29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

40. mál, hafnargerð á Raufarhöfn

Sigurður Kristjánsson:

Ég er meðflm. að þessari brtt. á þskj. 331, og skal þess vegna, auk þess sem hv. þm. Ísaf. hefir sagt, taka fram eftirfarandi.

Það er, eins og hann benti á, að mjög miklu leyti ríkið, sem leggur hreppnum til þau miklu mannvirki og þá miklu bjargræðismöguleika, sem bundnir eru við þessa hafnargerð, í fyrsta lagi með því að leggja fram fé, að upphæð 180 þús. kr., og síðan ábyrjast 180 þús. kr. að auki, fyrir utan það að byggja verksmiðju fyrir 1 millj. kr., sem að sjálfsögðu skapar þarna margháttuð bjargræðisskilyrði. — Og svo eru höfninni ætlaðir margir tekjustofnar, svo sem gjald af bryggjum og öðrum mannvirkjum, af skipum og bátum, lestagjald, vitagjald, vörugjald, bryggjugjald og festargjald. Og þessi gjöld er hafnarnefnd sett nokkuð í sjálfsvald að ákveða; að sönnu þarf ríkisstj.samþ. þau, en það er ekki líklegt, að hún setji sig á móti því, að þau verði ákveðin svo hátt, að höfnin geti staðið straum af sínum útgjöldum.

Nú er það svo, að það er einmitt bygging verksmiðjunnar þarna, sem leiðir straum skipanna að höfninni, og það er þess vegna dálítið athugavert við að leggja sérstakan aukaskatt á alla þá, sem eiga hlut í afla, er þarna yrði í land lagður, fyrir svo að segja eingöngu atbeina ríkisins. Og að ákveða þetta áður en nokkuð er séð um það, hvað hinir tekjustofnarnir hrökkva langt, get ég ekki fallizt á, enda hefi ég yfirleitt verið því mótfallinn, að í hafnarlögum væri þannig heimild til þess að skattleggja afla af skipum.

Um verðhækkunina á jarðeignum, sem þarna liggja að höfninni, má enn til skýringar geta þess, að í frv. sjálfu er höfninni fyrst og fremst heimilað að sneiða af þessum lendum, alveg eftir því sem henni er talið nauðsynlegt fyrir endurgjald, sem á að metast, og er ekki líklegt, að það verði metið fyrst og fremst með tilliti til verðhækkunar, heldur þess, hvers virði landið sé þeim, sem lætur það af hendi. — Einnig má gera ráð fyrir því, að ef umráðamenn eða eigendur slíkra lenda yrðu einhverrar leiguhækkunar aðnjótandi, þá mundi það verða notað af hendi sveitarstj. til þess að skattleggja þá. Ég held, að það þurfi sízt að efast um það, að sveitarstjórn hreppsins muni sækja bróðurpartinn af þeim skildingum niður í vasa þessara manna í hækkuðu útsvari.

Ég hefi sem sagt ekki viljað hafa þetta ákvæði í frv., vegna þess að enn hefir engin sönnun komið fyrir því, að nauðsynlegt sé að leggja óvenjulegar kvaðir á menn vegna þessarar hafnar.