04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (989)

46. mál, samvinnufélög

Einar Árnason:

Hv. 3. landsk. sagði, að það hefði staðið mikill styr um samvinnulöggjöfina 1921. Það. sem menn greindi þá um, var aðeins það atriði. sem gripur í raun og veru inn í þjóðarheildina um skattgreiðslu samvinnufélaganna og það var eðlilegt, en um annað innra fyrirkomulag í samvinnufélögunum var enginn ágreiningur.

Mér finnst gæta dálítils misskilnings, þegar verið er að tala um takmörkun á tölu fulltrúanna. Menn mega ekki gleyma því, að eftir samvinnul., eins og þau eru, og er þar miðað eingöngu við tölu félagsmanna. er hægt að takmarka tölu fulltrúanna. L. banna það ekki. Undir eins þegar búið er að ákveða, að einn maður skuli mæta frá hverju félagi, þá má ákveða, að svo og svo margir menn standi bak við næsta fulltrúa, og enn fleiri bak við þriðja fulltrúann. Það er t. d. hægt að takmarka eins og verkast vill fulltrúatölu kaupfélagsins Kron hér í Reykjavík. Ef Kron gengur inn í sambandið nú, þá verður fulltrúatalan vitanlega takmörkuð, eins og Kaupfélag Eyfirðinga, sem fram að þessu hefir verið fjölmennasta kaupfélag í sambandinn, hefir nú takmarkaða fulltrúatölu, þannig að það er ekki einu sinni hægt að fullnægja því, sem hv. 1. þm. N.-M. heldur fram um, að mannvitið eigi að ráða, ef hann telur, að mannvitið sé þess meira, því fleiri sem mennirnir eru. Ég ætla ekki að deila við hv. 1. þm. N.-M. um mannvit og krónutal. Ég geri ráð fyrir, að það fari stundum saman og stundum ekki. Ég held, að það sé alls ekki neinn öruggur mælikvarði á mannvit, hvort bak við það standa fleiri eða færri krónur, og það er ekki hægt að slá neinn föstu um það, að sá, sem enga krónu á, hafi mest mannvit, og heldur ekki hinu, að sá sem á margar, hafi minnst af því. Ég vil benda á það, sem mér finnst sumir hv. þdm. ekki hafa gert sér ljóst, að eins og löggjöfinni er nú fyrir komið, er hægt að takmarka tölu fulltrúanna, en það er ekki takmarkað við krónutöluna sérstaklega. Hv. 11. landsk. sagði það réttilega, að ekki hafi verið leitað álits félaga, sem eru í SÍS, um þetta frv., heldur er það stjórn SÍS, sem stendur ein á bak við frv. Ef það skyldi koma í ljós á næsta sambandsþingi, að fulltrúar deildanna ekki kærðu sig um þetta, þó að þetta frv. yrði að l., þá nota þeir ekki þessa heimild, sem í frumvarpinu felst. Þess vegna er engin hætta á ferðum, þó að rýmkað sé svo um í þessu efni, eins og gert er ráð fyrir í frv., og það er alls ekki séð, að sambandsfundur kæri sig um að beita þessari heimild, sem hér er farið fram á.

Það er verið að tala um brtt. við þetta frv. Ég sé satt að segja ekki, hvernig á að gera brtt. við það, nema með því móti að fara að taka fram nákvæmlega, hvað miklir peningar eða viðskipti eigi að standa bak við í hvert einasta skipti og undir hvaða kringumstæðum sem er, en ég held, að það væri mjög óheppilegt, ef löggjafinn færi að fara inn á slíka smámuni, og vitanlega er það ekkert annað en að vinna á móti því, að samvinnufélögin hafi það frelsi í sínum eigin málum, sem þau eiga að hafa að minn áliti, því að það, að vera á móti frv., er ekkert annað en að vera á móti því, að félögin fái að haga þessu eins og þeim þykir bezt henta. Að tala um, að með þessu frv. sé verið að gera einhverjar mjög varhuga verðar takmarkanir á fulltrúatölu og fulltrúavali félaganna, er hreinasti misskilningur, vegna þess, eins og ég er búinn að segja, að það er hægt að takmarka fulltrúatöluna eins og samvinnul. eru nú. Sambandsfundur getur þannig ákveðið, að fulltrúatalan frá Kron sé t. d. 2 eða 3 menn. Ef þessir menn vilja koma í veg fyrir að slíkt geti átt sér stað, þá verða þeir að breyta samvinnulögnnum auðvitað í allt aðra átt en hér er farið fram á. Mér virðist, að ýmsa þá menn, sem hafa rætt um þetta mál, skorti töluvert mikinn kunnugleika á þessu máli yfir höfuð, og finnst mér það ekki undarlegt, því að ég hygg, að þeir hafi ekki starfað verulega mikið í þessum málum fyrr en rétt upp á síðkastið. Það getur vel verið, og ég efast ekki um, að þessir menn geti komið með margar nýjar, góðar hugmyndir í samvinnumálum, en það hefir ekki enn komið hér fram í þessum umræðum neitt það, sem ég get fallizt á, að sé til bóta, frá því sem er.

Hv. 3. landsk. taldi það vafasamt, að löggjafarvaldið ætti yfir höfuð að ganga þannig frá löggjöf um þessi mál, að hlutaðeigandi fundir félaga gætu fengið að ráða þessu. Þarna skilur okkur mjög mikið á. Mér virðist, að hv. 3. landsk. og hv. 1. landsk. vilji með löggjöf þrengja sem mest að athafnafrelsi samvinnufélaganna með því að vera á móti þessu frv., en ég verð að segja, að ég hefi litið svo á, að þeir sjálfir telji, að þeir væru fylgjandi heldur frjálslyndri pólitík.