04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

46. mál, samvinnufélög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Aðeins örfá orð út af ræðu hv. flm. frv. Hann vitnar réttilega í það, þegar þessi l. voru sett 1921, að þar hafi óskir samvinnumanna í landinu fengið að ráða miklu um það, hvernig sú löggjöf leit út, sem þá var samþ. hér á Alþ. um samvinnufélög. Ég fylgdist kannske ekki mjög mikið með því, en þó nægilega mikið til þess, að mér var vel kunnugt um það, að þá stóð mjög mikill styr um það hér á Alþ., hvort óskir samvinnumanna ættu að ná fram að ganga. (EÁrna: Ekki um þetta efni). Nei, ekki um þetta efni, heldur um l. í heild. Alþfl. átti þá einn fulltrúa á Alþ. En sá styr, sem um þetta stóð þá, kom frá þeim mönnum, sem höfðu aðrar skoðanir og aðra stefnu í verzlunarmálum en samvinnumenn, þ. e. a. s. mönnum hinnar svo kölluðu frjálsu verzlunar og frjálsu samkeppni. Þeir menn börðust á móti gildistöku samvinnul. í heild.

Ég vil nú ekkert hafa á móti því, að samvinnumenn sjálfir fái að marka sina löggjöf. En hinsvegar er ekkert að undra, þótt eitthvað kunni frá þeim að koma, sem geti orkað tvímælis, hvort eigi að fara í gegnum þingið eins og þeir leggja til að það fari. Ég býst ekki við, að svo mikill reginskoðanamunur sé á milli mín og þeirra, sem að þessu frv. standa, um ákvæði þess eða orðalag, eða milli mín og samvinnumanna yfirleitt um þessi mál, heldur er það, sem ég held fram, að þetta ákvæði geti orkað ágreiningi, hvort það eigi eingöngu að vera á valdi sambandsfundar, hvernig ganga skuli frá samþykktum í þessu efni. Ég lít svo á — má vera. að það sé ekki rétt ályktað hjá mér —, að það sé jafnvel heimilt með ákvæðum 1. og 2. gr. frv. að útiloka félag eða félög frá því að eiga fulltrúa á aðalfundum SÍS, félög sem engin viðskipti hafa við SÍS (EÁrna: Nei, það er misskilningur. Ef það er í Sambandinn á annað borð, má það alltaf senda einn fulltrúa á aðalfund SÍS). Við skulum nú segja, að dauðir meðlimir eigi ekki að hafa mikil áhrif á málefni SÍS, en hinsvegar meðlimir, sem uppfylla sínar þegnlegu skyldur við SÍS og t. d. hafa 50% af sínum viðskiptum við SÍS, þá er, eins og frv. er orðað, möguleiki fyrir samvinnumenn, eins og hv. flm. kallar það, að setja því félagi svo þröngar skorður um að senda fulltrúa á aðalfund SÍS, að það yrði ekki að áhrifum til þar hlutfallslega nema á við örlítinn hluta af því félagi, sem fengi að representerast á þeim fundi sem rétthærra félag. Og ég fyrir mitt leyti vil, að girt sé fyrir, að slík ákvæði komist inn í 1., sem gera það að verkum, að réttur þeirra manna. sem fullnægja skyldum sínum að nokkru leyti við SÍS eftir samvinnul., sé fyrir borð borinn, sá réttur sem þeir ættu að hafa. Ég er ekki nógu kunnugur málefnum SÍS til að vita eins vel og hv. flm., hvort svo mikil brögð hafa orðið að því í seinni tíð. frá því er endurskoðun samvinnul. fór fram, að svo eða svo mörg félög hafi orðið dauðir meðlimir í SÍS. Má vera, að slík félög hafi verið til og séu til, og að það hafi yfirsézt við endurskoðun l. að taka það til greina. Ég skal ekki út í það fara, því að um það get ég ekki dæmt. En hitt getur verið, að með vaxandi þáttöku í kaupfélagsskap í kaupstöðum landsins telji hinir eldri meðlimir SÍS, að hin nýja viðkoma félagsmanna í kaupfélagsskap kaupstaðanna sé svo ör, að miður hollt sé að fá of mikið af slíkum kaupfélögum til þess að senda sína fulltrúa á aðalfund SÍS til þess að hafa áhrif þar á málefni SÍS. Ég get ekki séð, að önnur hugsun en þessi geti legið til grundvaliar fyrir þeirri breyt., sem í frv. felst. En ég efast hinsvegar um, að það sé hollt að láta slíka hugsun hafa afgerandi áhrif á stjórnarfar innbyrðis í SÍS og kaupfélagaverzlunar í landinu.