28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

1. mál, fjárlög 1940

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vildi ekki tefja mjög fyrir þeim, sem eru á mælendaskrá, og bið afsökunar á því að gera það. En út af 37. brtt. á þskj. 636, sem er um það, að veita heimild handa stjórn síldaverksmiðja ríkisins, ætla ég að tala um nokkuð, sem ég gleymdi í fyrri ræðu minni, en vil nú taka fram, áður en lengra er farið.

Ég hefi ástæðu til að halda, að þetta mál liggi ekki eins einfalt fyrir og það er tekið. Ég vil beina nokkrum orðum til þeirra, sem hafa áhuga á málum Siglufjarðar, eins og hv. þm. Ísaf. (FJ). Rétt er, að það sé tekið fram, að ekki eru líkur til, að síldarverksmiðjurnar hafi á næstunni handbært fé upp í þær skuldir, sem á verksmiðjunum hvíla, þó maður telji aðeins lausaskuldir. Eins og hv. þm. Ísaf. tók fram, þá vantar þær peninga til að greiða þær nýju verksmiðjur, sem hafa verið settar á stofn á Raufarhöfn, og stækkun verksmiðjunnar á Siglufirði; þó að þær gætu aflað sér fjár, þá verða þær að fá allt rekstrarfé sitt að láni hjá Landsbankanum, og fyrst um sinn mun aldrei koma sú stund, að þær skuldi ekki fé hjá bönkunum hér í Reykjavík. Ef þessi till. yrði samþ. hér á Alþ., ætti stjórn síldarverksmiðjanna að labba ofan í Landsbankann og fá lán til að leggja veg yfir Siglufjarðarskarð. Ég tel, að það sé eingöngu viðskiptalegur misskilningur, að ætlast til lántöku upp á þær spýtur.

Ég vil henda á það, að ef þessi till. á að miðast við það, að síldarverksmiðjurnar hafi handbært fé, þá eru engar líkur til þess, að vegurinn yfir Siglufjarðarskarð verði lagður á næstunni, og er það bjarnargreiði fyrir málið að samþ. þessa till., þar sem tilgangur hennar næst ekki, því að ekki er hægt að ætlast til þess, að bankarnir láni verksmiðjunum fé í þessu skyni. Ég vil benda þeim hv. þm. á, sem ég veit, að hafa margir áhuga á þessu máli, að breyta till. þannig, að ríkisstj. sé heimilað að taka ákveðna upphæð að láni til að leggja þennan veg, eða bera fram brtt. við fjárl. um, að ákveðin upphæð verði veitt af ríkisins hálfu. Þá kemur til greina, að Siglufjarðarbær, eða þeir þar heima fyrir, reyni að fá sér lán út af loforðum um vinnu til þess að vegurinn yrði lagður. Ég hefi heyrt það hjá mörgum, að þeim finnst mjög óheppilegt, að síldarverksmiðjum ríkisins sé blandað inn í þetta mál, þar sem þær hafa ekki fé til reiðu. Það er ákaflega hætt við, að það yrði talin hrein aukagreiðsla, sem óverjandi væri að íþyngja rekstri verksmiðjanna með. Ég vil leggja áherzlu á, að við atkvgr. um þessa brtt. um lántöku verksmiðjanna fæst alls ekki úr því skorið, hverjir þm. vilja, að vegurinn sé lagður. Ég vil beina því til hv. nm. og þeirra hv. þm., sem hafa áhuga á, að vegurinn verði lagður, að reyna að finna einhverja slíka leið. Ég mun fyrir mitt leyti ekki greiða atkv. með brtt. um lántökuna, því að ég er á móti því, að sú regla verði tekin upp, að láta éta upp vegaféð fyrirfram með slíku móti. Ég mun greiða atkv. með till. frá fjvn., að í fjárl. verði ákveðin fyrsta fjárveiting af allmörgum, og þeir, sem hafa áhuga á þessu, geta borið fram varatill. til að fá úr því skorið, hvað samþ. verður. En það er óeðlilegt, að verksmiðjurnar leggi fram lánsfé í því skyni, úr því að þær hafa ekki annað fé, og ég vil taka fram, að ég er því andvígur. Ég býst ekki við, að umr. um fjárl. verði lokið í nótt, og verður þá tækifæri til að athuga þetta á morgun, og geta hv. þm. þá flutt till. um það.

Hv. þm. Snæf. (TT) flytur till. um, að hæstv. ríkisstj. leggi fram fé til New York sýningarinnar. Ég segi, hvers vegna þarf endilega að flytja það sem heimild? Hvers vegna getum við ekki ákveðið það í fjárl., eins og við gerðum á sínum tíma, þegar við ákváðum hér á hv. Alþ. að taka þátt í heimssýningunni í New York? Ég vil vara menn við því að byrja aftur á því að samþ. stórar upphæðir í fjárl. sem heimildargreiðslur fyrir ríkisstj., en þora ekki að horfast í augu við, hvað sé greitt úr ríkissjóði. Ég vil mælast til, að hv. þm. Snæf. breyti till. sinni á þann hátt, að ákveðin upphæð verði veitt úr ríkissjóði til þátttöku Íslendinga í heimssýningunni í New York, og komi þá fram, hvort þingvilji er fyrir því, og ef ekki fæst þingfylgi fyrir þessari fjárveitingu, væri ekki heldur rétt, að ríkisstj. notaði slíka heimild, þótt til væri. Það á ekki að byrja aftur á því að taka upp langa runu af heimildum aftan við fjárl. fyrir ríkisstj., sem búast má við, að verði notaðar að meira eða minna leyti, og láta svo koma fram miklar umframgreiðslur þegar landsreikningurinn kemur.