28.04.1938
Efri deild: 56. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

86. mál, mór og móvörur

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Þetta mái, sem er flutt af landbn. Nd. og var samþ. af þeirri d. og sent hingað, hefir verið til athugunar hjá landbn. Ed., og n. hefir reynt að gera sér málið dálítið ljóst. Hún hefir átt tal við þann mann, sem leyfið gengur út á, Sigurjón Pétursson á Álafossi, og n. leggur til, að honum sé veitt þetta einkaleyfi. Hér eru mörg atriði, sem eru meira eða minna óljós, og það er með hálfum huga, að ég legg til að samþykkja frv. Ég geri það eingöngu af því, að hér er aðeins um heimild að ræða. Mér er ekki vel kunnugt um, og ég hugsa, að enginn viti það vel, hve miklar birgðir af mó eru til hér á landi. Mólöndin eru víðast hvar ekki nema ósamstæðir smáblettir. Það er aðeins á tiltölulega fáum stöðum, sem svo stór mólönd liggja saman, að hugsazt geti að byggja á því iðnrekstur í stærri stíl. Langstærsta mólandið hér á Íslandi mun vera nálægt Búðum, eða í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Það land mun vera eign ríkisins. En eins og það er óljóst, hvað mólöndin eru stór, er líka óvíst, hve miklar birgðir af mó séu þar til. Mórinn hefir verið og er notaður til eldsneytis þar, sem hann er til. Þá kemur til athugunar, hvort ekki megi vinna úr mónum fleira og flytja hann til, svo að nota megi hann til eldsneytis á öðrum stöðum en þar, sem hann er grafinn úr jörðu. Þetta er gert víða erlendis, en hefir ekki verið gert ennþá hér á landi, nema það var einhverntíma reynt á heimsstyrjaldarárunum uppi á Kjalarnesi um stutta stund, en það gekk ekki vel, enda er ekki mikið móland þar. Ég lít þannig á þetta mál, að áður en stj. veitir þetta einkaleyfi, sé mjög mikil þörf á, að rannsakað sé frekar en nú er, hve miklar móbirgðir séu hér til, og hvort hægt sé að vinna þær hér á landi til að framleiða eldivið, sem þoli samkeppni við kol. Ef það reynist kleift, og mólöndin eru takmörkuð, mæli ég ekki með því, að leyfið verði veitt. Ég ætla, að þau séu hvergi svo stór, að byggja megi atvinnuveg á þeim, nema á Snæfellsnesi. En ef mikil mólönd eru til á mörgum stöðum hér á landi, svo að þau geti enzt um langa framtíð, og ekki er gerlegt að vinna úr mónum eldivið, sem flytja mætti til hér innanlands og væri samkeppnisfær við kol, væri sjálfsagt að nota þá heimild, sem hér er lagt til að veita. Að öðru leyti er ég ákaflega vantrúaður á, að þessi iðnaður, sem hér er talað um, muni þola þá erlendu samkeppni. sem búast má við. Ég hygg, að það séu flest af nágrannalöndum okkar, a. m. k. þau, þar sem ég þekki bezt til, sem eiga miklu meiri og betri mólönd en við Íslendingar. Auk þess hafa þau miklu betri skilyrði til þess að reka þá atvinnugrein en við. Ég hygg því, að vel þurfi að athuga fjárhagslegu hliðina, áður einkaleyfið sé veitt. Ég tel rétt, að leyfið verði ekki veitt fyrr en sá, sem á að fá leyfið, hefir sýnt það, sem krafizt er í 1. gr. þessa frv., nfl. færa sönnur á eða benda á sterkar líkur fyrir því, að unnt sé að byggja þennan iðnað upp á fjárhagslega traustum grundvelli. og að markaður sé til fyrir það, sem framleitt er. Þeir, sem um leyfið sækja, verða að leggja fram slík gögn, og stjórnarráðið á síðan að meta þau eins og þau liggja fyrir. Með þeirri aths., sem ég hefi gert við þetta frv., fylgi ég því ásamt meðnm. mínum og mæli með því, að það verði gert að l., en það er, eins og þið hafið heyrt, með hangandi hendi. sem ég geri það.