28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

1. mál, fjárlög 1940

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég sé ekki ástæðu til að flytja langt mál út af þessum till. fjvn. og samvinnun. samgöngumála, sem hér liggja fyrir og gerð hefir verið grein fyrir af frsm. n.

Ég skal játa, að mér fannst a. m. k. í byrjun þings, að fjvn. hefði farið óvarlega í það að auka framlög, þó til verklegra framkvæmda sé; hinsvegar er það, sem n. hefir gert till. um, ekki svo stórvægilegt, að það eigi að geta ráðið neinum úrslitum. Ég geri ráð fyrir, að hugir manna hafi nokkuð breytzt frá því að þing kom saman í haust um afkomumöguleikana, að það hafi rutt sér til rúms meiri og meiri bjartsýni um hina fjárhagslegu afkomu, og till. bera að sjálfsögðu nokkur merki þess. Hinsvegar vil ég þó engan veginn gera lítið úr viðleitni þeirri, sem n. hefir sýnt á öðrum sviðum í því að færa útgjaldabyrði ríkisins nokkuð saman.

N. hefir borið sig saman við mig um áætlanir tekjuliða fjárl., en till. um þá eru ekki komnar fram enn, en ég vil þó geta þess, að þær till. eru að nokkru leyti byggðar á þeirri bjartsýni, sem ég gat um, að náð hefði yfirtökum í seinni tíð, og ég verð því miður að gera ráð fyrir, að svo kunni að fara, að sú bjartsýni reynist ekki á fullum rökum reist. Þegar þess er gætt hinsvegar, að n. hefir í framhaldsnál. sínu orðað það að gefa ríkisstj. heimild til þess að takmarka útgjöldin jafnvel frá því, sem veitt er í fjárl. og ólögbundið er, um nokkra hundraðshluta þá get ég engan veginn litið svo á, að afgreiðsla fjárl. með þeim hætti, sem útlit er fyrir að hún verði, verði á nokkurn hátt talin óforsvaranleg, jafnvel þó nokkur greiðsluhalli verði óhjákvæmilega á þeim. Að sjálfsögðu eru ekki öll kurl komin til grafar með þeim áætlunum, sem n. hefir gert, en mér skilst, að samkv. þeim áætlunum muni óhagstæður greiðslujöfnuður nema allt að ½ millj. kr. Þar við bætast ýms útgjöld ríkissjóðs samkv. sérstökum l., og það jafnvel af l., sem afgr. munu verða á þessu þingi, svo ætla má, að hallinn reynist nokkru meiri en þarna er gert ráð fyrir. En fái stj. þá heimild, sem látið er skína í af hálfu n. í nál. hennar, þá getur þetta að mínu viti ekki talizt óforsvaranleg afgreiðsla.

Ég sé á þessu stigi ekki ástæðu til að orðlengja um till. fjvn. eða samvinnun. samgöngumála. Till. fjvn. eru að mörgu leyti óhjákvæmilegar leiðréttingar með hliðsjón af óhjákvæmilegri verðhækkun í landinu, og þar skilst mér, að engan veginn sé komið til botns, og þess vegna verði ekki á nokkurn hátt fært að gagnrýna þær till. út frá því, að þar sé of langt gengið í útgjaldaáttina.

N. hefir hinsvegar gert allmargar till. um auknar verklegar framkvæmdir, sérstaklega í vegamálum. Að vísu eru þar felldir niður allstórir útgjaldaliðir, en mér skilst, að brtt. n. geri nokkuð meira en vinna það upp. Mér skilst hinsvegar á öðrum till., er snerta verklegar framkvæmdir, að þær séu þannig til komnar, að þær verklegu framkvæmdir séu þegar unnar, og því aðeins um það að ræða, að ríkissjóður standi við sínar skuldbindingar í sambandi við þær, og það sé jafnvel rétt að taka þær einnig upp í fjárl., svo það komi engum á óvart, að þetta séu upphæðir, sem búið er að stofna til.

Ég læt svo þetta nægja á þessu stigi málsins, eða þangað til ég sé framhaldstill. n. — Um till. einstakra þm. ætla ég ekki að ræða neitt að svo stöddu.