08.12.1939
Sameinað þing: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

1. mál, fjárlög 1940

*Bjarni Ásgeirsson:

Mér þykir leitt að vera einn þeirra manna, sem hrella hv. fjvn. með því að gera aths. við störf hennar, því ég veit, að hennar verk er erfitt og vandasamt, og við verðum að stilla kröfum okkar í hóf gagnvart henni eins og sakir standa. Þó eru það tveir liðir till., sem ég kemst ekki hjá að ræða lítils háttar.

Það er fyrst till. um að fella niður styrkinn til flutnings á tilbúnum áburði. Ég skal að vísu viðurkenna þau rök, sem komu fram hjá frsm. fjvn., að l., sem heimila þetta, segi svo fyrir, að það ákvæði gildi ekki nema til ársins 1937.

Þetta eru rök, sem ég verð að beygja mig fyrir, að þegar heimildin nái ekki lengur til, falli þessi liður niður. En þetta kemur ákaflega illa niður nú, þar sem auðvitað er, að eitt hið erfiðasta, sem hlýtur að koma fram við landbúnaðinn á næsta ári, er verðið á tilbúnum áburði, sérstaklega þegar þess er gætt, að kartöfluræktin í landinu, sem lögð hefir verið mikil áherzla á, stendur að nokkru leyti eða fellur með tilbúnum áburði, því falli styrkurinn niður, verður áburðurinn mjög dýr eða jafnvel ókaupandi. Ég skal í þessu sambandi geta þess, að í fyrra átti áburðareinkasalan um fimmtíu þús. kr. í varasjóði, sem hún hafði dregið saman undanfarið. En vegna gengisbreytingarinnar á síðastl. vori hallaðist þannig á í verzluninni, að þessi varasjóður var allur upp etinn, og safnaðist fyrir fimmtíu þús. kr. skuld hjá áburðareinkasölunni. Og ef flutningsstyrkurinn fellur svo alveg niður, þá bætist það fyrst og fremst á áburðarkaupin, og svo skuld sú, sem áfallin er. — Þetta er athyglisvert mál, og ég vildi skjóta því til hv. n., þótt ég geti ekki borið fram neina brtt. um þetta atriði.

Þá er hitt atriðið. Í fjárl. eru veittar 20 þús. kr. til loðdýralánadeildarinnar, en n. leggur til, að það verði aðeins 10 þús. kr., með þeim rökstuðningi frsm., að nú væri fallið niður starf deildarinnar. Ég hygg, að það sé ekki rétt, að hún sé fallin niður, en það hafa orðið umr. um að fella hana niður. Formaður landbn. hefir skrifað landbrh. bréf um þetta, sem hann sendi til Búnaðarfélagsins, þar sem hann lagði á móti þessu með töluvert þungum rökum, að þetta yrði fellt niður. Auk þess vildi ég benda á, að það er ákvæði í 18. gr. l. nr. 38 frá 1937, að veittar skuli 10 þús. kr. til loðdýralánadeildarinnar árlega á næstu fimm árum. Þetta er skilyrðislaust í l., og mér skilst, að ekki sé hægt að láta þennan lið niður falla nema sett sé í l. með bráðabirgðaákvæðum, að hann sé felldur niður.

Ég vildi benda frsm. á það, að það mundi vera svipað með þennan lið og aðra liði, sem n. hefir hugsað sér að taka aftur til 3. umr.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni, en ef brtt. kemur um það að breyta þessu ákvæði l., verð ég á móti því, og ég hefi mörg rök að bera fram um það, að ekki sé rétt að fella loðdýralánadeildina niður.