07.05.1938
Sameinað þing: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

1. mál, fjárlög 1939

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta, að verða ekki margorður, enda gerist þess ekki þörf, þar sem ég útskýrði málið allgreinilega áðan.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að það gilti sama máli um þessi félög og þá menn, sem kunna að hafa verið í ábyrgð fyrir einstaka vélbátaeigendur, sem þar hefðu fengið skuldaskil. Hann hefir þó tekið það aftur í öðru orðinu í sínum ræðum, þar sem hann hefir bent á, að öðru máli gegni um þessa menn, vegna þess að þeir hafi haft miklu meiri afskipti af stjórn og rekstri viðkomandi félaga heldur en ábyrgðarmenn, sem hafa verið fyrir lánum einstakra bátaútvegsmanna, en vitanlega ekkert haft um það að segja, hvernig sá útvegur hefir verið rekinn. Þetta er rétt hjá honum, og hann hefir þar sjálfur tekið það aftur í einu orðinn, sem hann sagði í hinu.

Það er alveg rétt, að það er munur á þessu. Hér er um að ræða hina raunverulegu eigendur þessara samvinnuútgerðarfyrirtækja, eigendur þeirra báta, sem hér er um að ræða, sem eru hliðstæðir að öllu leyti öðrum eigendum og útgerðarmönnum vélbáta, hvort sem þar er einn maður um bát eða fleiri saman. Þessir menn, sem samvinnufélögin reka, eru einir eigendur bátanna og engir aðrir, a. m. k. býst ég ekki við, að hv. 6. þm. Reykv. geti bent á neina aðra eigendur, sem þessir menn hefðu þá verið í ábyrgð fyrir. Hann vildi gera lítið úr þessari samábyrgð nema þá helzt á Ísafirði. Nefndi hann sem dæmi Stykkishólm, þar sem hann sagði, að ábyrgðin væri bundin við 500 kr. hjá hverjum félagsmanni. Ég geri ráð fyrir, að þessi upphæð, sem hann nefndi, sé rétt, en það skiptir nokkru máli, hvort þeir bera sameiginlega ábyrgð einn fyrir alla og allir fyrir einn að upphæð 500 kr. fyrir hvern félagsmann, eða að upphæð hvers einstaklings er bundin við 500 kr. Þetta skiptir verulegu máli. Auk þess vil ég benda á, að jafnvel þó að ábyrgðin væri það takmörkuð, að hver einstaklingur þyrfti ekki að borga meira en 500 kr., þá gæti það orsakað gjaldþrot hjá fátækum sjómönnum, ef að þeim væri gengið með þá kröfu.

Hv. þm. var að tala um, að þarna mundu eiga hlut að máli 3 þm., sem væru stuðningsmenn stj. Það er nú svo, að hann virðist gera svo mikið úr því atriði, ef þarna eru 3 þm. þátttakendur í þessum félagsskap, að hann gleymir öllum sjómönnunum, sem skipta hundruðum, sem eru í þessum félagsskap, þó að hann sé hér annað slagið að tala um, hvað þeir eigi við bág kjör að búa, þar sem þess séu jafnvel dæmi, að þeir sjái ekki konur sínar og börn árum saman. Hann gleymdi þeim allt í einu og talaði eingöngu um 2 eða 3 hátekjumenn. sem hann kallaði, sem þarna væru við riðnir.

Hann sagði, að sú leið, sem hér ætti að fara, væri alveg óframkvæmanleg, og er að spyrja um, hvað lögfróðir menn í stjórnarráðinu og annarsstaðar hafi um þetta sagt. Ég gat þess í fyrri ræðu minni, að það gæti vel borið sig, að ekki yrði hægt að ná samningum, en ég býst við, að hv. þm. viti, þó að hann þykist ekki vita það, að ákaflega mörg dæmi eru til þess, að hægt er að ná samningum við kröfuhafa um greiðslur á þeim kröfum, sem þeir hafa, án þess að þurfi að selja um það sérstaka löggjöf. Þetta veit hver maður, og þess vegna tel ég rétt, að sú leið sé reynd til þrautar, hvort ekki má ná samningum um kröfur, sem á þessum útgerðarmönnum hvíla, án þess að um það þurfi að setja sérstök l. Hitt er annað mál, að ef sú leið reynist ekki fær, þá getur v erið, að verði að setja um það l., en þá vil ég vænta, að það geti dregizt, þangað til Alþingi kemur saman næst, svo að Alþingi geti gengið frá þessari lagasetningu. Ef það hinsvegar gæti ekki beðið, þá gæti vitanlega svo farið, að setja yrði bráðabirgðalög, en um það liggur ekkert fyrir nú, og er þess að vænta, að til þess þurfi ekki að koma. Önnur svör get ég ekki gefið honum um þetta.

Hann segir, að miklu máli skipti, hvernig þær reglur og þau l. verði, sem sett verði um þessi skuldaskil, hvort eigi að miða við efni og ástæður eða aðeins efni. Hann talaði um mann, sem kannske ætti ekkert til, en væri í góðri stöðu, og svo annan, sem væri farlama, en ætti eitthvað í kistuhandraðanum, og hvort það sé meiningin að taka allt af honum: Það er nú ekki annað en það, sem yrði gert, ef einhver farlama maður er á Ísafirði, þar sem þessi hv. þm. var fyrir nokkrum árum, sem væri þátttakandi í samvinnufélaginu þar. Það liggur ekki annað fyrir en að taka allt af honum, ef engar ráðstafanir eru gerðar til þess, að hann og aðrir, sem í þessum félögum eru, geti komizt að samningum við kröfuhafana. Ef til þess kemur, að setja verður l. um þessi efni, þá tel ég sjálfsagt að þau verði með svipuðu móti og l. voru um skuldaskil vélbátaeigenda og framkvæmd á sama hátt, og ég gerði ráð fyrir því í fyrri ræðu minni, að um tryggingar fyrir væntanlegum lánum yrði fylgt svipuðum reglum og þegar skuldaskilin voru framkvæmd.

Ég þykist þá hafa upplýst þetta mál nægilega og sé ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð.