08.12.1939
Sameinað þing: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (1014)

1. mál, fjárlög 1940

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Það hefði e. t. v. átt að vera mitt hlutverk að beina umr. inn á þá braut, að þær snerust meira um heildaryfirlit og úrræði til þess að koma jöfnuði á búskap ríkisins, og sjá um, að þær færu ekki í þá átt, sem þær nú hafa beinzt, þ. e. a. s. um eitt tiltölulega veigalítið mál. — En eins og nál. og till. fjvn. í raun og veru bera með sér, þá er á þessu stigi málsins varla tímabært að taka málið frá þeirri hlið. — Eins og hv. frsm. fjvn. vék að, þá hefir fjmrn. látið n. í té bráðabirgðaáætlun um tekjur ríkissjóðs á komandi ári, og eins bendingar um það, á hvaða útgjaldaliðum helzt myndi vera hægt að spara, til þess að mæta þeim halla, sem ráðuneytið taldi óhjákvæmilegt að myndi koma fram. Fjvn. hefir að þessu sinni ekki farið út í það, að áætla tekjurnar eða gagnrýna bráðabirgðaáætlun stj. um þær, og hefir lýst yfir því, að það muni verða geymt til 3. umr. Mér finnst þetta í sjálfu sér mjög skiljanlegt. Þetta er mikið vandamál og ekki að vonum, að það vinnist ákaflega fljótt, og það þarf að styðjast við alla þá reynslu, sem fyrir hendi er, til þess að unnt sé að skapa sér sem áreiðanlegasta skoðun á því, hvernig útkoman muni verða. Hinsvegar hefir n. að miklu leyti tekið til greina bendingar ráðuneytisins, — þótt að vísu muni á einstöku liðum til eða frá, og ekki allar bendingarnar teknar til greina. Að sjálfsögðu er þetta allt til meðferðar, bæði hjá ríkisstj. og n., og það eiga eftir að fara fram samtöl milli þessara aðila um frekari till. Af þeim ástæðum tel ég ekki rétt að vekja hér deilur, sem eru ástæðulausar og alveg áreiðanlega óheppilegar á þessu stigi málsins. Ég get yfirleitt verið hv. fjvn. þakklátur fyrir meðferð hennar á frv. hingað til, og ég vona, að samvinna geti orðið góð um það, sem eftir er, og að niðurstaðan verði sem heppilegust fyrir ríkissjóð á komandi árum.

Að svo komnu ætla ég þá að láta þetta nægja um fjárlfrv. í heild, en af því að umr. hafa, eins og ég drap á, beinzt að einstöku atriði, sem komið hefir fram við þessa umr. út af brtt. nokkurra þm., þá get ég ekki stillt mig um að lýsa afstöðu minni til málsins, þótt ég eigi e. t. v. á hættu að sæta fyrir það ákúrum hjá hv. þm., sem hafa aðra skoðun og sem sérstaklega mun vera ráðandi hjá fjvn. Ég mun greiða atkv. með þessari till., sem fram er komin um að færa 15. og 18. gr. fjárlfrv. til sama horfs og áður var. Og þessi skoðun mín byggist á því, sem hv. form. fjvn. sagði áðan, að lífið verður ekki stöðvað, — það heldur óhjákvæmilega áfram. Mér virðist einmitt með því, að ætla ákveðna fjárhæð í þessu skyni, vera gerð tilraun til þess að „stöðva lífið“, — en það er ekki hægt. Það heldur áfram. Við höfum reynslu í þessu efni. Það átti einu sinni að stöðva útgjöld til stúdentastyrkja, og ég ætla, að það hafi einmitt verið menntamálaráð, sem fékk það hlutverk að úthluta ákveðinni fjárhæð til framhaldsnáms stúdenta. Þessi fjárhæð stendur enn, — en það hafa bætzt fleiri samskonar við. Upphæðin fullnægði ekki framhaldi lífsins. Þótt gerð sé tilraun til að stöðva það, þá tekst það ekki. Það tekst e. t. v. á þessu þingi, en á næstu þingum mun sagan endurtaka sig. Það er eins og hvert annað böl, að þurfa að sitja undir svívirðingarræðum um einstaka styrkumsækjendur. En ef hv. þm. gefa ekki stillt sig um að svala sér persónulega á þessum mönnum, þá verða hinir rólyndari að hlusta á það, bera það eins og annað böl og þreyja undir umr. Allt annað mál er það, hvort menn eru yfirleitt sammála um að veita þeim styrk, sem hans hafa notið undanfarið. Um slíkt geta öllum verið mislagðar hendur, engu síður menntamálaráði en Alþ. Þingið á ekki aðeins, heldur getur ekki afsalað sér þessum rétti. Því helzt það ekki uppi að hlaupast frá því hlutverki að dæma um, hverjir eigi að fá styrk og hverjir ekki. Það skeikar auðvitað að sköpuðu um þetta, í sjálfu sér litla atriði fjárlaganna, en það verður engin eilífðarákvörðun tekin um málið á þessu þingi. Það kemur aftur. Ef ætti að stöðva aðgerðir þingsins í þessum efnum, þá myndi ekki duga til þess breyting á þingsköpum, það yrði að breyta stjórnarskránni og banna þm. að bera fram till. um slíkar styrkbeiðnir. Ég veit ekki, hvort menn vilja ráðast í þetta, en það er eina aðferðin til þess að styrkir til einstakra listamanna komist ekki inn í fjárl. á ný.

Ég skal ekki þreyta hv. þm. með lengri ræðu að sinni, en ég mun við 3. umr. málsins, þegar gleggra má sjá, hverju fram vindur um afgreiðslu fjárl., reyna að leika mitt hlutverk í sambandi við það.