrir dómstólunum til úrskurðar. Lögin leyfa hvergi slíka útsvarsálagningu, sem verkar alveg eins og tollur eða nefskattur, heldur aðeins að jafna niður eftir efnum og ástæðum.

Hv. frsm. bjóst við, að 15 þús. kr. úr jöfnunarsjóði væri of hátt áætlað af bæjarstjórn Vestmannaeyja. Engar ástæður hafa verið færðar fyrir, að svo sé. En miðað við mannfjölda ættu það að vera 20 þús. kr., og ég geri ráð fyrir, að það verði reyndin, en ekki 15 þús.

Þá hélt hv. frsm. því fram, að ef hægt væri að hækka áfengisverð, gæti ríkið tekið þann ágóða. Vitanlega. ríkið gæti líka tekið þetta vörugjald ef Alþingi teldi það hafa nokkurn siðferðilegan rétt til þess. — Annars er hér ekki verið að deila um skipting tekjustofna milli ríkis og bæja, eins og hv. frsm. virtist halda. heldur um það, á hvaða grundvelli álögurnar eigi að hvíla, á neyzluvörum, eins og í frv., eða, eins og ég legg fremur til, á óhófsvörum.