18.03.1938
Neðri deild: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

69. mál, togaraútgerðarnefnd

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég skal reyna að vera stuttorður.

Það segir í gamalli þjóðsögu, að púkarnir hafi fitnað af blótsyrðum og formælingum. Eins espast hv. formaður Sjálfstfl., þegar gerðardómurinn er til umræðu hér í þinginu, og nú mætir hv. þm. á þingfundi, þó að hann hafi varla sézt hér undanfarið. Annars verð ég að segja það í sambandi við ræðu hv-. þm. G.- K. út af þessu frv., að það eru fáránleg orð, sem þessi maður getur tekið sér í munn í sambandi við umræður um fjármálaspillingu í landinu. Hv. þm. leyfir sér að tala um siðferði og virðist skoða sig sem sérstakan forvígismann siðferðis í fjármálum. Hann talar um, að Kveldúlfur vilji sérstaklega vinna að því að hækka verðið á afurðum landsmanna. Ég vil minna hv. þm. á, hvernig Kveldúlfur kom fram í sambandi við tilraun fiskimanna í Vestmannaeyjum til þess að hækka verð fisksins, þegar þeir gátu fengið hærra tilboð en Kveldúlfur. Hvaða ráðstafanir voru gerðar af hendi fiskhringsins til þess að hindra það: Hvernig var siðferðið í sambandi við Gismondimúturnar? Og hvernig var það í sambandi við Spánarmúturnar? Ég held, að þessi hv. þm. ætti sízt að vera að tala um sukk og óreiðu hjá öðrum. Hann ætti að stinga hendinni í sinn eigin barm og hugsa um óreiðuna hjá Kveldúlfi og Landsbankanum.

Ég held, að í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé um það að ræða, að þingheimur fái skorið úr því, hvaða aðferð hann vill beita í rekstri togaraútgerðarinnar, og að sú n., sem fær málið til athugunar, skili áliti sínu fljótt, og að þingflokkarnir taki afstöðu um það, hvernig reka eigi togaraútgerðina. Hún verður ekki rekin með stóryrðum Ólafs Thors og ekki heldur með því að hylma yfir ástand hennar nú.

Hæstv. fjmrh. viðurkenndi, að það mundi vera orðið óhjákvæmilegt að breyta skipulagi togaraútgerðarinnar, og ég held, að þegar fengin er viðurkenning fyrir því frá þingflokki, sem mestu ræður, þá ætti að vinda sem bráðastan hug að því, að þetta yrði gert, og láta ekki sitja við orðin tóm. Mér virðist, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið undanfarið, hafi, eftir þeim upplýsingum, sem hv. þm. V.-Húnv. gaf áðan, ekki borið svo mikinn árangur, að það væri við góðu að búast þaðan. Hann gaf þær upplýsingar, að þegar hann var settur til eftirlits með Kveldúlfi af hálfu bankaráðs Landsbankans, þá hafi hann fengið fyrirmæli um, að hann ætti ekki að skipta sér af sölum Kveldúlfs. Þegar stjórn Landsbankans og eftirlitið með Kveldúlfi er ekki betra en þetta eftir allt, sem fram hefir farið, og rætt hefir verið um samkomulag hér í þinginu viðvíkjandi Kveldúlfi og Landsbankanum, þá held ég sé tími til þess kominn, að Alþ. skipti sér af stjórn Landsbankans á Kveldúlfi. Nú er vitað, að í fyrra gerði Landsbankinn ráðstafanir til eftirlits með Kveldúlfi eftir áminningu alþjóðar í sambandi við umræður, sem urðu um þetta mál, og till., sem fram kom hér um þetta efni, en fyrst þetta eftirlit er ekki strangara en raun ber vitni um, þá sé ég ekki, að þingið geti lengur hjá því komizt, að taka þetta í sínar hendur, enda er tilgangurinn með þessu frv. í raun og veru sá, að þingið láti þetta mál alvarlega til sín taka.

Nú hefir hv. þm. V.-Húnv., 2. flm. málsins, óskað þess sérstaklega, að því verði flýtt eins og hægt er. Ég vil taka undir þessi orð hv. þm., og við vitum af reynslu síðustu daga, hvað það þýðir, að flýta máli eins og hægt er. Ég leyfi mér að gera að till. minni, að málinu verði ekki vísað til n., heldur afgr. nefndarlaust til 2. umr. og með afbrigðum gegnum þingið undir eins í dag. Það ætti sízt að vera verra að framkvæma slíkt með mál, sem allir þingflokkar eru sammála um, heldur en gerðardóminn, sem þingflokkarnir voru mjög ósammála um. Ég vil því endurtaka undirtektir minar undir þá till. hv. þm. V.Húnv., að flýta málinu eins og unnt er.