18.03.1938
Neðri deild: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

69. mál, togaraútgerðarnefnd

*Ísleifur Högnason:

Frv. það, sem Framsfl. og Sjálfstfl. knúðu hér í gegn fyrir tveimur dögum, er ekki til neinnar frambúðar sem lausu togaraútgerðarmálsins. Við kommúnistar erum þess vegna fylgjandi því, að þessi rannsókn fari fram, sem hér er till. um af hálfu Framsfl. Og við viljum líka, eins og hv. þm. G.- K., hraða þessari rannsókn, til þess að ekki komi til þess, að togararnir stöðvist aftur eftir eins eða tveggja mánaða veiðar, ef ekki er hafin umskipulagning útgerðarinnar að einhverju leyti. Færeyingar hafa keypt togara af Bretum og borgað þá með um 120 þús. kr., og hafa gert þá út hér við land með góðum árangri, þar sem okkar togarar skila misjafnlega góðum árangri.

Því miður veit ég ekki sjálfur, hvernig hagur einstakra togara hér er. En eftir upplýsingum frá mönnum, sem þessum málum eru kunnugir, veit ég það sannast í málinu, að 200–300 þús. kr. skuld hvíli á hverjum togara og kannske allt upp í 500 þús. kr. Og það er álit kunnugra, að afskrifa þurfi mikið niður þessar skuldir, sem á togurunum hvíla. Vextir af skuldum meðaltogara eru um 13500 kr. Ef þessir togarar væru seldir við markaðsverði með þeim skuldum, sem á þeim hvíla, þá eru þeir ekki nema 60–100 þús. kr. virði. Vegna þungra vaxtagreiðslna af skuldum hlýtur fyrst og fremst að leiða það, að rekstur togaranna er ekki arðbær.

Í öðru lagi er launafyrirkomulag yfirmanna á togurunum alveg óhæft með öllu. Skipstjóralaun á togurunum miðast við brúttóverð aflans, sem ekki mun tíðkast annarsstaðar. Stundum fá þeir 20 þús. kr. á ári, þó að rekstur togaranna svari kannske ekki kostnaði. Ef stjórnin gerir eitthvað í þessu máli. ætti það fyrst og fremst að vera það að koma því til vegar, að rekstur togaranna gangi ekki þannig, að kaup verkamanna verði pint niður vegna óreiðu í rekstri togaranna í öðrum greinum. Æskilegt væri, að þm. fengju sem fyrst skýrslur frá bönkunum um það, hvaða togarar skulda þar mest og hvernig rekstrarreikningar og efnahagsreikningar viðkomandi togaraútgerðarfélaga eru, eins og nú standa sakir. Það mundi hjálpa til þess, að málið fái framgang á þessu þingi, ef hv. þm. fá ljósa vitneskju um það, hvaða fyrirkomulags til skyldi taka um rekstur togara framvegis. Það væri æskilegt, að n. sú, sem skipuð verður um þetta mál, gæti skilað fljótt áliti, og ætti þá að vera hægt á þessu þingi að gera ráðstafanir til þess, að togaraútgerðin stöðvist ekki á þessari vertíð. Þegar tekið er tillit til þess, að síldarverðið verður í sumar vafalaust miklu lægra heldur en í fyrra, a. m. k. ekki hærra en 4–5 kr. málið, og jafnframt tekið tillit til skulda togaranna, þá er enginn vafi á því, að það kemur til með að verða sama stöðvun á útgerðinni, þegar síldarvertíðin byrjar í sumar, eins og nú á sér stað um togaraútgerðina, ef ekki verður búið að koma þeirri útgerð á heilbrigðari grundvöll en verið hefir.