09.04.1938
Neðri deild: 45. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

41. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla útlendinga o. fl.

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Herra forseti! Þetta frv. er fram borið af fjórum þm. Reykv. vegna nauðsynjar á að setja sérstaka löggjöf um innheimtu útsvara og skatta hjá erlendum mönnum, sem dvelja hér um stundarsakir, um tiltekinn eða ótiltekinn tíma. Það hefir þótt brenna við, að ýmsir slíkir menn, sem hafa hér atvinnu það lengi, að þeir verða útsvarsskyldir, komast héðan burt án þess að greiða lögmæta skatta, og má kenna það fyrirkomulagi innheimtunnar. Eins og vitað er, fer útsvarsálagning fram í Rvík í maí ár hvert, en fyrsti gjalddagi er 1. júlí þar á eftir. Ýmsir menn, sem hér hafa verið útsvarsskyldir, hafa verið farnir af landi burt, þegar hægt hefir verið að krefja þá um skattinn, en þessu frv. er ætlað að bæta úr þessu. Það er ekki einungis heimild, heldur skylda, að halda eftir ákveðnum hluta af kaupi þeirra, og undir vissum kringumstæðum bera vinnuveitendur þeirra persónulega ábyrgð á greiðslunni. Það nær engri átt, að menn njóti hér atvinnu um svo og svo langan tíma og komist svo hjá að greiða opinber gjöld. Og þó að þetta frv. sé kannske ekki sem fullkomnast, verður ráðin nokkur bót á því ástandi, sem ég hefi lýst, ef það verður samþ.

Það, sem einkum er erfitt við að eiga í þessu sambandi, er að ákveða, hve viðtæk á að vera ábyrgð þeirra manna, sem atvinnu veita. Mennirnir geta líka unnið hjá fleirum en einum vinnuveitanda, og þá þarf að skipta með þeim ábyrgðinni. Þess vegna er fram komin brtt. við 2. gr. Annars þarf ég ekki að tala sérstaklega um brtt., nema hvað ég vil drepa á brtt. við 4. gr. Það þótti rétt að veita ekki aðeins vinnuþiggjanda, heldur og vinnuveitanda möguleika til að fá um það úrskurð skattayfirvaldanna, hve miklu af kaupi skattgreiðanda skyldi haldið eftir.

Þrátt fyrir þær brtt., sem nú eru fram komnar, hygg ég, að þessi löggjöf, sem er að vissu leyti nýmæli, muni þurfa breyt. við síðar. Það er eðlilegt, að hún mótist og myndist eftir því, sem reynslan segir til um.

Þá vil ég aðeins geta þess, að allshn. hefði átt að athuga eitt atriði nánar, nefnilega þá hlið á þessu máli, sem að Dönum snýr. Í 1. gr. stendur: „Gagnvart útlendingum, sem landvistar- og atvinnuleyfi hafa“ o. s. frv., en Danir munu ekki þurfa slíkt landvistarleyfi. Það mætti því skilja 1. gr. svo, að frv. næði ekki til Dana, en svo er þó eigi, enda er þorrinn af þeim mönnum, sem hér koma til greina, danskir. Ég mun fyrir 3. umr. hafa talað um þetta nánar við allshn. Ég vil svo mælast til, að frv. verði samþ. með brtt. allshn. á þskj. 191.