29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

40. mál, hafnargerð á Raufarhöfn

*Bergur Jónsson:

Ég vil aðeins geta þess viðvíkjandi seinni brtt. við stafl. f., að í flestum hafnargerðum eru ákvæði í þessa átt; t. d. í hafnargerðinni fyrir Akranes, þar sem nú er komin verksmiðja, er heimild til þess að taka 1% af afla báta. Og á Sauðárkróki er í rauninni gengið lengra í þessum efnum. Þar má heimta allt að 1/2 hlut af hverjum vélbáti, 8 smálesta eða stærri, og hlutfalislega af síldveiðiskipum og togurum, en allt að 1/4 hlutar af smærri vélbátum en 8 smálesta og róðrarbátum. Og þetta er svona víða í hafnarlögum.

Nú má náttúrlega segja, að útlit sé fyrir, að um óvenju miklar tekjur verði þarna að ræða vegna verksmiðjuaukningarinnar á Raufarhöfn, en maður veit aldrei um það, hvað í framtiðinni kann að verða gert á hinum einstöku stöðum, og ekki er ástæða til að ætla, að þegar svona ákvæði eru komin inn í hafnarlögin, muni hægt að fá þau þaðan afnumin. Mér finnst þess vegna eðlilegast að hafa þetta sem mest í samræmi við það, sem annarsstaðar gerist.

Viðvíkjandi fyrra atriðinu læt ég mér nægja röksemdafærslu hv. 2. þm. Reykv.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, að ég er þess næstum fullviss, að hv. Ed. mun breyta þessu aftur, eftir því sem ég hefi fengið upplýsingar um, og þá er það bara til þess að setja frv. í hættu að samþ. þessar brtt.