08.12.1939
Sameinað þing: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

1. mál, fjárlög 1940

Frsm. (Bjarni Bjarnason) :

Ég vil fyrst svara hæstv. fjmrh. — Ég hefi ekki látið eitt orð falla um, hvað ég áliti um sparnað gagnvart 15. og 18. gr. En ég hefi lagt allmikið upp úr hinu og tel það aðalatriði málsins, að valin sé n. til að úthluta fé til listamanna, sem hefði vit á að dæma um það. Ég tel engan vafa á, að velja mætti þjóðarinnar hæfustu menn til þess að hafa það á hendi.

Viðvíkjandi því, að menn mundu koma eftir sem áður inn í fjárl., get ég bent á, að að því leyti sem snertir verkstjóra og kennara, þá hefir Alþingi fallizt á að mæla með einstökum mönnum, en þá hafa nöfnin verið send til hlutaðeigandi forstjóra og fjárhæðin aukin um þá upphæð, sem honum hefir verið ætluð. Hitt hefir engum dottið í hug, að slíkar fjárhæðir gætu ekki breytzt ár frá ári, en þá er þeim, sem úthlutunina eiga að annast, tilkynnt, hvaða maður eigi að bætast við og hvað mikið honum sé ætlað.

Hv. 1. þm. N.-M. vil ég svara því, að fjvn. hefir loforð, vitanlega munnlegt, frá forstjóra Eimskipafélags Íslands og einnig frá hæstv. atvmrh. um, að strandferðum skuli hagað, að svo miklu leyti sem frekast er auðið, af hendi Eimskipafélagsins, í samræmi við þörfina. Ennfremur er vitað, að nýja Esja er miklu færari til að annast strandferðir en sú gamla var. Þá má og bæta því við, að gengið er út frá, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, að Súðin taki þátt í strandferðum eftir því, sem hægt er og þörf krefur. Hitt er rétt, að það getur rekizt á, ef taka þarf til strandferða skip, sem á að annast millilandasiglingar. Fyrirkomulagið verður þá þannig, að Esja verður höfð í strandferðunum og svo skip Eimskipafélagsins og Súðin, eftir því sem við verður komið. Ég get svo ekki gert hv. þm. nánari grein fyrir, hvort Eimskipafélagið heldur þetta loforð eða hæstv. atvmrh. stendur við það eftir því sem hann getur. Ég hefi hér engar skjallegar sannanir fyrir því; það þótti ekki sanngjarnt að heimta þær, enda ekki verið gert, en ég tel vist, að þessir aðilar standi við loforð sín, eftir því sem frekast er unnt.

Þá vil ég að lokum svara hv. 4. landsk. og endurtaka það, sem ég hefi sagt áður, að í okkar grg. er tekið fram, hvernig ætlazt er til, að landhelgisgæzlan verði, sem sé að Ægir og Óðinn annist björgunarstarf og gæzlu að vetrarlagi og annað skipið verði við Suðurland, sérstaklega við Vestmannaeyjar. Og þó að ekki séu ætlaðar nema 400000 kr. til þessarar starfsemi eftir till. n., þá kemur þó þar til viðbótar eitthvað af sektarfé í landhelgisjóð eins og vant er, þó að það sé óviss upphæð. að halda uppi ferðum þetta ár, eins og hingað til, og með tilliti til þess, að einnig hefir komið fram, að ef sérstök vandræði verða með póstflutninga, verði Súðin einnig tekin í póstflutninga, þá segi ég já.