04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

46. mál, samvinnufélög

Einar Árnason:

Ég vil þakka hv. n. fyrir afgreiðslu þessa máls. Og ég vænti þess eftir þeim undirtektum. sem málið hefir fengið í n., að það fái að ganga fram.

Út af því, sem tveir hv. þm. hafa nú gert hér aths. við þetta mál, þarf ég ekki mikið að segja. Þegar samvinnul. voru sett árið 1921, þá voru þau sett samkvæmt beiðni samvinnumanna í landinn, og Alþ. tók alveg fullt tillit til þess, hvernig samvinnumenn landsins vildu yfir höfuð hafa skipulag samvinnufélaganna hjá sér. Þetta var í raun og veru ákaflega eðlileg afstaða, þar sem Alþ. hafði ekki neina ástæðu til þess að lita á aðra hlið þessa máls heldur en þá, að í þessum samvinnul. væru ekki nein þau ákvæði. sem væru þjóðarheildinni til skaða.

Nú kemur fram ósk frá samvinnumönnum í landinn, frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem fer eiginlega að miklu leyti með umboð samvinnumanna í landinu, um að breyta þannig til, sem ákveðið er í þessu frv. um kosningar á fulltrúum á aðalfundi SÍS, að það sé rýmkað um það ákvæði, sem hefir verið í l. samvinnufélaga og hefir miðazt við, að kosnir væru fulltrúarnir á aðalfundi SÍS eingöngu eftir tölu félagsmanna. Nú er farið fram á að rýmka þannig um þetta ákvæði, að það sé líka leyfilegt að taka tillit til viðskipta eða umsetningar félagsdeildanna, sem eru í SÍS.

Nú er ekki hægt að hugsa sér að löggjafarvaldið, þ. e. Alþ., sjái neina ástæðu til þess að vera á móti þessu máli af því, að þetta sé þjóðarheildinni til skaða. Þetta er í raun og veru fyrirkomulagsatriði, sem eingöngu á að heyra og hlýtur að heyra undir samvinnumenn sjálfa, hvernig þeir haga skipulagningu innan sinna eigin félaga.

Hv. 3. landsk. var að tala um, að þetta ákvæði, sem í frv. felst, útilokaði félög frá því að senda fulltrúa á aðalfundi SÍS. Þetta er hinn mesti misskilningur. Eins og þetta er framkvæmt í öðrum löndum, þar sem löggjöfin heimilar þetta, sem hér er farið fram á, þá hefir verið tekið tillit til hvorutveggja í þessu sambandi, tölu félagsmanna og líka umsetningar félagsins. Og þetta ákvæði, sem í frv. felst, getur aldrei undir nokkrum kringumstæðum útilokað nokkurt félag frá því að senda fulltrúa á sambandsfund, því að í fyrsta lagi er fyrsti fulltrúinn fyrir hvert félag ákveðinn án tillits til þess, hvort félagið hefir haft litla eða mikla umsetningu, og svo er hægt að haga því eftir því, sem samvinnumenn vilja, sem þar á eftir kemur, hvort um sendingu fleiri fulltrúa á aðalfund sé að ræða frá félögum í ýmsum tilfellum og hvort um það skuli jafnframt tekið tillit til umsetningar félaganna eða ekki.

Hv. 1. landsk. var að tala um að ná samkomulagi um þetta mál. Ég vil aðeins benda honum á það, að vettvangurinn til að ná samkomulagi um málið er á fundi SÍS. Þar eru saman komnir fulltrúar frá öðrum samvinnufélögum, og þeirra er náttúrlega að ákveða það með samkomulagi, fyrst og fremst hvort nokkurt tillit skuli taka til umsetningar eða aðeins skuli farið eftir félagsmannatölu um fulltrúatöluna, og ef ákveðið er af þeim, að taka skuli tillit til umsetningar. þá, að hve miklu leyti. Það liggur þess vegna fyrir næsta sambandsþingi, ef frv. þetta verður að 1., að fulltrúar sambandsdeildanna komi sér saman um eða ákveði, hvað skuli gilda í þessu efni. Það er eins og hv. 1. landsk. þm. veit, að kaupfélag þetta hér í Reykjavík hefir kosið sína fulltrúa á sambandsfund. Þar hafa þeir vitanlega sama rétt sem aðrir fundarmenn til að halda fram sínum málstað, ef þeir vilja eitthvað sérstakt í þessu efni. En ég sé sem sagt ekki nokkra minnstu ástæðu til þess fyrir löggjafarvaldið að það fari að hefta frelsi samvinnumanna um það, hvaða fyrirkomulag þeir hafi innbyrðis í sínum félögum, ef það aðeins ekki fer í bága við heill alþjóðar. Og það er vitanlega ómögulegt að halda því fram, að þessi breyt., sem hér er lagt til með þessu frv., að mögulegt sé fyrir sambandsfund að gera, sé þjóðfélaginn skaðsamleg. Ég hygg, að enginn geti haldið því fram.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri og vænti þess, að þetta frv. fái að ganga áfram og ná samþykki Alþ. í þeirri mynd, sem það nú er í.