08.12.1939
Sameinað þing: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

1. mál, fjárlög 1940

Páll Zóphóníasson:

Það eru hér tveir liðir, sem mig langar til að fá frekari upplýsingar um en ég fékk hjá hv. frsm. í þessum umr. Það er þá fyrst og fremst 7. liður. Það er gamall kunningi hér á Alþ., sem er um það að fresta að prenta þingtíðindin. Það hefir verið dálítið rætt um það áður, en það hefir ekki hingað til verið samþ.

Ég skal engan dóm leggja á það, hvort það sé rétt að hætta að prenta þau eða ekki, en hitt vildi ég benda á og spyrja um, hvort þessi liður hlíti ekki sömu l. og 25. liður og 26. og 31. liður, en þeir eru allir teknir aftur vegna þess, að það er ekki hægt að hafa þá, nema breyta ákvæðum l. um þau efni. Þennan lið er ekki heldur hægt að samþ. nema með því að breyta l. um þingsköp. Mér skilst, að eigi því eins að taka hann aftur við þessa umr., og vona ég, að það verði gert.

Hitt er 21. liður. Þar er ætlazt til að spara töluvert mikið við strandferðir ríkissjóðs. Mér skilst af grg., sem þessu fylgir, að Eimskipafélagið hafi boðizt til að halda uppi sömu siglingum við landið og verið hefir. Mér skilst, að líkur séu fyrir því, að meðan stríðið stendur muni meginið af vörum til landsins koma hingað til Reykjavíkur, og við það muni hvorttveggja verða, Eimskip sigli ekki strandferðir eins og verið hefir og Ríkisskip fái sérstaklega mikið að gera í strandferðunum. Því dreg ég mjög í efa, að hér verði sparað, og óska frekari greinargerðar fyrir því, hvernig það megi verða.