29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Ísleifur Högnason:

Við 2. umr. bar ég fram brtt. við frv. um vörugjald í Vestmannaeyjum, en eftir að ég átti tal við formann n., sem um frv. fjallaði, féll ég frá að bera brtt. fram í því formi, sem ég hafði ætlað mér. Eins og ég tók fram við 2. umr., þá er engin nauðsyn til þess að skattleggja alþýðu manna í Vestmannaeyjum með sérstökum óbeinum tolli umfram aðra landsmenn, því að þar á vitanlega að ná tekjum í bæjarsjóð með beinum útsvörum aðallega, eins og annarsstaðar. Nú er það athugavert við þetta frv., að í því felst heimild fyrir bæjarstjórnina að taka ekki aðeins það, sem hún tekur nú, um 30 þús. kr. á ári, heldur 65 þús. kr., því að samkvæmt reikningi yfir tekjur og gjöld hafnarsjóðs Vestmannaeyja fyrir árið 1935, hefir allt vörugjaldið, sem lagt hefir verið á til hafnarinnar. numið 130 þús. kr. Ef bæjarstjórnin hefir heimild til að innheimta þessi gjöld með 50% álagi, þá gæti þetta komizt upp í 63 þús. kr. Það nær vitanlega engri átt, ef með óbeinum tollum eða sköttum er ætlunin að taka 1/2 eða 1/3 af öllum bæjargjöldunum á þennan hátt. Útsvörin myndu þá með tímanum geta fallið alveg niður. Setjum svo, að vörugjald væri hækkað eftir gjaldskrá, sem ráðuneytið samþ., og væri komið upp í 200 þús. kr. Þá hefði bæjarstjórnin heimild til að leggja á það toll, 100 þús. kr. í bæjarsjóð. Þá færi það þannig, að úfsvörin legðust alveg niður. En með því að heimila 15%, þá myndu þó ekki nást nema 19 þús. kr. Og með tilliti til þess, að jöfnunarsjóður er farinn að gefa í bæjarsjóðínn í Vestmannaeyjum 15–20 þús. kr. á ári, þá er ástæðan fyrir þessari tekjuöflun að falla burtu.

Mér þykir leift, hvað fáir eru hér í hv. d., en ég vona, að hv. þm. geti fallizt á að ganga inn á þessa brtt. og létta þannig að nokkru leyti þessum skatti af Vestmannaeyjum. Mér þætti vænt um, áður en gengið er til atkv., að form., allshn., en hún hafði þetta mál til meðferðar. lýsi afstöðu sinni til brtt. á þskj. 360.