06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

46. mál, samvinnufélög

*Frsm. (Páll Hermannsson):

Það urðu nokkrar umr. um þetta mál hér í þessari d. og dálitill meiningamunur um það, hvort rétt væri að samþ. þetta frv. eða ekki. Ég ætla nú ekki sérstaklega að fara að blanda mér út í þær umr., en vil aðeins lýsa því yfir, að mér finnst þetta mál þannig vatið, að Alþ. eigi að gefa samvinnufélögunum heimild til þess að nota þær aðferðir, sem frv. gerir ráð fyrir, ef þau sjálf sjá sér það henta, vitanlega í fullu trausti þess, að félögin hafi þann þroska, sem ég þykist vita, að þau hafi, til þess að engin hætta sé á, að þau misnoti þetta.

Nú hefir komið fram brtt. við frv. á þskj. 184 frá hv. samþm. mínum. Hann hefir nú ekki talað fyrir henni við þessa umr., en hann lýsti henni við 2. umr. og þykir því sjálfsagt ekki þörf að mæla fyrir henni nú. — Allshn. hefir ekkert fyrir n. hönd að segja um hana. Sjálfur get ég sagt það, að mér finnst þessi till. eiginlega stinga nokkuð í stúf við samvinnulögin að öðru leyti. Þau eru sem sé fremur stuttorð og marka stefnuna aðeins í aðalatriðunum, en ætla svo samvinnufélögunum sjálfum að útfæra hana nánar í sínum samþykktum. Mér finnst þessi brtt. eiginlega þannig vaxin, að hún væri prýðilega til þess fallin að leggjast fram á sambandsfundi og ákvarðast þar, en mér finnst hún eigi ekki að samþykkjast hér á Alþ. Ég er ekki að hafa á móti því, að leiðin, sem stungið er upp á í till., geti verið rétt, en ég álít bara, að þetta sé leið, sem sambandsmeðlimirnir eigi sjálfir að marka, en ekki Alþ. Og ég efast líka dálítið um það, að þessar aðferðir, sem brtt. gerir ráð fyrir, séu það þrauthugsaðar, að rétt sé að gera þessa till. að lögum. Ég verð þess vegna að leggjast á móti því, að d. samþ. þessa brtt.