01.04.1938
Neðri deild: 38. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

69. mál, togaraútgerðarnefnd

*Sigurður Kristjánsson:

Ég vil aðeins gera grein fyrir minni afstöðu til þessarar till., og skal ég hafa hana þá sömu og ég gerði í sjútvn.

Það var dálítið fljótlega skýrt frá þessu máli af hv. frsm., því atkvgr. fór engin fram í n. um till., en það var álit nm. yfirleitt, að það væri orðið svo áliðið þings, að óhugsandi mætti teljast, að n. gæti skilað áliti að þessu sinni.

Ég lýsti því yfir í n., að ég áliti, að það hefði verið hin mesta fjarstæða, að hefja þetta mál með annað fyrir augum en að það yrði afgr. á þessu þingi. Og þetta er skoðun mín enn, þrátt fyrir það þó að málið sé búið að dragast svo lengi, að lítil líkindi eru til, að þetta sé mögulegt. En ég vil, að það komi skýrt fram, að ég er efni brtt. algerlega samþykkur. Það eitt, sem veldur því, að ég geri ekki ráð fyrir því, að n. geti lokið störfum sínum á yfirstandandi þingi, er þetta, að málið hefir verið dregið svona lengi.