07.05.1938
Sameinað þing: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

1. mál, fjárlög 1939

*Thor Thors:

Mínar brtt. eru bæði fáar og smáar, enda hefir reynslan kennt mönnum á undanförnum þingum, að það er þýðingarlítið að bera fram brtt. gegn þeim till., sem hv. fjvn. gerir við frv. 2 þessar brtt. flutti ég við 2. umr., en tók þær aftur til 3. umr. Er þær að finna á þskj. 494, I. Önnur þessi brtt. fer fram á 3 þús. kr. framlag til Ólafsvíkurvegar. Það er í núgildandi fjárlögum samskonar fjárveiting til þessa vegar, en hefir verið felld niður að þessu sinni, enda þótt mesta nauðsyn sé að halda þarna áfram með veginn, bæði vegna samgangna, og eins vegna þess, að þetta fjárframlag hefir aðeins verið eins og lítill atvinnubótastyrkur til þessa fátæka sveitarfélags. — Hin brtt. er um 1500 kr. framlag til bryggjugerðar á Arnarstapa. Alþingi veitti fyrir nokkrum árum nokkurt fjárframlag til þessa mannvirkis. Það liggur nú undir skemmdum, og er mikil nauðsyn, að unnið sé að því í sumar, ef það á ekki að glatast að verulegu leyti, sem þegar er búið að leggja til þessa mannvirkis.

Þá er brtt. á þskj. 425, IV, um nokkra hækkun til Stykkishólmsvegar. Það er vegargerð, sem staðið hefir yfir um 40 ára skeið og notið svo að segja einskis fjárframlags undanfarin ár. Það er þó vitað, að hér er um fjölfarna leið að ræða, sem myndi verða fjölfarnari, ef vegagerðinni væri hraðað. Ég hafði hugsað mér að bera fram till. um það, að nokkur hluti af benzínskattinum gengi til þessa vegar, þar sem ég tel eðlilegra, að honum væri varið til vegagerðar á þjóðbrautum heldur en að sletta fénu út um alla útkjálka, eins og virðist vera tilætlun þingsins. Hæstv. ráðh. taldi eðlilegra, að ég bæri þessar till. fram við fjárlögin, og vænti ég þess, að hann leggi til, að till. verði samþ.

Þá eru tvær smávægilegar till. á þskj. 500, II, hækkun á styrk til tveggja fiskimatsmanna fyrrverandi, úr 200 krónum upp í 400. Fjvn. hefir sjálf tekið upp till., sem er styrkur til margra fiskimatsmanna, og allir þessir menn eiga að fá 400 króna styrk. En þessir tveir menn, sem ég bar fyrir brjósti, eru teknir út úr og látnir hafa helmingi lægri styrk en allir aðrir. Þetta er svo smámunalegt, að ég tel það fullkomna vansæmd fyrir þingið að ganga frá þessu þannig. Enda þótt þetta sé ekki stórt atriði, nær ekki nokkurri átt annað en að hafa þennan styrk einn og þann sama, en láta þessa menn ekki njóta tvennskonar réttinda af hendi Alþingis. Ég vænti þess, að hv. þm. sjái sóma sinn í því, að gera þessar litlu fjárveitingar allar jafnréttháar.