04.03.1938
Neðri deild: 14. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

40. mál, hafnargerð á Raufarhöfn

*Ólafur Thors:

Það er ekki ástæða til að deila mikið um keisarans skegg. En það er bezt, að það komi greinilega fram, að flest, sem síðasti ræðumaður sagði um gang málsins, eru óheilindi. Hann veit vel, að þetta frv. var sent Finni Jónssyni af meðstjórnendum hans í verksmiðjustj. og að F. J. í stað þess að endursenda verksmiðjustj. frv. og þá um leið umsögn um það, hvort hann væri því samþykkur, kvaddi þennan hv. þm. á fund sinn. Þeir afgreiddu frv. og svo var það flutt hér á Alþ. Það kom daginn eftir í þingsalinn. Skjalavörður getur sjálfsagt borið vitni um það, hvenær hann fékk það, en það var hæfilega langt liðið frá því að F. J. tók á móti því og þar til hann var búinn að senda það hingað með nafni þessa hv. þm.

Þetta er ekki aðalatriðið. En hitt er aðalatriði fyrir þá menn, sem vilja halda uppi virðingu Alþ. — eins og mér hefir skilizt, að þessum hv. þm. liggi þungt á hjarta —, að menn temji sér að segja frekar satt en ósatt, sérstaklega þar sem það getur ekki gert þeim verulega til, hvort þeir þjóna sannleikanum eða ósannindunum í það skiptið.

Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég tel það skipta talsvert miklu máli, að þar sem á að leggja 11/2 millj. kr. í síldarverksmiðju á þessum stað, þá er sú aukna umferð, sem leiðir af starfi slíkrar verksmiðju, áreiðanlega svo mikil, að það er ekki hægt að hafa full og eðlileg afnot verksmiðjunnar, nema að gera þessa dýpkun á höfninni, sem ætlunin er að gera. Ég legg mikla áherzlu á, að þetta verði gert í tæka tíð, svo það verði full not af henni, þegar hin nýja verksmiðja tekur til starfa.

Ég hefi tiltölulega lítil áhrif á það, hvernig stj. síldarverksmiðjanna kynni að snúast við því að leggja fram fé sem lán upp á væntanlegt ríkissjóðsframlag. En það er greinilegt, að þm. kjördæmisins gerir það, sem hann getur, til þess að espa stjórn síldarverksmiðjanna gegn málinu með því að hafa í frammi málefnahnupl og skreyta sig með þessum málefnaflutningi, úr því stjórn síldarverksmiðjanna ætlaði málinu að ganga aðra leið.