18.03.1938
Neðri deild: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

69. mál, togaraútgerðarnefnd

*Finnur Jónsson:

Hv. þm. G.- K. notaði þær 20 mínútur, sem hann hafði til þess að gera aths. um þetta mál, til þess að halda áfram að hrúga upp þeim brigzlyrðum og dylgjum í minn garð, sem hann hefir áður gert hér á þinginn, um það, að ríkisverksmiðjurnar hefðu allajafna, á meðan ég réð þar um, selt lýsið £1 lægra en allir aðrir, og að þetta eina pund hafi farið eitthvað annað en til verksmiðjanna. Ég hrakti þetta í minni fyrri ræðu. Í fyrsta lagi er það algerlega ósatt, að verksmiðjurnar hafi selt lýsið £1 lægra en allir aðrir. Ég benti á það, að þegar sölusamningarnir fóru fram um fyrirframsölu á lýsinu, þá seldu allar verksmiðjur í landinu fyrir sama verð og ríkisverksmiðjurnar, nema aðeins ein, og þessi eina verksmiðja seldi á sama degi lýsi fyrir 3 aðrar verksmiðjur og gat ekki fengið hærra verð fyrir það lýsi heldur en það, sem ríkisverksmiðjurnar fengu, m. ö. o., að sú lýsissala, sem hv. þm. talar um á £22, var alveg einstök. Samt leyfir þessi hv. þm. sér að halda áfram þessum dylgjum, og ég fyrir mitt leyti efast ekki um, að hann gerir það á móti betri vitund. Honum er það kunnugt um sölu lýsis hér á landi, að hann veit, að það er rétt, sem ég hefi sagt, að það var aðeins ein verksmiðja, sem náði þessari sérstöku sölu, og engin önnur verksmiðja náði því, og þess vegna er alveg tilgangslaust fyrir hv. þm. að vera að endurtaka þessar dylgjur fyrir hv. þingheimi æ ofan í æ á móti betri vitund- Hv. þm. spyr mig, hvar þessi pundsmismunur sé. Hvar eru pundin, sem þjóðin er búin að leggja í Kveldúlf? (ÓTh: Í ríkissjóði). Ég hefði gaman af því, ef hæstv. fjmrh. vildi svara því, hvort þau pund, sem þjóðin er búin að leggja í Kveldúlf, eru í ríkissjóði. — Viðvíkjandi lýsissölunni til Þýzkalands hefi ég upplýst það og hv. þm. hefir ekki dottið í hug að mótmæla því, að það hefir alltaf verið hægt að fá einu pundi meira fyrir lýsi, sem selt er í Þýzkalandi, með því að borga inn á aski-konto, heldur en á frjálsum markaði, og það er þessi sérstaka lýsissala til Þýzkalands, sem Kveldúlfur hefir notið umfram aðra á þessu tímabili í sumar. Því að það fékk enginn annar að selja lýsi til Þýzkalands. (ÓTh: Það vildi enginn annar gera það). Ég var að tala um þá, sem máttu selja þangað og Kveldúlfur fékk leyfi til þess að selja 12–1300 tonn. Ég vil skora á hv. þm. G.- K. að hrekja þetta með rökum, ef hann getur. Það er ekki til neins fyrir hann að koma með stöðug ósannindi í þessu máli. Ég skora á hann að svara því afdráttarlaust, hvort hann vill viðurkenna það eða ekki, að hægt hafi verið að fá £1 meira fyrir lýsi í Þýzkalandi heldur en á frjálsum markaði.

Svo skal ég koma að því, sem hv. þm. sagði viðvíkjandi fyrirframsölunum. Ég hefi bent á það, að Kveldúlfur hefði getað látið fara fram fyrirframsölu á Hesteyrar-lýsinu í janúar, eins og aðrir, hvað sem Hjalteyri leið. Því svaraði hv. þm. þannig, að Hesteyrarverksmiðjan hefði getað selt 500 tonn af lýsi fyrirfram, en að það hefði ekki munað Kveldúlf neinu. Það hefði munað Kveldúlfi mismuninum á verði þessara 500 tonna af lýsi, eða upp undir 80000 kr., en Kveldúlf munar bara ekkert um þá upphæð. En ekki nóg með það. Hvers vegna hefði Kveldúlfur ekki getað selt meira en 1/3 af framleiðslu Hesteyrarverksmiðjunnar fyrirfram? Ríkisverksmiðjurnar seldu 2/3 af sinni framleiðslu, þegar þær seldu. Framleiðsla Kveldúlfs er í sæmilegu árferði um 1500 tonn af lýsi á ári, og 1300 mála verksmiðja framleiðir 27 tonn á dag, og ef reiknað er með 60 daga vinnslu, þá eru það um 1600 tonn. Hvers vegna seldi Kveldúlfur ekki meira en 500 tonn? Kveldúlfur getur selt 1000 tonn, og þá hefði hann getað tryggt ágætt verð fyrir 2/3 af framleiðslu Hesteyrarverksmiðjunnar. En einn af framkvæmdarstjórum félagsins segir, að það hafi ekki munað neitt um þetta. Kveldúlfur gat selt 1000 tonn, og tryggt sér með því a. m. k. 160000 kr. meira fyrir lýsi Hesteyrarverksmiðjunnar, en hann vildi það ekki, því að eins og ég sagði áðan, álitu framkvæmdarstjórar Kveldúlfs, að lýsið mundi fara upp í £25 tonnið.

Viðvíkjandi leyfinu fyrir byggingu Hjalteyrarverksmiðjunnar vil ég segja, að það var búið að gefa Kveldúlfi leyfi til þess að reisa verksmiðjuna, og það gilti til febrúarloka, þó með því skilyrði, að fyrir þann tíma væri Kveldúlfur búinn að sanna, að hann hefði peninga til þess að byggja verksmiðjuna. Kveldúlfur gerði þetta ekki, þó að hann hefði fyrir sér tímann frá miðjum janúar til febrúarloka, svo að það stóð alls ekki á atvmrh., að Kveldúlfur fengi leyfið. Það stóð á honum sjálfum eða þeim, sem ætluðu að lána honum peninga.

Eins og ég benti á áðan, er ég búinn að sanna, að Kveldúlfur gat selt 1000 tonn af framleiðslu Hesteyrarverksmiðjunnar og tryggt sér 160000 kr. meira fyrir framleiðsluna. Ólafur Thors, hv. þm. G.- K., segir, að Kveldúlf — hann meinar Landsbankann — muni ekki um 160000 kr. tap. Þegar salan fór fram, var Kveldúlfur búinn að fá leyfið, en það stóð á því, að hann uppfyllti skilyrðin, en ekki á atvmrh., svo að Kveldúlfur hefði, ef hann hefði lagt fram það, sem þurfti til þess, að hann mætti byrja á byggingu verksmiðjunnar, ekki aðeins getað selt fyrir Hesteyri, heldur líka fyrir Hjalteyri, með þeim venjulegu klásúlum, sem settar eru af öllum, sem selja síldarlýsi hér á landi. (ÓTh: Þetta eru visvítandi ósannindi.

Hv. þm. G.-K. sagði, að tap Hávarðs Ísfirðings hefði a. m. k. verið 250000 kr., og þetta segist hann hafa séð í skýrslu, sem honum hafi verið trúað fyrir og megi ekki segja frá; m. ö. o., þessi hv. þm., sem á sæti í bankaráði Landsbankans, notar sér aðstöðu sína til þess að reyna að gera sennileg þau ósannindi, sem hann hefir í frammi hér á Alþ., um leið og hann kemur orðum sínum þannig fyrir, að ekki er hægt að krefja hann um að birta þær skýrslur, sem hann segist hafa séð þetta í og hann veit, að mundu sanna ósannindi hans, ef hann kæmi með þær. Slíkur ódrengskapur er ósamboðinn hv. þm. G.-K., og þó að ég hafi annars ekki mikla samúð með Sjálfstfl., þá verð ég að kenna í brjósti um hann, að hann skuli eiga slíkan mann fyrir foringja. Jafnvel Sjálfstfl. á það ekki skilið.

Ég held, að það sé ekki mikið meira, sem ég þarf að segja um þetta. Hv. þm. G.-K. hefir verið að tala um það hér, að hann hafi getað fengið 10 sh. hærra fyrir sitt lýsi en aðrir, og það hafi staðið opið í allt sumar. En hvers vegna hafa þeir ekki selt? Hvers vegna leyfa þeir sér að skaða Landsbankann og þjóðina um 5–700000 kr. á þessari óhæfilegu „spekulation“ með síldarlýsi Kveldúlfs, sem þeir hafa gert sig seka um?