04.03.1938
Neðri deild: 14. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

40. mál, hafnargerð á Raufarhöfn

*Ólafur Thors:

Ég hygg, að frv. þetta sé, þó að ekki sé þess getið í grg., flutt að tilhlutun stjórnar síldarbræðslnanna. Mér er kunnugt um, að verksmiðjustjórnin hefir samið þetta frv. að mestu leyti og ætlaðist til, að sjútvn. Ed. flytti það, en sendi svo frv. með bréflegri tilkynningu um, að flutnings væri óskað, til eins stjórnarnefndarmannsins, Finns Jónssonar, sem ekki var viðstaddur, er þessi ákvörðun var tekin. Hann hefir nú orðið við þessum tilmælum, enda þótt óviðkunnanlegt sé, að það sé nú flutt hér í d. í þessu formi, eftir að verksmiðjustj. var búin að mæla með, að það yrði flutt í Ed. Það er óviðkunnanlegt, að stjórnarnefndarmeðlimur, í stað þess að svara bréfi stjórnarinnar, skuli nú snúa sér til hv. þm. N.-Þ. og biðja hann að flytja með sér frv.

Ég vildi, að þetta kæmi fram. En ef frv. þetta er shlj. frv. verksmiðjustj., þá vil ég allt um það styðja að framgangi þess, því að þessu síldarnefndarfrv. vildi ég fylgja. Ég hefi þó ekki ennþá borið þessi tvö frv. nákvæmlega saman.

Ég tel aðalatriði í málinu, að framkvæmdir verði hafnar á þessu sumri, enda þótt nú sé búið að semja fjárl. fyrir 1938. Gæti ég hugsað mér, að hrinda mætti málinu fram á þann hátt, að ríkisverksmiðjurnar lánuðu úr sjóði sínum fé til framkvæmdanna, þ. e. ríkissjóðsframlagið, og fengju það endurgoldið síðar úr ríkissjóði.