18.03.1938
Neðri deild: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

69. mál, togaraútgerðarnefnd

*Finnur Jónsson:

Ég vil segja nokkur orð um þetta frv. fyrir hönd Alþfl.

Það er nú svo um togaraútgerðina, að í raun og veru þarf ekki sérstaka rannsókn um það, hvort útgerðin beri sig. Það hefir farið fram rannsókn á þessu, sem gerð var fyrir milligöngu mþn. í sjávarútvegsmálum. Sú rannsókn sýndi bágborinn hag útgerðarinnar, og síðan hefir hann ekki batnað. Af þessum ástæðum þarf þess vegna ekki rannsóknar við. Það er. vitanlega allt annað mál, hvort útgerðin gæti borið sig með einhverju öðru rekstarfyrirkomulagi en nú er. Ég veit þess vegna, að Alþfl. mundi greiða atkv. með þessu frv. með það fyrir augum, að það yrði einkum rannsóknarefni fyrir n., en ekki hitt, að hún rannsaki það, sem við vitum allir um. Ég get í þessu sambandi bent á frv., sem 2 alþýðuflokksþingmenn, Jón Baldvinsson og Sigurjón Á. Ólafsson, fluttu á þinginu 1937, þar sem gert var ráð fyrir, að ríkissjóður legði fram fé til að koma togaraútgerðinni á heilbrigðan grundvöll. Nú má vel vera, að einhverjar fleiri leiðir séu til í þessu efni heldur en sú leið, sem þar er bent á, en ég er ekki í neinum vafa um, að til þess að koma togaraútgerðinni á heilbrigðan grundvöll, þá þarf að sameina hana miklu meira en gert hefir verið. Það þarf að hafa sameiginleg innkaup og sennilega sameiginlegan rekstur. Hvort það þyrfti að gera í því formi, að það yrði ríkiseign, það skal ég ekki um segja. En það er öllum vitanlegt, að það er ekki hægt að spara það fé, sem þarf, með því að lækka launin. Það er ekki hægt að láta sjómenn bera þann halla, sem er á rekstrinum. Það er hvorki réttlátt né sanngjarnt, og hefst heldur aldrei í gegn. Það er líka vitanlegt, að hallinn á útgerðinni er það mikill, að hann fæst ekki upp borinn með því að lækka launin. Það, sem þarf að leggja sérstaka áherzlu á í þessari rannsókn, er að athuga, hvernig eldri skuldir útgerðarinnar hafa myndazt. T. d. þurfa menn að vita, hvað mikið hefir myndazt af skuldum af ástæðum, sem útgerðinni eru óviðkomandi. Við þurfum að vita, hvað mikið hefir myndazt af skuldunum fyrir „fiskspekulationir“ og ýmislegt annað útgerðinni óviðkomandi. Það er vitað mál, að mikið af skuldum útgerðarinnar hefir myndazt fyrir vitlausar „spekulationir“. Það er t. d. ekki annað sýnilegt en að h.f. Kveldúlfur tapi nú í ár milli 7–800 þús. kr. á því að hafa ekki selt síldarlýsið á réttum tíma. En eins og menn vita, er lýsið nú alltaf að falla. Það mun nú vera komið niður í 12-0-0 stp. eða jafnvel lægra. En meðalverð á lýsi síldarverksmiðja ríkisins var 18-13-6 sterlp. Kveldúlfur seldi aðeins 1/4 af sínu lýsi fyrir verð, sem kallast má sæmilegt. Hitt hefir hann legið með og beðið eftir, að eitthvað kynni að rætast úr með verðið. Allar aðrar verksmiðjur hafa selt sitt lýsi fyrir sæmilegt verð. Þetta eina skuldugasta fyrirtæki landsins hefir talið sér sæmandi að geyma lýsið í þeirri von, að eitthvert óvænt happ kæmi fyrir. Og happið, sem stjórnendur fyrirtækisins virðast hafa vonazt eftir, hefir ekki verið neitt smáræði, því að það hefði ekkert annað getað frelsað Kveldúlf en Evrópustyrjöld.

Ég skal nú ekki fjölyrða mikið meira um þetta, en ég vil aðeins segja það, að ef þessi rannsókn ætti að leiða til þeirra úrræða, sem hv. þm. G.-K. var að minnast á, sem sé þeirra, að útgerðarmenn fengju gjaldeyrinn í sínar hendur og gætu selt hann á opinberu uppboði til hinnar gjaldeyrisvantandi þjóðar, þá teldi ég, að rannsókn væri Letur ógerð. Og ég vildi í þessu sambandi spyrja hæstv. ríkisstj., eða þann hluta hennar, sem hér er viðstaddur, hvort um það væru nokkrir samningar milli Framsfl. og Sjálfstfl., að útgerðarmenn ættu að fá gjaldeyrinn í sínar hendur að fokinni þessari rannsókn. Ég spyr að þessu að gefnu tilefni frá hv. þm. G.-K., af því að hann sagði nokkurn veginn í sama mund, að togaraeigendur, en þar á hann víst við sjálfan sig, sem rekur útgerðina á kostnað þjóðarinnar, sæju með flutningi þessa frv. hilla undir uppfylling þarfa sinna og óska. Þetta gefur mér sérstakt tilefni til að koma fram með þessa fyrirspurn.

Hvað snertir vélbátaútveginn, þá er það rétt, sem hv. þm. G.-K. sagði um hann, a. m. k. að nokkru leyti. Það eru vissar veiðiaðferðir vélbátaútvegsins, sem ekki bera sig og hafa ekki gert í undanfarin 3–4 ár. Á ég þar við þorskveiðarnar með línu. Og það er sannarlega ekki úr vegi, að n. athugi það nokkuð jafnframt, á hvern hátt væri hægt að bæta úr fyrir smáútgerðinni, til þess að vélbátaútvegurinn þurfi ekki að leggjast niður.

Eins og ég áðan sagði, þá mun Alþfl. að sjálfsögðu greiða atkv. með þessu frv., en sennilega flytja við það nokkrar brtt. Það er áreiðanlegt, að alþýðu manna í landinu væri nokkru meiri trygging í því, að verksvið þessarar nefndar væri ákveðið dálítið nánar í frumvarpinu heldur en gert er.