29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Ísleifur Högnason:

Viðvíkjandi þessum síðustu upplýsingum, sem ég er hissa á hv. frsm. að taka til greina, þá vil ég segja það, að þótt Vestmannaeyjar hefðu þrisvar sinnum hærri útsvarsstiga en Rvík, þá er það vitað, að hin endanlega niðurstaða útsvaranna fer ekki eftir þeim útreikningi. Það hefir komið fyrir, að 20% hafa verið dregin frá í Vestmannaeyjum, en kannske bætt við 100–150% í Rvík, og það verður hin endanlega útkoma. Ég vil upplýsa hv. þm. um það, að útsvarsstiginn í Vestmannaeyjum er 1/3 hærri á tekjum heldur en í Rvík og 50% hærri á eignum, en annars er gerólíkur skattstigi í Vestmannaeyjum því, sem er í Rvík, þegar miðað er við eignir. Ég vil benda hv. þm. á það, að þessir stigar, sem verið er að stilla upp í Vestmannaeyjum, eru ekkert annað en blekkingar, ef á að nota þá til að fá menn til að vera fylgjandi því, að lagt sé á sérstakt vörugjald í Vestmannaeyjum. Eins og ég sagði áðan, þá er dregið frá, af því að niðurjöfnunin er hærri en í fjárhagsáætluninni, kannske 10–30%, en í Rvík hefir upphæðin oft ekki náðst, og þá er bætt við vissri prósenttölu til þess að ná heildarútsvarsupphæðinni. Svo er þess líka að gæta, að innbyrðis hlutföll þessara útsvarsstiga eru mismunandi fyrir þessa bæi. En ég hefi ekki fengið upplýsingar um það, hvað útsvarsálagningin í Vestmannaeyjum er há, samanborið við Hafnarfjörð og Ísafjörð og Akureyri. Mig minnir, að á hvern íbúa sé minna jafnað niður í Vestmannaeyjum heldur en á báðum þessum síðarnefndu stöðum. Það er alalatriðið, hvort útsvarsniðurjöfnunin er hærri, miðuð við íbúafjölda í Vestmannaeyjum, en í öðrum kaupstöðum. Ef það væri, þá gætu það verið rök með því, að ná tekjum öðruvísi, en á meðan ekki er sýnt fram á það, þá álit ég að þessi röksemdafærsla hv. þm. sé ekki hans málstað til stuðnings.