06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

46. mál, samvinnufélög

*Jónas Jónsson:

Ég vildi aðeins segja fáein orð út af ræðu hv. 1. landsk. og út af brtt. hv. 1. þm. N.-M.

Það, sem hér er mergurinn málsins, er, að SÍS hefir, eins og menn vita, vaxið upp af verzlun sveitamanna, og svo smátt og smátt, án stórra breytinga, hefir það farið að hafa áhrif í bæjunum, en þó þannig, að bæjamenn hafa tekið til þakka þá þróun, sem sveitamenn hafa staðið að í eina tvo mannsaldra. Hér í bænum hefir neytendafélagsskapur yfirleitt átt mjög erfitt uppdráttar og verið gerðar nokkrar tilraunir, sem hafa misheppnazt. En það má segja, að fyrst nú í yfirstandandi kreppu hafi bæjarbúar sýnt meiri hneigð til þess að nota samvinnufélagsskapinn sem ráð gegn hinni miklu dýrtið. Og hér hefir vaxið upp á skömmum tíma félagsskapur, sem hefir náð nokkurri útbreiðslu, sérstaklega í sumum kauptúnum hér við Faxaflóa. Það er náttúrlega ómögulegt að segja um það fyrirfram, hvernig þessi tilraun muni ganga. Hún hefir að sumu leyti gengið vel, og það lítur út fyrir, að sá maður, sem stýrir henni, hafi marga eiginleika til þess að láta þetta fyrirtæki heppnast. Hinsvegar er reynslan ákaflega stutt. Og það hefir komið ný meinsemd í þennan félagsskap, sem forstjórinn ræður ekki fyllilega við, sem ekki er eðlilegt, þar sem hér er um að ræða bæ, sem ekkert uppeldi hefir til þess að taka á slíkum málum, og því fremur sem það er vitað, að eln lífsstefna, sem yfirleitt litur á samvinnu eins og algert aukaatriði, kommúnisminn, hefir nokkur ráð í þessu félagi. Og fyrr meir er talið, að þessi forstjóri hafi verið einn af ógætnustu forstöðumönnum þessarar pólitísku hreyfingar, þó að hann aftur á móti hafi sýnt sig tiltölulega gætinn og framsýnan í þessum efnum. En það virðist hanga við hann töluvert af fólki frá hans fyrri dögum, sem hefir komið fram á þann hátt, að mjög er vafasamt, hvernig þessu félagi muni reiða af, og það er a. m. k. ljóst öllum, sem starfa að samvinnufélagsskap, að þetta félag á ekki skilið að fá annan stuðning en þann, sem hæfir þess reynsluleysi. Félagið hér í Reykjavík, sem ég býst við, að standi á bak við þessa skriflegu brtt. og eins till. á þskj. 184, er alls ekki þess um komið á nokkurn hátt, að Alþ., og enn síður SÍS, láti þetta hafa hin minnstu áhrif á sig. Til þess er munurinn á þroskanum of mikill. Annarsvegar er öll reynslan og þroskinn. en hinsvegar eru fálmandi aðgerðir viðvaninganna, sem að sumu leyti standa undir áhrifum óþokkamanna, sem ala á sundrung, þar sem því verður við komið, og reyna að spilla fyrir atvinnulífinu í öllum þessum myndum.

Og það væri nægileg ástæða til þess að fella þessa brtt. frá hv. 1. þm. N.-M., þó að ekki væri öðru til að dreifa en að hún er fram komin frá honum, sem að vísu er merkilegur fagmaður í því, sem við kemur landbúnaðinum, en hefir aldrei staðið framarlega í samvinnufélagsskap landsins. Hann hefði því átt að vera svo gætinn, að hugsa sér ekki þá dul, að hann færi að verða leiðbeinandi SÍS og formanns þess um það, hvernig eigi að hátta samvinnulögum landsins. Ég vil því telja það fullkomlega vítavert af þessum hv. flokksbróður mínum að koma fram með þessa óhugsuðu till., sem ekki er hægt að skoða öðruvísi en sem móðgun við þá einu stofnun hér á landi, sem hefir langa reynslu í þessum efnum og er hafin yfir það að þurfa að sækja ráð til viðvaninga.

Ég vil þess vegna taka það fram, — sem einn af þeim, sem ekki með lítilli vinnu undirbjó samvinnulögin 1921 og hefi fylgzt með þeim síðan —, að ég kann því ákaflega illa, ekki að kommúnistar skuli koma fram með skriflega brtt., af því að enginn ætlast til neins af þeim, heldur að hv. 1. þm. N.-M. skuli koma fram með þessa brtt., sem hann hefði alis ekki átt að leyfa sér að bera fram á þann hátt, sem hann gerir, því að hún verður ekki skoðuð öðru vísi en sem móðgun við SÍS og þann flokk, sem hefir veitt honum styrk til þess að vera hér á Alþ.