28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (1043)

1. mál, fjárlög 1940

*Thor Thors:

Ég þarf ekki að vera langorður um nokkrar brtt. við fjárl., sem ég ber fram á þskj., sem er því miður ekki enn komið hér inn í hv. d. Allar eru þær, að einni undantekinni, fremur smávægilegar og miða að verklegum framkvæmdum í kjördæmi mínu. Sú fyrsta er um framlag til Hellissandsvegar, að það hækki úr 4000 kr. upp í 6000 kr. Nú sé ég, að í brtt. hv. fjvn. er lagt til, að þetta framlag hækki upp í 5000 kr. Ég get því tekið aftur þessa brtt. mína, þar sem ég geri ráð fyrir, að eftir að hv. fjvn. hefir komið með slíka till. og ákveðið þessa upphæð, sé þýðingarlaust að deila við dómarann.

2. brtt. mín á þessu sama þskj. (637, V. h.) er um 6000 kr. framlag til bryggjugerðar á Hellissandi. Í þessa bryggjugerð hefir verið lagt stórfé á undanförnum árum, en það hefir ekki enn komið að fullum notum vegna ákveðinna mistaka, sem á þessu verki hafa orðið allt frá því fyrsta. Engin áætlun er til um það, hvernig þessari hafnargerð skuli hagað í framtíðinni, en það kemur ekki að sök, ef ríkið vill leggja fram þetta fé, svo að hægt sé að hefjast handa á næsta sumri. Hér er um að ræða fjölmennt kauptún, sem lifir á sjávarútvegi, og allur almenningur þar á allt sitt undir þeim atvinnuvegi.

3. brtt. er um 3000 kr. framlag til bryggjugerðar í Grafarnesi. Hefir áður verið veitt til þessa 1500 króna framlag á fjárl., en íbúarnir hafa ekki getað hagnýtt sér það. Ég skal geta þess, að jörð sú, þar sem þetta hafnarvirki hefir verið gert að nokkru, er ríkiseign, og er því sanngjarnt, að ríkið leggi nokkuð af mörkum til verksins.

Í brtt. minni er farið fram á 2000 kr. til sundlaugar á Hellissandi. Ég sé, að hv. fjvn. leggur til, að veitt sé fé til sundlaugagerðar á nokkrum stöðum landsins, og er þar eflaust um mikla nauðsyn að ræða, en svo er einnig á þessum stað, þar sem flestir unglingar alast upp til þess að stunda sjó.

Þá er smábrtt., sem ég á með hv. 1. þm. Skagf. á sama þskj., að Lárusi Pálssyni leikara verði veittur 1500 kr. styrkur til frambaldsnáms í leiklist og leikstjórn. Hann hefir í nokkur ár stundað leiknám í Kaupmannahöfn og hefir hvarvetna hlotið glæsilegan vitnisburð. Þessi styrkur yrði honum mikill léttir um það, að fullkomna sig í leiklist erlendis, áður en hann kemur heim. Væri það líka mjög gagnlegt, ef hann gæti kynnt sér betur leikstjórn, eins og þörf er á, ef leiklíf á að geta þróazt hér í bæ.

Þá er þýðingarmesta till. mín við 22. gr. fjárl.. sem ég ber fram ásamt tveim öðrum hv. þm., um að ríkisstj. megi verja 50 þús. kr. til þátttöku Íslendinga í heimssýningunni í New York 1940. Eins og kunnugt er, tókum við þátt í heimssýningu í Bandaríkjunum síðastl. ár í fyrsta sinni, en þetta þótti takast þann veg, að Ísland hefir hvarvetna hlotið lof fyrir. Er enginn vafi á því, að þessi sýning hefir mjög orðið til að auka skilning Ameríkumanna á Íslandi og Íslendingum. Hafi verið nauðsyn á því í fyrra að leggja 1 þetta dýra fyrirtæki, hygg ég, að hún sé enn meiri nú. Eftir að Evrópustyrjöldin brauzt út, hefir komið enn betur í ljós, hver nauðsyn okkur er á því að flytja viðskipti okkar vestur um haf, enda höfum við nú orðið að taka upp siglingar þangað vestur, eins og í síðustu heimsstyrjöld. Þessi till., sem flutt er af hv. 2. þm. Eyf. og hv. þm. Ísaf. ásamt mér, er aðeins heimildartill., bundin því skilyrði, að jafnhátt framlag komi frá öðrum. Ég tel, að ekki muni verða tregða á því, að ýms verzlunarfyrirtæki leggi fram fé í þessu skyni, eins og þau hafa áður gert. Mér hefir nýlega borizt bréf frá verzlunarfulltrúa Íslands í New York, Vilhjálmi Þór, sem eins og kunnugt er, var einnig framkvæmdarstjóri Íslandssýningarinnar á síðastl. sumri. Það má gera ráð fyrir — a. m. k. tel ég það næsta líklegt —, að hann verði búsettur þar næsta ár, og má þá telja víst, að starfskrafta hans gæti notið við áframhald sýningarinnar. Hann telur í þessu bréfi, að kostnaðurinn við sýninguna næsta ár muni verða sem næst 10–12 þús. dollarar, þar af sökum mannahalds 4 þús. dollarar, til rafmagns og vatns 2 þús. dollarar, til prentunar á ýmsum ritum með upplýsingum um Ísland og íslenzku þjóðina 1 þús. dollarar, til Íslendingadagsins 600 dollarar, og til ýmislegs 400 dollarar. Þetta verða samtals 8 þús. dollarar, og auk þess má gera ráð fyrir, að 2–4 þús. dollarar eyðist til þess að mála sýningarskálann og setja hann á laggirnar. Vilhjálmur Þór, framkvæmdarstjóri Íslandssýningarinnar, er eins og að líkum lætur mjög hvetjandi þess, að hún verði opnuð á ný á komanda sumri. Mér hefir ennfremur nýlega borizt bréf frá Vilhjálmi Stefánssyni, þar sem hann einnig leggur áherzlu á, að Íslendingar haldi áfram þátttöku í heimssýningunni í New York árið 1940. Í þessu bréfi segir hann m. a.: „Ef ég hefði verið spurður að því, áður en við á síðastl. sumri höfum þátttöku í heimssýningunni, hvort ég ráðlegði Íslendingum að gera það, þá myndi ég hafa neitað því, en nú eftir að ég hefi séð Íslandssýninguna og kynnzt árangri hennar, er ég eindregið hvetjandi þess, að haldið verði áfram á næsta ári.“ Ég hefi heyrt, að Íslandssýningin í New York hafi kostað 70–80 þús. dollara á síðastl. sumri. En nú eigum við kost á fyrir 10% af þeirri upphæð að ná, að ég hygg, enn meiri árangri heldur en á síðastliðnu sumri. Ég skal játa, að 50 þús. kr. eru talsvert miklir peningar, ekki sízt nú á tímum, en þegar það er aðgætt, að verzlun vor Íslendinga er stöðugt að flytjast meir og meir vestur um haf, og að hún verður að gera það, þá er þetta nauðalítið gjald af þeirri verzlunarveltu, sem hlýtur að verða á næstunni við Ameríku. Ég veit, að það er óþarft að fjölyrða sérstaklega um það, hvaða gagn við höfum haft af sýningunni, og við komum til með að hafa, ef við höldum áfram þátttöku í henni, því að það er öllum ljóst, að við verðum að auka viðskipti okkar við Vesturheim. Það er öllum þeim ljóst, sem þekkja til, að búast má við, að þau aukist stórlega, einkum ef okkur tekst að vinna samúð Ameríkumanna og fá þá til að opna hug sinn fyrir því, hve mikil nauðsyn okkur er að auka viðskiptin við þá. Ég hygg, að nú þegar hafi einmitt mjög mikið áunnizt í þá átt að opna skilning manna þar vestra fyrir því, hve mikil þörf Íslendingum er á viðskiptum vestur um haf. Ég dreg það ekki í efa, að þær 50 þús. kr., sem munu þurfa að koma á móti framlagi ríkissjóðs frá einstökum félögum og fyrirtækjum, munu greiðlega verða látnar af höndum. Ég geri ráð fyrir, að einstaka stór verzlunarfyrirtæki, sem lögðu mikið fé til sýningarinnar á síðastl. sumri, muni þegar í stað gera það; fyrirtæki eins og t. d. Eimskipafélag Íslands, Samband íslenzkra samvinnufélaga, Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda, fiskimálanefnd, síldarútvegsnefnd og síldarverksmiðjur ríkisins, sem öll hafa stórra hagsmuna að gæta í þessum viðskiptum; það væri óhyggilegt af þeim að leggja ekkert fé fram til þessarar sýningar, enda munu þau láta skerf til auglýsinga vestra. Ég leyfi mér því að vænta þess, að hv. Alþ. hafi fullan skilning á nauðsyn þessa máls og taki þessari till. því vel.