06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

46. mál, samvinnufélög

*Brynjólfur Bjarnason:

Það eru aðeins nokkur orð. Það er nú orðið ljóst, sem ekki var ljóst í upphafi, nefnilega hver tilgangurinn er með þessari lagabreyt., sem hér liggur fyrir. Við höfum verið að ræða um, hver hann mundi vera, og höfum verið í vafa um, hvort hann væri sá, að miða fulltrúaréttinn við viðskiptamagn, eða sá, að koma í veg fyrir, að málamyndafélög í SÍS hefðu fullan rétt.

Hv. þm. S.-Þ. hefir skýrt og skorinort sagt það, að tilgangurinn sé sá, að koma í veg fyrir að eitt ákveðið samvinnufélag fái of mikil áhrif, nefnilega Kron. Ég ætla ekki að svara þeim orðum, sem hv. þm. hafði um það félag, þau voru svo órökstudd og í alla staði órétt, að þess gerist ekki þörf. Hv. þm. fór með gersamlega staðlausa stafi.

Það er líka annað, sem fram hefir komið í þessum umr. og sannar, hver tilgangur frv. er. Hv. 2. þm. Eyf. upplýsti, að hann hefði átt tal um frv. og brtt. við Sigurð Kristinsson, og hefði hann sagt, að svo framarlega sem brtt. væru samþ., mætti eins fella frv. alveg eða láta það daga uppi. M. ö. o., þá væri það Sambandinu gagnslaust. Það þarf ekki frekar vitnanna við um tilgang frv., og út frá þessu finnst mér, að hv. þdm. ættu að greiða atkv.