28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

1. mál, fjárlög 1940

*Finnur Jónsson:

Ég er einn af þeim þm., sem þarf víst að nokkru leyti að biðja fjvn. nokkurrar afsökunar af þeim ástæðum, að ég tók fyrri hluta nál. hennar afskaplega alvarlega. Ég bjóst við, að n. myndi flytja ýmiskonar sparnaðartillögur og hafa í frammi niðurskurð á fjárlögum. Og ég tók þetta heitorð n. í fyrri hluta nál. svo alvarlega, að ég skirrðist við að flytja till. á Alþ. um útgjöld, sem ég hefði viljað fá handa mínu kjördæmi. Nú sé ég, að ég þarf að biðja enn afsökunar á, að ég skyldi taka sparnaðartal hennar svona alvarlega, af því að í seinni hluta nál. er þessu raunverulega snúið við. Í staðinn fyrir að standa við þau loforð, sem n. gaf í fyrri hluta nál., kemur hún nú með ýmiskonar útgjaldatillögur, sem ekki er sýnilegt, að beinlínis sé þörf á að framkvæma einmitt á þessu ári. Þetta gerir n. jafnhliða því, sem hún flytur till. um verulegan niðurskurð á ýmsu. sem til atvinnuaukningar myndi horfa. Nú skal ég ekki fara mikið út í þetta, en ég vildi sérstaklega ræða tvo liði í hinum nýju brtt. n., sem hér liggja fyrir á þskj. 636. Fyrri liðurinn er nr. 34 og er við 22. gr. fjárl., um heimild fyrir stjórn síldarverksmiðja ríkisins til að kaupa síldarverksmiðjuna á Húsavík eins og hún var um áramótin 1938–1939, ef viðunandi samningar takast um verð og greiðsluskilmála. Ég verð að segja það, að ég skil ekki almennilega þessa till. að því leyti, að það er sagt, að heimildin nái til að kaupa verksmiðjuna eins og hún var um áramótin 1938–1939. Á að setja verksmiðjuna í sama ástand eins og hún var í um áramótin 1938–1939, eða hver er meiningin? Mér er kunnugt um, að verksmiðjan var um þau áramót í hraklegu ástandi. Það væri ákaflega gott, ef hv. frsm. fjvn. vildi gera svo vel og gefa upplýsingar um, hver meiningin er með þessu hjá fjvn. Í öðru lagi vildi ég koma að því, sem hv. frsm. las hér upp af sérstöku blaði, þar sem talið er, að það sé mjög hagkvæmt fyrir ríkisverksmiðjurnar að eignast þessa verksmiðju. Nú vildi ég vitna í þessu sambandi, ekki til frsm. fjvn., heldur til framkvæmdarstjóra síldarverksmiðja ríkisins um það, hversu hagkvæm vinnslan muni vera í þessari verksmiðju. Ég hefi hér fyrir framan mig skýrslu um síldarverksmiðjur ríkisins árið 1939 eftir Jón Gunnarsson. Þar segir m. a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

[Skýrsluna vantar í hndr. þingskrifarans.] Raufarhafnarverksmiðjan yrði 5000 mála, og er ekki ástæða til að ætla, að vinnslukostnaður yrði þar meiri en á Siglufirði, en þar nemur hann 47 aurum á mál, þar sem vinnslukostnaður á Húsavík myndi á hinn bóginn verða hátt á aðra krónu.

Út af þessari till. verð ég að öðru leyti að segja það, að ég tei það mjög óviðkunnanlegt, er hv. frsm. fjvn. segir, að meiri hl. verksmiðjunefndar sé þessu samþykkur, því að þetta hefir aldrei verið undir hana horið. Ég hefi verið spurður að því, hvort ég vildi mæla með þessu, og ég svaraði, eftir að hafa talað við framkvæmdarstjóra verksmiðjanna, að ég treysti mér ekki til þess. Hann kvaðst í viðtali við mig og Svein Benediktsson vera því mótfallinn, að Húsavíkurverksmiðjan yrði keypt, þar sem hún yrði ekki annað en dragbítur á ríkisverksmiðjunum, til þess að halda síldarverðinu niðri.

Hv. frsm. fjvn. sagði, að það hefði verið gróði á Húsavíkurverksmiðjunni í sumar. Ég veit ekki, hvaðan hann hefir það. (BjB: Ég hefi það frá góðum heimildum). Hann getur ekki haft það frá neinum heimildum. Ég hefi það frá framkvæmdarstjóra verksmiðjunnar, að tap hafi orðið á henni miðað við það, að flytja síldina til Siglufjarðar og vinna hana þar. Auk þess má geta þess, að um sama leyti og ríkisverksmiðjurnar voru að flytja síld til Húsavíkur til vinnslu voru tómar þrærnar á Siglufirði og menn þar á kaupi, sem höfðu ekkert að gera, en á Húsavík var unnið, þar sem verksmiðjureksturinn var allur dýrari og óhentugri. Það er auðvitað hægt að koma hér fram fyrir þingið og segja, að fjvn. vilji gera þetta til þægðar Húsvíkingum og formanni fjvn., að binda ríkisverksmiðjunum þennan bagga, en hitt er ekki annað en blekking, að sjómenn og útgerðarmenn græði á því, að þessi verksmiðja sé keypt. Um það hefði hv. fjvn. getað sannfærzt með því að tala við forstjóra ríkisverksmiðjanna.

Það hefir verið lögð fram áætlun um að auka verksmiðjurnar á Siglufirði um 2500 mála afköst á sólarhring. Ef gert er ráð fyrir 60 daga vinnslu eða 150 þús. mála yfir sumarið, yrði stofnkostnaður 50 þús. kr., eða um kr. 3.30 á mál yfir sumarið, en 500 mála verksmiðja á Húsavík gæti á sama tíma unnið úr 30 þús. málum, en stofnkostnaður yrði þar 300 þús. kr., eða 10 kr. á síldarmál á ári. Svona verksmiðja yrði því ekki samkeppnisfær við stærri verksmiðjur. Ég vona, ef umr. verður ekki lokið í kvöld, að hv. frsm. fjvn. leiti sér nánari upplýsinga um þetta hjá framkvæmdarstjóra síldarverksmiðjanna, sem mun staðfesta, að þessar tölur séu réttar. Ég læt svo útrætt um þetta mál, en vil aðeins bæta því við, að þegar ríkisverksmiðjurnar ákveða síldarverðið, þá gildir það ekki aðeins um þá síld, sem lögð er upp til þeirra sjálfra, heldur líka til verksmiðja einstakra manna. Yfirleitt þýddi það ekki annað en að lækka síldarverðið til sjómanna og útgerðarmanna að binda ríkisverksmiðjunum þennan bagga.

Þá er síðari till. hv. fjvn. Hún er um að stj. síldarverksmiðja ríkisins sé heimilt að lána ríkissjóði 200 þús. kr. vaxtalaust til 10 ára til þess að fullgera veg yfir Siglufjarðarskarð og Raufarhafnarveg. Að þessari vinnu við veginn yfir Siglufjarðarskarð skulu sitja Siglfirðingar að hálfu leyti móti öðrum, þar með taldir reglusamir og duglegir atvinnulausir námsmenn. Niðurlag þessarar gr. ber mikinn keim af þeirri stefnubreyt., sem orðið hefir í fjvn. síðustu daga. Fyrstu daga og víkur þingsins sáu hv. þm. ekki annan árangur af starfsemi n. en tilraunir til að loka skólum landsins fyrir námsmönnum. En nú koma hv. n. og formaður hennar og leggja til, að varið sé verulegu fé frá ríkisverksmiðjunum til vegabóta á Siglufjarðarskarði og láta námsmenn hafa sérstök forréttindi við þá vinnu, til þess að ýta undir menn að sækja skóla, og auk þess hefir hv. form. fjvn. komið því inn í frv. um síldarverksmiðju á Raufarhöfn, að helmingur þeirra manna, sem þar eiga að bætast við, skuli vera skólamenn. Þetta stingur nokkuð í stúf við þá stefnu, sem virtist vera ráðandi hjá hv. n. framan af þingtímanum, að loka skólunum. Það er fjarri mér að hafa á móti því, að námsmenn fái vinnu, og ég hefi oft sjálfur greitt fyrir slíkum mönnum um að fá atvinnu. En ég kann illa við það, að á slíkum atvinnuleysistímum sem þessum sé gengið svo mjög á rétt verkamanna í landinu að láta skólamenn hafa forréttindi að verulegu leyti, þegar úthlutað er vinnu, er ríkið hefir yfir að ráða.

Annars ætlaði ég ekki að fjölyrða um þetta, heldur taka það fram, að mér er ekki kunnugt um, að ríkisverksmiðjurnar hafi fé aflögu. Ég hafði einmitt haldið, að þær vantaði rúmlega einnar milljónar króna erlent lán til þess að koma upp verksmiðjunni á Raufarhöfn. Fyrir nokkrum dögum urðu þær að setja 24 þús. kr. „remburs“ fyrir rafmagnsáhaldi, sem vantaði og ekki var hægt að fá. En nú upplýsir hv. form. fjvn., að ekki sé vandi að taka 200 þús. kr. af handbæru fé verksmiðjanna og leggja í vegagerð. Annaðhvort er, að minn óvitaskapur á sér engin takmörk, eða þá að óvitaskapur hv. fjvn. er takmarkalaus.

Til þess að koma upp verksmiðju á Raufarhöfn og viðbót á Siglufirði hefir fengizt loforð um 360 þús. kr. lán í Noregi. Einnig hafði fengizt ádráttur um lán í Danmörku og Svíþjóð, en í Englandi var málaleitun um lán neitað, og enginn veit, hvort til þess muni koma, að lánin fáist í Danmörku og Svíþjóð. Hv. fjvn. mun eflaust svara því til, að þessi till. komi ekki til framkvæmda nema verksmiðjurnar hafi handbært fé, en í till. fjvn. stendur, að heimilt skuli að taka til láns 200 þús. kr. af handbæru fé verksmiðjanna, alveg eins og verksmiðjurnar vaði í peningum. Hv. fjvn. hefir mjög brotið heilann um fjárhag ríkisfyrirtækja og ætti að vita um fjárhag ríkisverksmiðjanna. Vil ég því gera nokkra tilraun um það, hvort hv. n. telji í raun og veru, að verksmiðjurnar vaði í peningum, með því að leggja fram ásamt öðrum hv. þm. brtt. við þessa till. hv. n. Ég tek það fram, að ég er því hlynntur, að vegur komist yfir Siglufjarðarskarð. Ég hefi lengi dvalið á Siglufirði, og ég get sagt fyrir mig, að mér þætti vænt um að geta skroppið á sunnudögum í bíl yfir skarðið. Ég ber auk þess hlýjan hug til Presthólahrepps, sem er minn fæðingarstaður. En eftir hvorugum þeim vegi, sem um getur í till. hv. fjvn., myndi fara fram nokkur þungavöruflutningur til síldarverksmiðjanna. Siglufjörður er sá bær hér á landi, sem beztar hefir samgöngur á sjó að sumrinu, en yfir skarðið myndi aldrei verða fluttur neinn þungavarningur til bæjarins. (BSt: Allténd þó til þeirra, sem vinna við verksmiðjurnar). Það gæti verið, að til þeirra yrðu fluttir nokkrir pottar af mjólk úr Skagafirði, en bæði er, að það getur ekki talizt nein þungavara, og svo skil ég ekki, að slíkir flutningar geti talizt svo nauðsynlegir, að ástæða sé til fyrir Alþingi að taka það fé, sem safnazt hefir fyrir hjá verksmiðjunum, til þess að leggja í vegagerð sem þessa. Og því síður get ég séð nokkurt réttlæti í því að taka þetta vaxtalaust, þegar ríkissjóður á eftir að taka einnar milljónar króna lán til ríkisverksmiðjanna til þess að þær geti gert það, sem þær þurfa að gera fyrir næstu vertíð. Þó vil ég freista með till., hvað mikið er á bak við þá sannfæringu hv. fjvn., að verksmiðjurnar vaði í peningum. Ég tel a. m. k. ekki rétt að taka fé verksmiðjanna í alveg óskyld fyrirtæki, eins og vegalagningar. En það er kunnugt, að á síðasta sumri varð mjög slæm útkoma hjá mörgum skipum, sem lögðu upp hjá verksmiðjunum, og sjómönnum á þeim. Ef verksmiðjurnar hafa svona mikið fé handbært, þá tel ég réttara, að því sé varið í hlutaruppbót til sjómanna og útgerðarmanna, sem lögðu upp hjá verksmiðjunum á síðasta sumri fyrir kr. 1.50 á mán Ef allt er með líkum, munu verksmiðjurnar hafa grætt á síðasta sumri kr. 4,50 til 5.00 á mál. Því tel ég ekki ósanngjarnt, ef hér er um svona mikið handbært fé að ræða, að það væri notað til að inna þessa litlu hlutaruppbót af hendi. Ég hafði reyndar álitið, áður en ég sá þessa till. hv. fjvn., að ríkisverksmiðjurnar ættu að nota ágóðann af sumrinu til þess að bæta hag sinn, svo að þær gætu gefið meira fyrir síldina á næstu vertíð eða staðizt betur skellina, ef afurðaverð skyldi lækka aftur. En fyrst nú á að fara að ráðstafa þessum gróða á annað borð, verður honum ekki betur varið á annan hátt en þann, að sjómenn og útgerðarmenn njóti hans eins og ráð er fyrir gert í brtt. minni, þó að ég myndi ekki hafa gert till. um að ráðstafa þessum gróða, ef þessi umrædda till. hefði ekki áður komið frá hv. fjvn.