04.03.1938
Neðri deild: 14. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

40. mál, hafnargerð á Raufarhöfn

*Ólafur Thors:

Það er örstutt aths. Ég get vel skilið, að hv. þm. finnist það litilfjörlegt atriði, hvort hann hefir hnuplað þessu frv. eða ekki, og hvort framkoma hans í þetta skipti er þannig, að hún sé talin samboðin þeim manni, sem sérstaklega vill leggja áherzlu á að halda uppi virðingu þingsins. Ég skil, að hann telji þetta ekki aðalatriði. En þó þetta sé svo, þá hefir hans framkoma í þinginu samt ekki almennt verið þannig, að mönnum finnist engin ástæða til að tala um svona framferði. Það getur verið, að þetta sé misskilningur hjá mér.

Ég ætla að þiggja tilboð hans um að fá að sjá þetta bréf að norðan, og vil helzt fá að sjá það sem fyrst. Mér þykir gaman að sjá, hvenær hann hefir fengið bréfið og hvernig orðalagið er á bréfinu og frv., sem hann segist hafa fengið. Það er ekki ófróðlegt að sjá, hvernig þeim hefir tekizt, hvorum í sínu lagi, stjórn síldarverksmiðjanna og þessari hreppsnefnd fyrir norðan, að semja hafnarlög, sem eru, þegar þau eru borin saman, svo að segja orði til orðs eins. Ég ætla sem sagt að þiggja þetta tilboð og vona, að hann sýni mér bréfið, þegar fundi er lokið. Ef hann hefir það ekki við hendina, þá stendur ráðherrabíllinn fyrir utan, og hann verður ekki lengi að skutla honum heim. Ríkissjóður mun ekki telja eftir sér að borga það.