28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

1. mál, fjárlög 1940

*Frsm. samvinnun. samgm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti! Nál. á þskj. 613, frá samvinnun. samgöngumála, gerir dálitla grein fyrir nokkrum breyt., sem fyrirhugaðar eru á styrkveitingum til flóabátaferða. Í höfuðatriðum mun það skýra nægilega glöggt frá því, sem n. leggja til í þessu máli, og þær hafa viljað gera nál. svo úr garði, að ekki orkaði tvímælis, hvað þær vildu leggja til.

Flóabátaferðirnar verða með hverju ári örðugri vandamál. Það er ekki aðeins takmörkuð fúlga, sem hægt er að veita til ferðanna, heldur eru kröfurnar, sem til þessara samgöngubóta eru gerðar á ýmsum stöðum á landinu, stöðugt að verða víðtækari. Á mörgum stöðum er illt við þetta að eiga vegna þess, hvernig til hagar um samgöngumöguleika á sjó, sérstaklega við suðurströndina austan til, þar sem bæði eru hafnleysur og illt að treysta á samgöngur landleiðina. Það er víst, að menn mundu fagna því þar eystra, ef þeir gætu bjargazt án nokkurra flutninga á sjó. Þó að mikið vanti til þess enn, — ekki mjög mikið, ef litið er á hið eiginlega Suðurlandsláglendi, en því meira sem austar dregur, — eru góðar vonir um, að alltryggt vegasamband fáist bráðlega allt að Skeiðará. Það eru ekki nema 1–3 kippir, sem þarf að taka til þess. Auðvitað geta þær samgöngur rofnað aftur í bili af náttúruumbrotum, en ekki nema endrum og eins. Brýr, sem þarna vantar, og eru að vísu bæði í vegalögum og brúalögum, svo sem á Geirlandsá með Stjórn, Eldvatni og Djúpá, verða að koma eins fljótt og unnt er. Suðurlandsbraut er ætlað að ná að Skeiðará. En á meðan þess er beðið, verður að ætla nokkurn styrk til bátsferða með söndunum. Og öræfin eru útilokuð frá vegasambandi á landi, bæði að austan og vestan, að líkindum um alla framtíð, svo að ekki er um annað að gera en halda uppi samgöngum þangað sjóleiðina, bæði fyrir menn og flutning. Nú hefir verið ákveðið að gera tilraun um stórum minnkaðan styrk til flutninga austur að Skaftárósi. Er ætlazt til, að vitaskipið Hermóður leysi Skaftfelling af hólmi í þessum ferðum, og talið nægja að veita til þeirra um 10 þús. kr. alls. Ætti þetta skip, þótt bundið sé af öðrum ferðum í þágu hins opinbera, að geta fullnægt á viðunandi hátt þörfum Öræfinga og Vestur-Skaftfellinga til flutninga á sjó. En allir verða að viðurkenna, að ekki er hægt að kasta þessum ferðum frá sér bótalaust. þegar að því er gengið að ofurselja því opinbera öll ráð yfir samgöngunum.

Annarstaðar hefir ekki orðið hjá því komizt að veita allmiklar fúlgur til flóabátaferða og flutninga með ströndum fram. Þær ferðir eru bundnar við ákveðin svæði, um Faxaflóa, Breiðafjörð, Ísafjarðardjúp o. s. frv. Sum svæðin verða að hafa samgöngur mestmegnis á sjó. Þau hafa gerzt æ erfiðari viðfangs með ári hverju, ekki aðeins vegna þess, hve styrkur er skorinn við neglur, heldur hafa verið illfáanleg þau skip, sem héruðin sjálf geta verið ánægð með. Nú hefir þetta mál verið tekið til nýrrar athugunar af skipaútgerð ríkisins og ríkisstj., og samgmn. hafa reynt að kynna sér það frá sem flestum hliðum. Samgmn. reikna með því, að ekki þurfi nema einn bát hentugan til að annast ferðir um allan Breiðafjörð, og annan t. d. fyrir alla Vestfirði. Sérstaklega hefir verið mögnuð óánægja í Breiðafirði með ferðir þar. Margir bátar hafa þar skipzt á um þær og samvinna þeirra verið lítil eða engin. Nú er ætlazt til, að Breiðafjarðarbátar fái í einu lagi 20 þús. kr., og er það rúmum 4 þús. meira en undanfarið. Ef nokkurstaðar á að sameina ferðir og hafa einn bát, er það á Breiðafirði og um Snæfellsnes og til Flateyjar og Barðastrandar. Sama skip gæti einnig haldið uppi nokkrum samgöngum við Reykjavík, eftir því sem þurfa þætti. Laxfoss hefir verið skyldur til að fara þangað stöku sinnum og notið styrks til þess, en vili losna undan því. Það gæti svo farið, að það yrði gert og afnumið ákvæði um þá skyldu í l. um stuðning til útgerðar hans, frá 1935. En það þótti ekki fært að svo stöddu, og meðan ekki er samið um nýja skipun Breiðafjarðarferða, varð að ákveða, hvað hverjum bát, sem gengur þar nú, skuli ætlað af þessum 20 þús. kr. En það eru til Flateyjarbáts 8500 kr., til Stykkishólmsbáts 4000 kr. og til annara nauðsynlegra bátaferða og flutninga um 1500 kr., en þar hafa verið tilnefndir m. a. Langeyjarnesbátur með 400 kr. og Gilsfjarðarbátur með 300 kr., en Gilsfirðingar og Skógstrendingar o. fl. hafa þótzt mjög illa settir, hvort sem þeir hafa haft sérstaka báta eða báta með öðrum. Til Breiðafjarðarferða Laxfoss eru nú ekki ætlaðar nema 5–6 þús. kr. Annars er það lagt á vald póststjórnar að semja við útgerðarstjórn Laxfoss um póstflutninga.

Í samráði við skipaútgerð ríkisins hefir samvinnun. samgm. ekki séð sér annað fært en hækka að mun ýmsa aðalliði til flóabátaferða. Um Breiðafjörð hefi ég þegar talað. Til Ísafjarðarbáts er hækkað úr 20 í 25 þús., til Skagafjarðarbáts, sem gengur frá Sauðárkróki og Hofsósi til Siglufjarðar, hækkað úr 5 þús. í 6500, til Norðurlandsbáts, sem gengur um Eyjafjörð og til Húsavíkur, hækkað úr 13 þús. í 16500, til Hornafjarðar- og Austfjarðabáts, sem gengur með suðurhluta Austfjarða, hækkað úr 7500 í 9 þús., og þykir þó ekki vera nægilegt, eftir því sem fram hefir komið, og hafa legið fyrir umsóknir, sem ekki hefir þótt fært að verða við. Ennfremur eru veittar litlar fjárhæðir til fjarðabáta norðar á Austfjörðum, til báts við Loðmundaifjörð 500 kr. og til báts sunnan Seyðisfjarðar 1200 kr. Ef það sýnir sig, að með þessum smástyrkjum náist verulegur árangur, er tilraunin mikilsverð, en fyrirfram verður það ekki vitað.

Þá eru 4 þús. kr. ætlaðar Suðurlandsskipi. Eimskipafélagið hefir fengið greiðslur fyrir að flytja vörur með suðurströndinni og reyna að koma þeim á land til bænda, þegar til þess gefur. En oftast gengur svo, að ekki gefur til þess. Þá gengur styrkurinn a. n. l. til þess að fá báta til að taka við vörunum á næstu höfn og skila þeim. Akranesbátur er ennþá á styrk, og hefir hann haldið sama styrk, 1500 kr., eins og aðrir slíkir bátar. Á sama hátt hefir ekki þótt fært að styrkja bátaferðir innan A.-Sk. nema um 1800 kr., þar af til Öræfa 800 kr. En þegar lengra kemur vestur með suðurströndinni, þótti rétt að láta styrkinn til ferða milli lands og Eyja halda sér. Hann er nú 1700 kr. Þar af til Stokkseyrarbáts 1000 kr. Ég skal geta þess, að prentvilla hefir slæðzt hér inn í á tveim stöðum, á öðrum staðnum stendur Stokkseyrar í staðinn fyrir Stykkishólm, og er það augljóst. Einnig orðið „smábátur“, hefir prentazt „smábátar“.

Þá tel ég mig hafa gert fullnægjandi grein fyrir því, sem hér hefir verið lagt til af samgmn. Ég býst við, að það megi fullyrða, að þær vildu gera það bezta úr þessum erfiðleikum, sem hér eru um þessar samgöngur, og þó má vel vera, að það sé víða þörf á meira framlagi, en þá verður vonandi ekki komið með margar till. um að hækka þessa styrki.