08.12.1939
Sameinað þing: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

1. mál, fjárlög 1940

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég ætla ekki fremur en aðrir að fara að ræða um það við þessa umr., sem þó verður rætt um áður en fjárlög verða endanlega afgr., nefnilega horfur í atvinnu- og fjármálum þjóðarinnar. Það er öllum vitanlegt, að ríkisstj. hafði reynt að gera sér nokkra grein fyrir því, hver hennar skylda væri í fjármálunum vegna hins óvenjulega ástands. Og ég vil lýsa yfir því, að það hefir verið fyrir ríkisstj. ákaflega mikið vandamál, að reyna, undir forystu hæstv. fjmrh., að benda á skynsamlegar leiðir til þess að afgreiðsla fjárlaga gæti farið fram með þeim hætti, að viðunandi mætti teljast. Og út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, þá vil ég aðeins segja það, að ég tel það ómaklegt, ef hann hefur ádeilu á fjvn. fyrir hennar aðgerðir í málinu. Hann og ég erum meðal þeirra, sem eiga að vinna að þessum málum, — og höfum gert það eins og við höfum getað. (MG: Alveg rétt). Þær till., sem ég hefi rætt við fjvn. um sparnaðarviðleitni í því ráðuneyti, sem ég veiti forstöðu, hafa fengið lofsverðar undirtektir. Og ég segi það hiklaust, að afskipti hennar á þeim sviðum, sem ég er kunnugastur, verðskulda ekki ámæli. Fjvn. er lofsverð fyrir það, hvernig hún hefir tekið till. ríkisstj. og reynt að aðstoða hana á allan hátt. Mér þótti rétt að segja þetta út af ummælum hv. síðasta ræðumanns. Að öðru leyti vil ég gera grein fyrir. hvers vegna ég hefi gengið inn á margvíslegan niðurskurð, sem ég annars er á móti. En ég hefi fundið það skyldu mína að reyna fyrir mitt leyti að aðstoða hæstv. fjmrh. í því alveg óvenjulega vandasama verki, sem þarf að vinna undir hans forystu og á hans ábyrgð, að svo miklu leyti sem hún leggst á einn mann, en vitaskuld stendur ríkisstj. öll meðábyrg honum, eins og líka Alþ. gerir.

Ég skal svo ekki gera einstakar till., heldur höfuðstefnuna að öðru leyti að umræðuefni. En vil aðeins út af till. 6 hv. þm. í sambandi við 18. gr. fjárl. segja það, að ég er henni mjög mótfallinn. Ég skil þó vel þeirra framkomu í þessu máli, og get mjög vel sett mig inn í þann hugsanagang, að einstaka þm. vilji ekki afsala sér því áhrifavaldi á úthlutun bókmenntastyrkja, sem þeir nú hafa. Ég hinsvegar fyrir mitt leyti er reiðubúinn að afsala mér þessu valdi, ef ég þar með losna við vandann, sem því fylgir, en það tel ég að ég geri, ef sú till., sem hæstv. fyrrv. fjmrh. hafði borið fram, verður samþ. Ég hefi ekki setið á Alþ. til jafns við þá, sem þar hafa átt lengsta setu, en ég hefi setið sextán þing. Ég tel, að eitt af því, sem hafi óprýtt öll fjárlög og hafi öðru fremur truflað vinnubrögð þingmanna, séu persónustyrkirnir, — þessi fyrirsát, sem sífellt er, þegar maður kemur hér inn í anddyri alþingishússins, af mönnum, sem ýmist eru að biðja um styrki fyrir sjálfa sig eða aðra. Ég er þakklátur hverjum þeim, sem vill losa mig við þetta, ef ég tel, að þetta vald sé eins vel komið í þeirra höndum, — og ég veit, að þetta vald er eins vel komið hjá menntamálaráði og Alþ. Það er langtum betur komið hjá menntamálaráði. Það verður meira öryggi fyrir því, að hinir hæfustu verði ekki útundan, — þegar af þeirri ástæðu, að þarna er fámennari hópur, sem á að svara til saka um það, hversu réttlátlega er farið með þetta fé. Ég skal svo aðeins bæta því við, að fyrir utan öll þau óþægindi, sem alþm. hafa af þessum styrkbeiðnum, þá ræður oft hending ein, hverjir sitja sólarmegin og hverjir í skugganum, þegar þessu fé er úthlutað milli fátækra og þurfandi listamanna og manna, sem halda, að þeir séu listamenn. Ég er ekki meira karlmenni en það, að mig hefir oft tekið sárt að þurfa að greiða atkv. á móti þessum mönnum, sem ég veit að hafa soltið. Ég hefi talið, að ég bryti skyldu mína sem þm. með því að greiða atkv. með þessum styrkjum, en oft hefi ég fórnað sannfæringunni eða innrætinu við slíkar atkvgr., og ég hygg, að svo sé um fleiri þm. Það er hrein hending, sem oft og tíðum ræður úrslitum þessara mála, og ég er þess því mjög hvetjandi, að þetta vald verði tekið af Alþ. og fengið menntamálaráði.