28.04.1938
Efri deild: 56. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

41. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla útlendinga o. fl.

*Frsm. (Árni Jónsson):

Mál þetta er borið fram af þm. Reykv., sem sæti eiga í Nd., og er það til þess fram komið að koma í veg fyrir, að útlendingar, sem stunda hér atvinnu oft æðilangan tíma, komist hjá því að greiða hér útsvar. Sú regla gildir sem sé hér í Reykjavík, að útsvör eru lögð á í byrjun maí, en innheimta þeirra útsvara byrjar ekki fyrr en í júlí. Við skulum hugsa okkur, að útlendur maður komi hingað fyrri hluta júlímánaðar og fái hér atvinnu strax, þá getur hann dvalið fram undir næstu. útsvarsálagningu, eða um 10 mánuði, án þess að greiða nokkurt útsvar eins og sakir standa nú. Til þess að koma í veg fyrir það, að menn, sem eru oft prýðilega launaðir, séu betur settir í þessu efni heldur en landsmenn sjálfir, þá er þetta frv. komið fram.

Aðalákvæði frv. er það, að atvinnurekandi geti haldið eftir af launum slíkra manna, sem hér hafa fengið landvistarleyfi, 20%, ef um einhleypa menn er að ræða, en 15%, et um fjölskyldumenn er að ræða. Til þess að þetta geti heppnazt vel, þá þurfa að liggja fyrir allar upplýsingar um þessa menn, og þá er nauðsynlegt, að mjög náin samvinna sé milli skattayfirvaldanna annarsvegar og svo lögreglustjóra hinsvegar, sem á að hafa eftirlit með útlendingum.

Það hefir ekki verið neinn ágreiningur um þetta hér í allshn., en allshn. Nd. gerði á frv. lítilsháttar breyt., og hygg ég, að þær séu allar til bóta.

Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta sé ágreiningsefni að neinu leyti, því ég býst við, að allir séu sammála um, að úr þessu þurfi að bæta, og sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða meira um það.