07.05.1938
Sameinað þing: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

1. mál, fjárlög 1939

Sigurður Kristjánsson:

Hæstv. atvmrh. var tiltölulega hógvær í þessu svari sínu, enda svaraði hann nú lítið þeirri fyrirspurn, sem ég lagði fyrir hann. Hann sagði, að regla við skuldaskil útgerðarmanna hefði verið sú, að þeir hefðu framselt bú sín, og það er alveg rétt. Nú segir hæstv. ráðh., að samvinnufélögin verði harðast úti eftir þeim hæstaréttardómi, sem fallinn er. Þetta er ekki rétt, því að hæstiréttur setur samvinnumenn hliðstæða ábyrgðarmönnum, og þeir verða betur úti samkvæmt dómnum heldur en almennir ábyrgðarmenn, af þeirri einföldu ástæðu, að þótt þeim sé lögð sama skylda til greiðslu á herðar, þá hafa þeir haft miklu meiri umráð og afskipti af þeim fyrirtækjum, sem þeir standa í ábyrgð fyrir heldur en þeir almennu ábyrgðarmenn, sem eru alveg framseldir skattheimtumönnum. Til þess að sanna það, að samvinnumenn verði harðast úti, yrði ráðherra að sanna það, að dómur hæstaréttar væri rangur, og hæstiréttur hefði átt að setja þessa menn hliðstæða við útvegsmenn, en ekki hliðstæða við ábyrgðarmenn. Vænti ég þess, ef svo er, að hæstv. ráðh. er ekki sjálfur búinn né heldur hefir fengið lögfræðilega aðstoð til þess að fullvissa sig um, hvort þetta form skuldaskila er framkvæmanlegt, þá muni hann heldur ekki vera búinn að fá leyst úr svo miklum vanda, hvort hæstaréttardómur er réttur eða ekki, enda liggur það ekki fyrir til umr. Hann getur á engan hátt rökstutt að samvinnufélög, sem eru í ábyrgð vegna samvinnufélagsskapar, fari verr út úr því heldur en þau, sem búið er að gera skuldaskil fyrir, nema með því að ganga út frá því, að þeir séu ekki hliðstæðir við ábyrgðarmenn, eins og hæstiréttur hefir ályktað. — Hæstv. atvmrh. sagði, að ég hefði farið í ræðu minni með ýmsar staðleysur, og leyfði ég mér að kalla fram í og spyrja, hverjar þær væru, því að það er viðkunnanlegra að vita, hver sökin er, þegar slíkt er borið á mann. En ráðh. svaraði því engu öðru en því, að ég hefði sagt, að ríkissjóður ætti að leggja fram 90 þús. kr., sem aldrei kæmu aftur. Í fyrsta lagi er þetta rangur skilningur. Ég sagði, að ætti að gera skuldaskil upp á 90 þús. kr., og ríkissjóður legði fram 74–75 þús. kr., sem hann fengi aldrei aftur. Og þetta sagði ráðh., að væri rangt. En þetta er rétt, og það hlýtur ráðh. að vita, að það, sem ríkissjóður leggur til skuldaskila, er ekki afturkræft til ríkissjóðs. Þær endurgreiðslur, sem kynnu að fást, rynnu til skuldaskilasjóðs, sem síðar, ef eitthvað yrði afgangs fram yfir hans skuldbindingar, verður hans eign. En það er ekki gert ráð fyrir því, að skuldaskilasjóður muni bera mikinn arð úr býtum af þessum endurgreiðslum. Þess er varla að vænta, þegar lánað er fyrirtækjum, sem eru alvarlega illa stödd.

Ég spurði hæstv. atvmrh. um, hvaða leið hann hefði hugsað sér, að farin yrði til þess að koma þessum skuldaskilum fram, og hvað hann ætlaði að gera, ef skuldaskilin reyndust óframkvæmanleg samkvæmt þessari brtt. hans við fjárlögin. Hann svaraði því, að það lægi ekkert fyrir um það, hvað gert yrði, því að það væri ómögulegt að segja um, hvort þessi leið reyndist fær. Eg þóttist vera búinn að færa rök fyrir því, að þessi leið væri ófær, óframkvæmanleg. Ég sýndi fram á, að það er ekki hægt að þvinga kröfuhafa til þess að fara þessa leið til skuldaskila, og þeir geta farið sína götu og gengið að ábyrgðarmönnunum, hvað sem auglýsingum og samþykktum í sambandi við fjárlögin liður. En mér þykir það undarlegt, að ráðh. skuli ekki geta gert sér grein fyrir þessu. Hvað hafa lögfræðingarnir í atvinnumálaráðuneytinu sagt honum? Hann á kost á mikilli lögfræðilegri aðstoð frá ýmsum góðum lögfræðingum í stjórnarráðinu. Hljóp hann af stað með þetta sem sannað mál án þess að ráðgast um það við aðra?

Er hann svo sannfærður um, að hann einn viti, og enginn annar betur, að hann þurfi ekki að leita ráða um lögfræðileg atriði? Ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því, enn í viðbót, þó að hann sé tregur til svars: Hvað hafa lögfræðingar atvinnumálaráðuneytisins sagt honum um þessa hluti? Er þetta form hugsað eftir þeirra ráðleggingum? Hæstv. atvmrh. sagði í sambandi við þetta, að það væri hugsað, að skuldaskil fyrir þessa menn, sem eru í ábyrgð fyrir samvinnufélögum, yrðu eins og fyrir aðra útgerðarmenn. Hæstv. ráðh. veit það, að þessi till. er borin fram vegna þess, að hæstaréttardómur hefir gert þessa menn hliðstæða ábyrgðarmönnunum fyrir einkafyrirtækjum, og það er þess vegna ekki um slíkan samanburð að ræða við útvegsbændur. Það er bara samanburður við þá, sem hafa verið í ábyrgð fyrir útvegsmenn. Hæstv. ráðh. svaraði því engu, hvort þetta væru samningar á milli stj. og stuðningsmanna hennar. Það er ekki að búast við, að hann vilji auka umr. um þetta mál, en af því að hann fór að telja upp samvinnufélögin, sem njóta mundu góðs af þessum skuldaskilum, þá ætla ég að leyfa mér að minnast á þau líka, og leiða nokkur rök að því, að þetta sé ekki gert fyrir þau öll, heldur aðallega eitt þeirra. Af þessum sex félögum eru 4 með ótakmarkaða ábyrgð. Þá eru tvö félög með takmarkaða ábyrgð; er það samvinnufélag Stykkishólms, með takmarkaða ábyrgð við 500 krónur, og samvinnufélagið Grímur í Borgarnesi hefir takmarkaða ábyrgð hjá sínum meðlimum við 200 kr. Má geta nærri, að hæstv. ráðh. er ekki að hlaupa til að koma með þessa till. um 90 þús. kr. vegna þessara félaga, sem ekki hvílir meiri ábyrgð á heldur en þetta. Það er ekki líklegt, að það hafi verið nein sérstök nauðsyn fyrir þau. Þá eru eftir 4 félög. Eitt þeirra er kaupfélagið Fram í Vestmannaeyjum. Ég hefi það fyrir satt, að skuldir þessa félags séu svo að segja allt skuldir við bankana, víxilskuldir, sem meðlimir félagsins hafa gengið í persónulega ábyrgð fyrir, og skrifað á þessa víxla. Og þótt þessi skuldaskil yrðu gerð, er krafa bankanna á þá algerlega óskert eftir sem áður. Þetta getur því ekki verið gert fyrir þetta félag. Þá er félagið á Stokkseyri og félagið á Búðum í Fáskrúðsfirði. Þessi félög eru yfirleitt samansett af eignalausum mönnum, sem ég hygg að yfirleitt myndi alls ekki verða gengið að. Ég er sannfærður um, að það hefði verið litið svo á af kröfuhöfum, að ekkert væri af þessum mönnum að hafa, og ekki komi til mála að ganga að þeim. Þessi skuldaskíl eru því ekki hugsuð fyrir þessi félög. Þá er eftir samvinnufélagið á Ísafirði, sem hefir gert skuldaskil upp á geysimikla skuld; ég komst dálítið þar inn í, af því að ég hafði umboð fyrir kröfuhafa í bú þess. Það félag fékk skuldaskil upp á 5% greiðslur á 400 þús. kr. — Nú er mér kunnugt um, að kringum helmingur af þessari upphæð er skuldir við bæinn og ríkið, sem ekki er líklegt, að yrði farið að gera harðlega gildandi, og þar að auki eru allverulegar upphæðir skulda við kaupfélagið á Ísafirði, sem ég geri heldur ekki ráð fyrir, að yrði gengið hart fram í að innheimta, vegna þess að það mun vera mikið af sömu mönnunum í báðum þessum félögum. Auðvitað er þó eftir skuld, sennilega hátt í 200 þús. kr. hjá einstökum mönnum, sem maður gæti búizt við, að vildu gera sínar kröfur gildar. Og er það vitanlega vegna þeirra manna, sem hæstv. atvmrh. ber fram þessa till., og það er af því, að þó nokkrir menn eru meðal þeirra manna, sem í ábyrgðinni standa, sem almennt er álitið, að hafi allverulega getu til þess að taka að sér greiðslurnar, og má því búast við, að kröfuhafar telji að þeir eigi þar talsverða fjárvon. Nú ber svo leiðinlega við, að það eru einmitt þingmenn, og eru allir stuðningsmenn þessa hæstv. ráðh. Og það er kannske svo, að stóllinn riði undir ráðh., ef stoðir þessar eru ekki treystar. — Það dettur auðvitað ekki nokkrum manni í hug að setja þessa tillögu í samband við annað. Þykir mér þetta nokkuð djarft leikið, svo að ekki sé frekar að orði kveðið.

En nú ætla ég að koma ofurlítið meira að formshliðinni: Hvernig ætlar hæstv. ráðh. að framkvæma þessi skuldaskil með einni brtt. við fjárl.? Ég fékk engin svör frá honum önnur en þau, að um þetta væri ómögulegt að segja. Ég spurði hann, hvort hann ætlaði að gefa út bráðabirgðalög, þegar hann ræki sig á, að skuldaskil væru óframkvæmanleg án l. Hann vildi ekki svara því. Ég efast ekki um, að á fyrsta stigi málsins hafi hæstv. ráðh. dottið í hug. að hægt væri að gera skuldaskil á þennan hátt. En hvernig hugsar hann sér að forma þessi skuldaskil? Hann segir, að það verði gert eftir nánari reglum, sem ráðuneytið setji. Hverskonar reglur ætlar hann að setja um það, hvernig þessum skuldum er jafnað niður á ábyrgðar-mennina? Ætlast hann til að geta gert það eftir efnum og ástæðum eða bara eftir efnum? Ætlast hann til, að þeir hafi samábyrgð um þetta, eða ætlast hann til, að hver sé tekinn út af fyrir sig og athugað, hvað hann getur? Ætlar hann að miða við efni manna eða efni og ástæður? Þetta er stórt atriði. Ég vil taka dæmi fyrir hæstv. ráðh.: Hér höfum við eflaust einn með mestu hátekjumönnum landsins. Getur verið, að sami maður gæti sýnt fram á, að hann væri öreigi, eða a. m. k. væri ekki hægt að sýna fram á, að hann ætti neitt, þó að hann kynni að eiga það. En ef maðurinn situr í lífstíðarstöðu, sem gefur honum 15–20 þús. kr. tekjur, á þá að fara eftir efnum hans eða efnum og ástæðum? Annar maður kynni að vera alveg tekjulaus, en eiga kannske nokkrar þúsundir kr., sem hann lumaði á af sparsemi langrar æfi. Á þá að taka þetta af honum og skilja hann eftir við sínar bágu ástæður? Hefir hæstv. ráðh. gert sér grein fyrir þessu, þegar hann setur þetta í gr. „eftir nánari reglum, sem atvmrh. setur“? Það væri náttúrlega ósnngjarnt að ætlast til þess, að hann hefði gert sér grein fyrir því, en ég skal viðurkenna, að hann þurfti þess ekki, því að það er svo mikil fjarstæða, svo langt frá veruleikanum, að hægt sé að gera skuldaskil á þennan hátt. Hann mundi strax reka sig á, að um það verða að vera l. Og þá endurtek ég spurningu mínu: Ætlar hæstv. ráðh. að gefa út bráðabirgðalög, nú þegar hann er búinn að losast við þetta þing, og hvernig ætlar hann að hafa þessi lög? Því að þá kemur vandinn öðru sinni, og það er að ákveða reglur um, hvernig eigi að framkvæma þessi dæmalausu skuldaskil.

Ég veit, að þessum skylduræknu hv. þm., sem hér sitja, er bráðum mál að fara að borða, og ég býst við, að hæstv. ráðh. muni góðfúslega svara þessum spurningum, og það muni taka nokkurn tíma, og einnig með tilliti til þess, að ég held, að málið sé orðið öllum ljóst, ætla ég ekki að bæta meiru við þetta. Ég vil bara að lokum minna hæstv. ráðh. á, að hann svaraði ekki þessari mikilsverðu spurningu minni, hvort þetta væru samningar milli stj. og stuðningsmanna hennar, eða hvort þetta væri komið fram eingöngu af hans hjartagæzku? Mér þykir það líklegra, því að það er ólíklegt, að stuðningsmenn hans hafi geð á að þiggja svona leiðinlega tilkomna gjöf.