04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

46. mál, samvinnufélög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Hv. síðasti ræðumaður gat þess, að einn nefndarmaður hefði skrifað undir nál. um þetta mál með fyrirvara. Það er rétt, að ég gerði það. Minn fyrirvari liggur í því, að ég tel, að hér sé nokkuð sterkt að orði kveðið í þeirri breyt., sem þessar tvær gr. frv. fela í sér frá núverandi 1. um samvinnufélög. Þó að hér sé að vísu ætlazt til að um heimild sé að ræða, þá hygg ég þó, að það mætti takmarka þetta að einhverju leyti við eitthvert visst magn viðskiptanna, en eigi ekki eingöngu að setja þetta óskorað undir vald stjórnarfundar SÍS eða stjórnarfundi félagsdeilda.

Mér skilst, að þessi breyt., sem í frv. felst, sé eingöngu á þá leið, að fara megi eftir viðskiptaveltu um fulltrúafjölda. Þetta ákvæði hefir ekki verið til í l. um samvinnufélög frá 1921. Og á Alþ. 1937, þegar gerðar voru miklar efnisbreyt. á samvinnul., var alis ekki komið inn á þetta svið. Svo að það virðist sem eitthvert nýtt tilefni hafi gefizt til þess, einmitt nú, ári síðar en þessi breyt. var gerð á l., að fara nú að breyta einhverju í þessu efni. En það hefir alls ekki verið upplýst við umr. um málið, hvert þetta tilefni er.

Ég þarf ekki að ræða um 2. brtt., því að hún er aðeins afleiðing af hinni fyrri. Minn fyrirvari er um þessi hvorttveggja atriði, sem eru svo mjög nátengd. Ég hefi enn ekki komið með brtt. um orðalag á þessu frv. og mun, eins og nú standa sakir, greiða atkv. með því, að frv. fari til 3. umr., en láta koma fram brtt. áður en málið fer úr þessari hv. d.

Ég tel, að það eigi að fara varlega í það að útiloka að meira eða minna leyti þau félög, sem hafa viðskipti við SÍS, frá því að hafa áhrif á stjórn málefna þess. Því að hugsanlegt er, að það séu til félög, sem hafa kannske upp að 50% viðskipta sinna við SÍS og hafa kannske af réttmætum ástæðum ekki getað komið við að hafa meiri viðskipti við það. Þá tel ég ekki rétt, að slík félög séu útilokuð frá því að eiga fulltrúa á aðalfundi SÍS í réttu hlutfalli við sína félagsmannatölu.

Læt ég svo útrætt um þetta og geri ráð fyrir að láta brtt. koma fram við 3. umr. málsins.