18.03.1938
Neðri deild: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

69. mál, togaraútgerðarnefnd

*Héðinn Valdimarsson:

Til viðbótar við það, sem hv. þm. Ísaf. hefir nú sagt um þetta mál, vildi ég bæta við nokkrum orðum frá mér og fyrir hönd kjósenda Alþfl.

Það er nú svo, að Alþfl. hefir á undanförnum árum komið með margvíslegar till. viðvíkjandi sjávarútveginum, þar á meðal með till. um rannsókn á sjávarútveginum, áður en fór að halla svo fyrir honum eins og nú er raun á orðin, og hefði verið betra að sú rannsókn hefði þá verið tekin upp. Í frv. því, sem síðastl. vor var flutt í Ed., var gert ráð fyrir rannsókn á togaraútgerðinni og stuðningi við hana. Með því frv. var gefið nokkuð víðtækara vald heldur en er samkvæmt þessu frv., og einnig var gert ráð fyrir sérstakri breyt. á fyrirkomulagi togaraútgerðarinnar, sem að vísu ekki þurfti að binda sig við, heldur frekar sett þar til þess að setja fram ákveðna ósk, sem síðar væri hægt að ræða og athuga nánar. — Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn tóku þessum málum þannig, að þeim var ekki sinnt þá. Og ég hefi lýst því áður í sambandi við annað mál, að mitt álit er, að til þeirrar togaradeilu, er nú stendur yfir, hefði ekki komið, ef farið hefði verið að ráðum alþfl., því að þá væri kominn sá grundvöllur undir togaraútgerðina, sem hún hefði getað byggzt á áfram, en við vitum, að ein af aðalorsökunum til þess, að deilan hefir haldið áfram á þann hátt, sem verið hefir, er sú, að útgerðarmenn togaranna hafa heimtað miklar breyt. viðvíkjandi togaraútgerðinni.

Nú er þetta frv. um rannsókn á togaraútgerðinni komið fram af hálfu Framsfl., og að sjálfsögðu get ég sagt, að sú skoðun, sem bak við það liggur, er rétt. En það verð ég að segja, að mér finnst þetta ekki í samræmi við það, sem Framsfl. hefir áður haldið fram í þessum málum, því að það hefir verið hans skoðun, að í raun og veru ætti Alþ. ekki að láta sig þetta neinu skipta, heldur ættu bankarnir að gera þessi mál upp. Formaður Framsfl. er einmitt í bankaráði, og hefir látið setja sig í það til þess að geta haft afskipti af þessum málum. Hv. þm. V.- Húnv. á nú að vera einhver sérfróðasti maður í rannsókn togaraútgerðar, þar sem hann er eftirlitsmaður bankanna við Kveldúlf, og ég efast ekki um, að hvað snertir það útgerðarfélag, sem náttúrlega er stór liður í togaraútgerð landsins, geti hann gefið á stuttum tíma skjóta og góða skýrslu. Mér finnst, eins og úr þessum málum leysti á vorþinginu og við kosningarnar 1937, að sú eðlilegasta leið fyrir þetta mál hefði verið sú, að bankarnir hefðu gert sínar ákveðnu tillögur um það, sem síðar hefðu komið til Alþ., ef afskipta þess hefði þurft. Að vísu er hægt að fara þessa leið, að byrja frá Alþ. hálfu, en það finnst mér horfa inn á aðra leið en þá, sem þingmeirihlutinn hefir áður aðhyllzt.

Það, sem ég fyrir mitt leyti finn að þessu frv., er, að ekki er gert ráð fyrir neinu nema rannsókninni sjálfri, ekki neinu áframhaldi, en það finnst mér bundið við það, að þessi nefnd, sem skipuð yrði, skili mjög fljótt áliti, helzt á þessu þingi, þannig að það geti gert frekari ráðstafanir. En ef mþn. starfaði í þessu máli, og við skulum segja, að ekki verði neinar nýjar kosningar eða þing næsta haust, þá væri ekki hægt að aðhafast neitt fyrr en eftir heilt ár, en það fyndist mér nokkur seinagangur. — Þá er ekkert sagt um það í frv., hvernig matið skuli fram fara, en auðvitað er hægt að framkvæma það á svipaðan hátt og var í frv. Alþfl. áður, að miða það við viðskiptaverð.

Ég legg áherzlu á það, að nefnd þessi verði ekki notuð til þess að snúa vopnunum aðallega á hendur sjómanna og verkalýðsins, sem við skipin vinna, því að sú stefna virðist nokkuð ofarlega hér á Alþ., að það sem eigi að borga atvinnureksturinn, séu lækkuð laun verkalýðsins, og það er að sjálfsögðu hægt að nota þessa nefnd eins og hvert annað tæki til þess.

Ég geri svo kannske ráð fyrir að koma fram með brtt. við þetta frv., en mun að öðru leyti fylgja því til 2. umr. og n.

Að endingu vil ég svo nota þetta tækifæri til þess að spyrja hv. 2. flm., þm. V.-Húnv., hvort það hafi verið með hans ráðum gert sem eftirlitsmanns við h.f. Kveldúlf, að lýsið hefir ekki verið selt á þeim tíma, sem hægt var að fá sæmilegt verð fyrir það.